Wednesday, January 28, 2009

ÞAÐ KREPPIR AÐ...



Ég hef ekki lagt í vana minn að gera mikið veður út af þjóðmálum eða bæjarmálum yfirleitt, en nú er mér orðið nóg boðið og get ekki á mér setið að segja eitthvað um málið, því áhyggjur af stöðu mála eru farnar að halda fyrir mér vöku og er þá mikið sagt. Það er ekki nóg með að kreppuástand þjóðarinnar hafi áhrif á hvert heimili á landinu, heldur hefur verið siður margra þeirra fjarstöddu yfirvalda sem einhverju fá ráðið varðandi fyrirtæki og stofnanir hér í bæ, að reyta af okkur allar þær "fjaðrir" sem þeir geta og um leið að fækka hér störfum og starfstækifærum sem eru þó alltof fá nú þegar og þannig hefur það oftast verið s.l. áratugi.
Síðustu misseri hafa opnunartímar verslana og banka orðið færri en venjan er og var það t.d. mjög slæmt þegar Landsbankinn hætti að hafa opið fyrir hádegi, ekki síst vegna álagsins sem er þar á vissum tímum, sérstaklega yfir sumartímann þegar þúsundir ferðamanna koma hér í gegn með Norrænu, en það er eins og ekki hafi verið gert ráð fyrir því. Og nú ætla stjórnvöld að bæta gráu ofan á svart með því að flytja póstinn inn í Landsbankann og loka pósthúsinu okkar. Þeir eru búnir að segja upp starfsfólkinu og sýna því enga virðingu þrátt fyrir áratuga störf hjá stofnuninni.
Ekki vitum við hvar koma á póstinum fyrir í bankanum, því ekki er sjáanlegt neitt pláss fyrir hann þar og ekki ætla þeir heldur að ráða neinn auka starfskraft til að sinna póstinum, þó enginn sem fyrir er í bankanum hafi þekkingu á póstmálunum og nóg virðist líka vera þar fyrir af verkefnum þó pósturinn bætist ekki við.
Þetta þýðir að biðraðirnar í bankanum lengjast enn meira en verið hefur og þjónustan versnar fram úr hófi, sérstaklega á álagstímum, ef þessi áætlun nær fram að ganga.
Ég og fleiri bæjarbúar viljum því gera eitthvað í málinu, t.d. leggja fram undirskriftalista og láta fjölmiðla vita af þessu. En við bíðum eftir tillögum frá bæjarráði sem er víst að funda um þessa áætlun. Væntanlega verður tekið af skarið og ákveðið að mótmæla þessum ósköpum á einn eða annan hátt. Um þetta munum við íbúar Seyðisfjarðar vafalaust öll standa saman sem einn maður og berjast fyrir möguleikum okkar til að búa hér áfram óáreittir með þau fáu störf sem enn eru þó hér.
Verðum við ekki að treysta á að ný ríkisstjórn horfi á málið með okkar augum svo að þessum stjórnendum sem lögðu á ráðin um breytingar takist ekki að eyðileggja búsetuskilyrði okkar hér, með því að kippa frá okkur öllum þeim "fjöðrum" sem við höfum til að þrauka hér á hjara veraldar...?

Monday, January 26, 2009

Þorrabragur 2009


Fyrir hvert þorrablót er sérstakur þorrabragur samin, sem nefndin syngur fyrir gesti. Textann má ávallt lesa í söngheftinu sem fylgir hverju sæti og ekki virðist neinn hörgull á góðum textum ár eftir ár. En því miður er höfunda ekki getið og er það miður. Ég ákvað að setja hér nýjasta þorratextann og auglýsi hér með eftir höfundi.

Þorrabragur 2009 (lag: Hann Mundi á sjóinn...)

Viðlag:
Lyftum glösum og skálum, já skál fyrir því,
sem skemmtilegt gerðist bænum hér í.

Við vonum að hér verði kæti í kvöld
er komum við saman með gleði við völd.
Svo borðum við allt sem á boðstólum er
og brennivín hafa víst flestir hjá sér.

Svo munum við reyna að minnast á það
sem markvert á árinu átti sér stað.
Þó sannleikur talinn sé sálnanna gull
að sjálfsögðu munum við ljúga ykkur full.

Í atvinnumálunum brjótum við blað
og brenglaða túrista löðum hér að.
Í Skaftfelli setjum upp sirkus og búð
og sýnum þar fólki hinn fullkomna trúð.

Og Alla hún túrista tekur í ferð
til að sýna þeim fjarðarins dásemdar mergð.
Ef keypt gæti hún Björn Roth og alla hans ætt,
alveg þá gætum við virkjunum hætt.

Í útflutningsmálunum hugsum við hátt
og horfum á myndlist í glugga og gátt.
Og seljum úr landi hvert einasta strik
þá Óli af kæti mun gef´okkur prik.

