Tuesday, May 26, 2009

Dýralíf fjarðarins er líflegt núna...




Dýralífið hér í firðinum hefur verið óvenju líflegt undanfarið. Aragrúi fugla er kominn og sestur hér að til að verpa, hvalir hafa séðst hér undanfarna daga í firðinum og virðast í vaðandi átu, enda má líka sjá kríuhópa í vaðandi síli við fjörurnar og alls staðar er iðandi líf hvert sem litið er.
Í gærkvöld fórum við Rúnar að leita að kríueggjum, því ég var beðin um að fylgjast með varpinu í sumar og tilkynna fyrstu eggin, fjölda þeirra o.s.frv...
Satt best að segja þá fundum við mikið fleiri kríur og egg en við reiknuðum með og það sem meira er, við fundum fjölmörg hettumáfshreiður á sama stað. En hettumáfar eru nú ekki í uppáhaldi hjá okkur, því þeir hafa verið iðnir við að éta egg og unga og því ákváðum við að taka nokkur egg frá þeim og kanna hvort þau væru ennþá æt.
Svo reyndist vera og þakka ég fyrir tækifærið að fá að smakka þau aftur eftir áratugi, því ég ólst upp við það sem barn að tína egg undan hettumáfum og borða þau, ásamt kríueggjum sem eru einhver bestu egg sem ég fæ, þá sjaldan ég smakka þau.

Í glaða sól snemma í morgun skruppum við síðan á sjó til að líta á hvalinn sem við sáum blása hér í firðinum í gærkvöld. Þetta var meðalstór hnúfubakur, það við best gátum séð. Hann var hinn rólegasti til að byrja með og mér tókst að taka nokkrar myndir af honum örfáa metra frá bátnum. En síðan forðaði hann sér, hefur líklega talið það öruggara eða e.t.v. hefur ætið í sjónum freistað hans, svo við snérum heim á leið. Meðfylgjandi eru myndir frá þessum náttúrulegu viðburðum sem við fengum heiður af að njóta.... gjörið svo vel :)

No comments: