Saturday, June 19, 2010

Sólskinsdagur fyrir norðan





Margar ástæður voru þess valdandi að ég dreif mig norður til mömmu síðdegis á þjóðhátíðardaginn okkar. Mamma var nýbúin að týna öðrum tanngarðinum sínum og skipulögð leit var gerð og engu sleppt, en líklega hafa þær lent í ruslið, þar sem minnið hennar mömmu blessaðrar er orðið afar slæmt og hún farin að gera ýmsa hluti sem hún hefur ekki gert áður.
Lóðin heima í Hlíð var líka orðin kafloðin, svo að ég var hálfan dag að berjast við að slá hana og hreinsa, í sól og steikjandi hita, með svart ský af bitmýi í kringum mig sem beit mig hressilega, svo ég er bólgin og með pirrandi kláða.
Ég var svo boðin í afmælisveilsu hjá Sigrúnu vinkonu sem var 55 ára í gær og að sjálfsögðu mættu öll systkini hennar nema eitt, auk foreldra hennar og annarra nánustu fjölskyldu meðlima og tengdafólks.
Systkinin frá Þórðarstöðum eru alveg einstaklega dugleg og viljug að koma saman og halda upp á afmæli og alla atburði í stórfjölskyldunni. Þar sem þau eru samtals 9 auk foreldranna, þá eru þetta býsna mörg afmælisboð á ári og að auki öll merkisafmæli tengdafólksins og uppákomur vegna útskrifta, giftinga og afmæla afkomenda þeirra. Það er örugglega varla til nein fjölskylda sem gerir betur hvað þetta snertir :)
Að síðustu kom svo Didda systir ásamt Rúnari sínum á stóra bílnum með hornsófann sem við keyptum og settum í stofuna. Ég var búin að flytja gamla sófasettið niður í kjallara og rýma vel til og þrífa og sófinn alveg smellpassaði, svo stofan er eins og ný og vafalaust verður notalegt að sofa þar þegar færi gefst til þess.
Umhverfi Húsavíkur var hreinlega lillablátt af lúpínu, upp um alla hóla og hæðir og sjálft fjallið nánast orðið þakið af blómum. En ennþá var smá snjófönn eftir í dagmálaláginni, spurning hvaða dag hún muni hverfa ???
Þetta var stutt en gott helgarfrí á heimaslóðum og ég hlakka til að fara í frí og geta stoppað þar svolítið lengur í næsta mánuði :)

No comments: