Monday, May 04, 2009

Helgarfrí norðan heiða...




Það kom sér vel að 1. maí var á föstudegi, þá fékk maður langa fríhelgi og ég notaði tækifærið og skrapp í heimsókn norður til mömmu. Ég var heppin með veður eins og oftast á þessum ferðum mínum norður og við mamma skruppum á rúntinn eins og við erum vanar, þó náttúran sé lítið augnayndi enn sem komið er. Húsavíkurfjall og heiðarnar í kring eru ennþá ansi hvítar af snjó, en niðri í bæ er orðið autt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ég tók.
Ég undirbjó útsæðið því kartöflugarðurinn er orðinn auður og ég ætla að pota niður í hann eftir tæpan mánuð ef ég mögulega get. Ég fann nokkrar gamlar myndir heima í Hlíð og var svo heppin að fá góða hjálp frá Valda frænda mínum sem þekkti alla á þeim. Ég skrapp líka í heimsóknir til vina og ættingja, m.a. til Önnu Mæju sem var með barnabörnin í heimsókn. Emelíana sem er elst ömmubarna hennar æfir fimleika sem greinilega bera góðan árangur, því daman lék sér að því að fara í spitt og spígat, brú og stóð á höndum. Mig langaði alltaf til að geta þetta sem barn, en tókst illa upp, enda ekki í viðeigandi þjálfun. Það eina sem ég gat gert skammlaust á þessu sviði var að standa á haus ;)

No comments: