Monday, June 22, 2009

Miðsumargangan 2009




Fyrir ári síðan fór hópur Seyðfirðinga í Fossgöngu upp með Fjarðará, upp að minnismerkinu um Þorbjörn bílstjóra og var það býsna strembin ganga fyrir óvana.
Þar sem Rúnar var á sjó þegar ég fór í þessa göngu, þá ákvað ég að ganga aðra fossgöngu með honum að þessu sinni 21. júní, en vegna úrhellis rigningar sem skall á okkur þegar við vorum að leggja af stað, þá frestuðum við för þar til í morgun 22.
Við fórum að vísu akandi upp á heiði, skildum bílinn þar eftir og gengum niður með öllum fossunum, en þeir eru býsna margir ofan við minnismerkið. Gangan varð því talsvert lengri í þetta sinn, en á móti kom að allt var niður í móti og því ekki alveg eins þreytandi, þó mér þætti alveg nóg um að brölta svona lengi í ógreiðfærum móunum.
Við komumst ekki hjá því að sjá að bláberjalyngið var allt þakið í sætukoppum, svo að það lítur út fyrir að ætla að verða góð berjaspretta í ár, ef ekki kemur nein kuldatíð eða hret til að eyðileggja það.
Mér finnst það alltaf tilhlökkun og viss forréttindi að geta skroppið hér upp í brekkur og tínt heil ósköp af nýjum, góðum berjum þegar haustar og hlakka til þess, þó ekki hlakki ég nú til vetrarins sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfarið...

1 comment:

Asdís Sig. said...

Sæl Solla mín. Ég er búin að lesa allt bloggið þitt og hafði gaman af.Innilega til hamingju með útskriftina. Jónína er ekki bekkjarsystir Tedda, hún er ári yngri en við. Aldeilis fallegar myndir úr firðinum þínum og dugleg eruð þið að ganga. Kær kveðja