Monday, June 01, 2009

Sólrík Hvítasunna á Húsavík





Í dag 1. júní og síðustu 3 daga var glaða sól á norðausturlandi. Ég eyddi þessari Hvítasunnuhelgi norðan heiða ásamt Diddu systur í heimsókn hjá mömmu og öðrum ættingjum og vinum á Húsavík. Við systur settum líka niður útsæðið sem beið tilbúið til niðursetningar og fleiri ættingjar og vinir voru á sama tíma að pota niður kartöflum við hlið okkar, svo að stóri kartöflugarðurinn sem sjá má á meðf. mynd er núna fullfrágenginn og mikill munur að sjá umhverfið sem orðið er grænt, en var gult og litlaust fyrir nákvæmlega mánuði síðan þegar ég tók mynd á sama stað þann 1. maí s.l. (sjá mynd frá þeim tíma hér neðar...)
Við systur fórum í langan og góðan göngutúr í gærkvöld og nutum veðurblíðunnar. Við skruppum líka með mömmu upp að Botnsvatni, þar sem fjöldi fólks var á gangi í blíðunni og nutum sólarinnar heima í Hlíð, eftir að hafa slegið lóðina sem var orðin loðin og gul af fíflum. En eins og sjá má þá er snjórinn enn mikill í kinnarfjöllunum þó allt sé orðið grænt niðri í byggð. Húsavíkurfjallið er líka orðið næstum snjólaust, aðeins smá fönn eftir sem verður fljót að fara ef veður helst áfram jafn gott. Þetta var því óvenju sólrík og hlý helgi miðað við árstíma og allir virtust ánægðir með það :)

No comments: