Thursday, June 11, 2009

Sjómannadagshelgin o.fl...




Sjómannahelgin var ósköp hefðbundin og sjálfri sér lík að því leyti að veðráttan var söm við sig, súld og kuldi allann laugardaginn, en sem betur fer birti til á sunnudag og sól skein meiri hluta dagsins, þó ekki væri golan hlý.
Bergþór okkar kom heim til að hitta skólafélaga sína, en þau áttu 10 ára fermingarafmæli og margir fleiri árgangar mættu til leiks í tilefni ef áratuga tímamótum, en slíkt er orðið að föstum vana hér, sem betur fer, því það væri ansi tómlegt á hátíðinni án þeirra. Hver árgangur sér líka um eina uppákomu og skemmta sér og öðrum af miklum móð.
Rúnar lenti í smá óhappi á laugardaginn þegar hann var að keppa, þá datt hann illa á fiskikar og einn fingur hægri handar fór rækilega úr lið, svo ekki var um annað að ræða en kippa honum aftur í liðinn, sem hann og gerði sjálfur og hélt svo áfram að keppa. Fingurinn bólgnaði auðvitað mikið og var lítt nothæfur næstu daga, en vonandi jafnar hann sig með tímanum :)
Þó áhöfn togarans Gullvers mæti alltaf á matinn og ballið, þá dugar það ekki til að fylla salinn og bera uppi svona samkomu, þess vegna eru þessi árgangamót ómissandi og allir virðast skemmta sér vel.
Á mánudagsmorguninn var gott veður svo að við Rúnar skelltum okkur í eggjamælingar, en við þurftum að vigta og mæla nokkur kríuegg sem ég var áður búin að velja og merkja, til að fylgjast með útungunarstigi þeirra. Það gekk vel, en aldrei höfum við orðið fyrir meiri og herskárri árásum kríanna en í þetta sinn. Þær drituðu okkur öll út og hjuggu miskunnarlaust í höfuð okkar, svo að Rúnar ber 2 höfuðsár eftir, en ég var sem betur fer með hettu og slapp því með skrekkinn.
Ég brá mér einnig í smá leiðangur með nýlega myndavél til að festa fuglana og egg þeirra á filmu því að ég var búin að finna nokkur anda, gæsa og spörfuglahreiður sem mig langaði að eiga myndir af. Það er hinsvegar erfiðara að taka myndir af fuglum, það er mjög tímafrekt og krefst þess í raun og veru að maður hafi nógan tíma og endalausa þolinmæði, svo ég tali nú ekki um að kunna að nota vélina og aðdráttarlinsuna rétt, svo útkoman verði nothæf.
Ég læt fljóta hér með sýnishorn af myndum af því sem hér hefur verið um rætt...
Eigið góða viku framundan og vonandi verða veðurguðirnir mildir við okkur í sumar :)

No comments: