Monday, July 23, 2007
Brúðkaup og sumarfrí
Dagsetningin 070707 heillaði greinilega marga Íslendinga sem ákváðu að ganga í hjónaband á þessum degi, hver sem ástæðan var, allavega er ólíklegt að þessi dagsetning gleymist, svo mikið er víst.
Við Rúnar vorum boðin á þessum degi í brúðkaup Guðrúnar Lúðvíksdóttur frænku hans á Selfossi, en athöfnin fór fram í Eyrarbakkakirkju og glæsileg veislan var haldin þar á staðnum, í sama húsi og Draugasetrið er nú til húsa. Við notuðum tækifærið og skoðuðum safnið sem er að mörgu leyti skemmtilegt og nútímalega uppsett.
Veðrið lék við okkur næstu daga, við vorum á húsbílnum og fórum rúnt um Flóann, heimsóttum Skálholt og Önnu móðursystur Rúnars í bústaðinn hennar og fleira.
En meirihluta frítímans notuðum við með afkomendum okkar, bæði í Keflavík og Hafnarfirði auk þess sem við létum loksins verða af því að skreppa út í Viðey. Það reyndist mjög áhugaverð ferð og ánægjuleg í glaða sólskini.
Síðan tók við ferð norður til Húsavíkur, þar sem við héldum óformlega uppá 81. afmælisdag mömmu og nutum einnig samvista við dótturson okkar, hann Adam, sem þurfti á gæslu að halda á meðan Jóhanna naut samvista við gamla skólafélaga sem hittust á ný af gefnu tilefni.
Ferðinni lukum við heima á Seyðisfirði ásamt Jóhönnu og Adam og fórum m.a. með þau út í Skálanesbjarg í blíðskaparveðri. Siggi og Bergþór birtust svo tímanlega til að taka þátt í uppskeruhátíð LungA sem fór vel fram í rjómablíðu og var skipuleggjendum til sóma.
Raunar er varla hægt að segja annað en að hér á landi hafi verið sannkölluð veðurblíða í allt sumar. Ég man ekki eftir jafn vætulitlu sumri og löngum og góðum sólarköflum síðan 1976 og 77. Víða um land hefur rignt of lítið og má sjá þess merki víða, m.a. á berjasprettunni, sem er ótrúlega góð, þó berin séu í smærra lagi vegna vætuleysis. En þau eru mörg orðin fullþroskuð þó ennþá sé aðeins júlímánuður....
Að lokum má geta þess, að í dag, 230707 eru 30 ár síðan við Rúnar giftum okkur hér í Seyðisfjarðarkirkju og til gamans má geta þess að það eru líka þrjár sjöur í okkar brúðkaupsdagsetningu, þ.e. 23.07.77.
Subscribe to:
Posts (Atom)