Sunday, June 28, 2009

Góð helgi norðan heiða !




Síðastliðið fimmtudagskvöld eftir vinnu ók ég norður á Húsavík og var satt að segja fegin að það var súld og þoka meiri part leiðarinnar, því það var mun skárra heldur en kvöldsól beint í andlitið eins og síðast þegar ég ók norður.
Föstudagurinn var síðan mikið betri, það skein sól á köflum, ég keypti sumarblóm og setti á leiði pabba og rúntaði með mömmu áður en ég þurfti að fara til Akureyrar að sækja Rúnar þar sem hann er með Gullver í slipp og fékk helgarfrí kl. 18. Við fengum okkur að borða á Bautanum og kíktum í heimsókn til Guðnýjar frænku áður en við renndum heim á "gömlu" Vík.
Laugardeginum eyddum við síðan með mömmu í glaða sól og blíðu á hennar æskuslóðum á Bjarmalandi. Við skruppum líka í Ásbyrgi og vorum mjög ánægð með hvað hún var hress og naut dagsins. En svo þreytt var hún er heim kom að hún hafði varla lyst á kvöldmat. Vonandi man hún bara eftir þessum góða degi, þó lítil von sé til þess, þar sem skammtímaminni hennar er á þrotum.
Eins og venjulega tók ég myndavélar með mér og að þessu sinni hafði ég stóra aðdráttarlinsu meðferðis, sem ég lék mér með og notaði til að taka myndir af húsunum á Húsavík og ýmsu fleiru, m.a. af lúpínubreiðunum sem eru orðnar fyrirferðarmiklar, því allt umhverfi bæjarins er bókstaflega orðið fjólublátt af lúpínu. Við höfum aldrei séð slíkt blómskrúð þar fyrr og finnst nú eiginlega komið nóg...!
Eftir að hafa hitt systkini mömmu og kvatt þau öll ásamt mömmu, þá renndum við inn á Akureyri, með viðkomu á bílasafninu í Ystafelli.
Það er stórmerkilegt að skoða hve mikið af glæsilegum gömlum bílum þeir eigendur safnsins eru búnir að laga og byggja yfir stórar skemmur. Það væri hægt að eyða þar heilum degi án þess að leiðast.
Við kíktum líka á flugsafnið á Akureyri þegar þangað kom, það var líka gaman að skoða það, en síðan varð ég að kveðja minn mann sem varð eftir í notalegri og rúmgóðri íbúð sem AFl starfsgreinafélag á þar nyrðra og ók svo sem leið lá til baka að Fosshóli, þaðan upp í Mývatnssveit og loks austur á Seyðisfjörð.
Það var óvenju mikið umferð bæði í kvöld og þegar ég fór norður. Lögreglubílar stóðu vaktina eins og venjulega á tveim stöðum á fjöllunum svo það var eins gott að geta notað krús-controlið til að fara aldrei yfir hraðamörkin, því ekki vil ég lenda aftur í að vera tekin fyrir of hraðan akstur... það er nóg að lenda einu sinni í slíkri uppákomu :o(
Vonandi hafa bara allir komist leiðar sinnar heilir á húfi þessa helgina, það skiptir jú mestu máli...

1 comment:

Asdis Sig said...

Yndislega myndir af Víkinni okkar. Gaman hvað þið áttuð góða ferð. Kveðja austur.