Wednesday, July 14, 2010

Afmælisferð til Húsavíkur




Þriðjudaginn 13. júlí varð blessuð mamma 84 ára. Hún var búin að óska eftir því að við færum með hana á heimaslóðir hennar ef hægt væri um þetta leyti og auðvitað vonuðum við að bæði heilsan hennar væri nógu góð og veðrið sömuleiðis, svo hægt væri að uppfylla þessa árlegu ósk hennar. En því miður var hún mjög slæm í bakinu og alls ekki ferðafær og veðrið á afmælisdaginn var heldur í dimmara lagi, þó það létti til er líða tók á daginn. En daginn áður var glaða sól og hlýja, svo við vorum léttklædd við að slá lóðina heima í Hlíð og mamma kúrði á afmælisdaginn og lét okkur stjana við sig, auk þess sem nokkrir gestir komu og spjölluðu við hana og okkur, færðu henni blóm og þáðu kaffi. Við sátum líka og hlustuðum á þátt um Svínadal sem var í útvarpinu síðdegis og tókum lífinu með ró, enda búin að vera rösk við að henda rusli úr kjallaranum og þrífa hann nokkuð vel.
Loks í gærkvöld fórum við svo í matarveislu til Villu og Fúsa ásamt Sigrúnu og Hauk og áttum þar saman yndislegar samverustundir. Sólin var þá aftur farin að skína og við nutum þess að rölta í kvöldblíðunni heim með Sigrúnu og Hauk sem er orðinn furðu hress og lítur vel út eftir allar krabbameinsmeðferðirnar, en þeim er nú loksins lokið og við óskum honum góðs bata sem fyrst, svo líf þeirra geti aftur farið í fastar skorður eins og áður :)

1 comment:

Asdis Sig. said...

Sæl mín kæra.
Aldeilis margar skemmtilegar myndir hér að neðan. Til hamingju með mömmu þína, ég sé að þau eru jafngömul hún og pabbi. Hlakka mikið til að koma norður í næstu viku. Kær kveðja Ásdís Sig.