Wednesday, June 21, 2006

Sumarstörfin í garðinum...


Heil og sæl á ný og gleðilegt sumar !
Það er best að sleppa því að afsaka kæruleysið við bloggið, enda hef ég áður nefnt hve aftarlega það er í minni forgangsröð.
Það sem ég hefði helst viljað minnast á að þessu sinni er, að sumarið og sólin er til að njóta þess, eins og hver og einn hefur kost á og löngun til. Gildir þá einu hvort maður gerir það liggjandi í sólbaði, á ferð um landið okkar eða við sumarstörfin í garðinum. Að meðtaka vítamín úr geislum sólarinnar er mér lífsnauðsyn, rétt eins og að drekka vatnið sem við getum ekki lifað án.
Margir reyna að losna við þá miklu vinnu sem fallegir heimilisgarðar krefjast með því að hafa eins litla og einfalda garða og kostur er. Aðrir njóta útivistarinnar innan um gróðurinn og dunda þar hverja stund sem þeir hafa. Ég er ein þeirra sem nýt þess að hafa fallegan garð og gróður, en kysi að losna við sumarlanga baráttu við illgresið sem aldrei er hægt að losna við. Að minnsta kosti kann ég engin önnur ráð en að rífa það upp eða eitra. Síðari kostinn nota ég aðeins í neyð, þannig að sérhverja frístund sem vel viðrar nota ég til garðvinnu, svo ég geti uppfyllt löngun mína til að koma lóðinni í það horf sem mig dreymir um - hvenær sem það nú verður...?
En hvað sem garðvinnu og útivist líður, þá vona ég að allir Íslendingar njóti sumarsins, hver á sinn hátt og á þá ósk að veðráttan verði okkur hliðholl með hæfilegri sól, hlýju og vætu....