Tuesday, May 20, 2008

12 dagar á Spáni



Heil og sæl, þá er vorfríið liðið og hversdagsleikinn tekinn við aftur. Ég held við séum öll sátt við það, enda tilbreytingin aðeins nauðsynlegt krydd í tilveruna.
Þessa 12 daga sem við dvöldum í húsinu hans Jóa Fjörugoða í Torrevieja, var heldur svalt í veðri og úrkomusamt. Það rigndi allan fyrsta daginn og þrumur og eldingar fylgdu með. Við höfðum samt nóg fyrir stafni, því það þurfti að versla inn í matinn fyrir næstu daga og skoða nágrennið. Þar sem við höfðum góðan bílaleigubíl allan tímann, þá var þetta mjög auðvelt. Við dunduðum okkur líka við að spila Yatzy og Casínu og fleira skemmtilegt og höfðum það notalegt við kertaljós eftir að dimma tók.
Næstu daga var úrkoman minni og sá til sólar af og til í gegnum skýjahuluna. Við notuðum hvern dag til að fara á einhvern áhugaverðan stað, m.a. í dropsteinahellir uppi í fjöllum, til Benidorm að skoða gamlar slóðir (og það reyndist mjög skemmtilegt). Þar hittum við gamla skólasystur mína frá Húsavík sem sagði okkur að Boddi föðurbróðir minn væri á sama hóteli og hún. Við skruppum því og heimsóttum hann og buðum honum með okkur út að borða. Þetta varð því óvænt gaman. Síðan fórum við einn daginn í dýragarð með Adam litla og annan dag í Terra Mittica garðinn sem var orðinn enn flottari en síðast þegar við vorum þar (1999).
Einnig þræddum við strandbæi og heimsóttum Elísabetu og Þorberg Þórarins sem hafa dvalið þarna suðurfrá s.l. 6 ár. Í EB-garðinum rétt hjá þeim var helgarhátíð, lík Víkingahátíðinni hér heima. Þar dóluðum við okkur daglangt. Einn dagpart fengum við nóga sól til að skreppa niður á strönd og sóla okkur smá stund. Nokkrar ferðir voru farnar í sundlaugina sem fylgdi raðhúsunum á okkar svæði og nokkrum tímum eyddum við á svalaþakinu í von um að fá pínulítinn lit á kroppinn. Annars liðu dagarnir ótrúlega hratt. Við vorum löt á morgnana, sváfum frameftir því það var svo kalt úti fram undir hádegi. Á kvöldin röltum við gjarnan í bæinn til að borða eða elduðum heima og skemmtum okkur sjálf með eitthvað góðgæti við hendina.
Það sem er best við svona ferðir og frí er tækifærið til að vera saman og njóta þess að vera löt og gera eitthvað skemmtilegt saman. Ég læt fljóta með sýnihorn af fjölskyldumyndum úr þessari ferð.