Tuesday, July 27, 2010

Flottir mærudagar á Húsavík








Mærudagar á Húsavík eru árviss viðburður, síðustu helgina í júlí og hefur yfirleitt hist svo vel á að veðrið hefur leikið við bæjarbúa og gesti sem þangað hafa komið af þessu tilefni. Mærudagar þýðir "Sælgætisdagar", enda er Mæra gamalt íslenskt orð yfir nammi og hafa Húsvíkingar haldið því á lofti - Guð má vita hve lengi :)
Vegna hagstæðs veðurs þá létum við systur og makar sitja fyrir að laga húsið að utan, m.a. að skrapa. fúaverja og mála alla gluggana og útihurðina o.fl. og blessuð mamma sat svolítið á hakanum, þar sem heilsa hennar var ekki góð og hún gat því lítið verið með okkur. En við reyndum líka að taka þátt í hluta af mörgum dagskrárliðum sem boðið var uppá. Rúnar passaði Adam afastrák og lofaði honum að leika sér í leiktækjum klukkustundum saman. Hann fékk líka að taka þátt í kapphlaupi og horfa á leiksýningu o.fl. eins og að fylgjast með Laiser-tag leikjum krakkanna sem léku sér í skóginum við húsið okkar. Hann fékk líka gervi tattú sem á víst að tolla í nokkrar vikur.
Við hin skoðuðum söfn, ljósmyndasýningar og listasýningu auk þess að rölta um útimarkaðinn og versla smávegis í rjómablíðunni.
Við mættum öll kvöldin niður fyrir bakkann til að hitta gamla ættingja og vini og spjallað var fram á nætur yfir bjór og heitu kakói.
Við leyfðum okkur að fara út næstum daglega að borða á nokkrum stöðum, skruppum til okkar góðu vina Sigrúnar og Hauks og auðvitað mættu Villa og Fúsi líka.
Nokkuð margir ættingjar komu í heimsókn og gönguferð eftir nýjum skógarstíg fyrir ofan húsið okkar var með því óvæntasta sem við gerðum. Síðast en ekki síst þá skruppum við í vöfflukaffi til Adda og Stellu, en þar var árlegt kaffboð fyrir alla gesti og gangandi í ljómandi hlýlegum og fallegum garði þeirra við Ásgarðsveg.
Þar hittum við líka marga og spjölluðum heilmikið.
Að síðustu festum við á kubba heilmikið af myndum sem gaman væri að hafa til sýnis, en hér koma aðeins nokkur sýnishorn til fróðleiks og vonandi til gamans fyrir einhverja :>)

1 comment:

Asdis Sig. said...

Snilldar myndir í síðustu þrem færslum. Þið hafið aldeilis fengið blíðu í Jökulsárgöngunni. Ég er nú vís með að stela einhverjum myndum af "ýmsu fólki" frá þér, margar flottar. Kveðja úr sólinni