Á byrjuðu ári er brýnasta þörf
að bjartsýni ríki við leiki og störf.
Því skulum við svalla og syngja við raust
og sjá til að barneignum fjölgi í haust.

Við borðahaldið ætlum að enda með stæl
svo öll getum sveiflast í valsi og ræl.
Síðan við förum í tangó og tjútt
og tvistum og rokkum, já það verður fútt.

Og svo eftir allt þetta allsherjar geim
ánægð dauðþreytt þá förum við heim.
Þá hollast er hverjum að hugsa um sitt
og hoppa í rúmið og gera þar hitt.

Lyftum glösum og skálum, já skál fyrir því,
sem skemmtilegt gerðist bænum hér í.

Sunday, January 25, 2009

Þorrablót 2009 afstaðið





Laugardagskvöldið 24.jan.var hið árlega þorrablót Seyðfirðinga haldið með pompi og prakt að vanda. Maður verður aldrei fyrir vonbrigðum, því alltaf tekst hverri stjórn sem kosin er að gjöra góða veislu. Svo var einnig í þetta sinn. Það verður að segjast að mikill munur er síðan blótshaldið var flutt í stóra íþróttasalinn, því nóg er plássið þar, þó dansgólfið hefði mátt vera stærra. Heiðursgestir blótsins að þessu sinni voru hjónin Fríða Hallgrímsd. og Hörður Hjartarson sem bjuggu lengst af ævi hér í bænum, þó nú sé svo komið að þau séu að mestu brottflutt. Gert var grín að íbúum staðarins og var það gert á meinlausan hátt, svo enginn ætti að vera sár eftir.
Ótrúlega mikið var af brottfluttum Seyðfirðingum sem mættu, auk fjölda ókunnugra gesta, svo lá við að þessir aðkomnu gestir væru hátt í helmingur viðstaddra. Allir virtust skemmta sér hið besta, ekki síst unga kynslóðin sem greinilega kunni að meta nærveru Stjórnarinnar með Siggu Beinteins í fararbroddi að leika fyrir dansi, en hún fékk lítinn vinnufrið fyrir áköfum aðdáendum sem hálf drekktu henni í flassljósum myndavéla. Maturinn smakkaðist mjög vel og drykkju virtist í hóf stillt.
Að lokum má geta þess að Bogi Þór Arason frændi Rúnars er fimmtugur í dag og óskum við honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með daginn.

Sunday, January 11, 2009

Lokaönnin hafin o.fl...




Helgina 9.-12. jan. var ég stödd í Reykjavík og nágrenni í tilefni af því að síðasta skólaönnin mín var að hefjast. Við stöllurnar fimm ásamt kennara notuðum föstudaginn til að heimsækja Borgarbókasafnið í Kringlunni og fengum þar stórgóðar móttökur.
Það kom mér þægilega á óvart að uppgötva að þarna væri eitt af útibúum Borgarbókasafnsins staðsett og að þetta væri safnið sem áður var í Bústaðakirkju.
Húsnæðið er afar rúmgott og allur aðbúnaður fyrsta flokks. Nógur mannskapur virðist vera til að sinna öllum verkum, m.a. er ein manneskja í fullu starfi, bara við að sinna barnastarfinu á staðnum. Það er því greinilega enginn fjárskortur á þessu safni.
Við sáum þarna í fyrsta skipti sjálfsagreiðsluvél og fengum sýnikennslu á hana. Þetta er sniðugt tæki og engin leið að ætla að svindla sér út af safninu með bækur sem ekki hafa verið skráðar á viðkomandi, því þjófavarnartæki sér um að engin bók sem ekki er búið að lána skv. tölvukerfinu, komist úr húsinu án þess að afgreiðslufólkið verði þess vart.
Ég reyndi þetta á sjálfri mér, því forstöðukonan sem leiddi okkur um allt safnið og fræddi okkur um það, var áður en við mættum á staðinn, að afskrifa bækur sem lágu í haugum á vinnusvæði hennar. Mér leist ekkert á að þessum bókum yrði hent og bauð hún okkur þá að velja úr þær bækur sem vildum, ef við hefðum áhuga á einhverjum þeirra. Ég sá margar bækur sem safnið okkar á ekki og greip 2 nýjar bækur sem ég hafði ekki séð áður og fékk að taka þær með mér. Þær voru afskrifaðar vegna þess að síður í þeim höfðu blotnað og voru því ósléttar. EN þegar við kvöddum og fórum gegnum útgönguhliðið, þá vældi það á okkur svo að ég hrökk til baka með bækurnar, því þá hafði gleymst að afsegla þær, þó búið væri að afskrifa þær.
Síðan fórum við í heimsókn í einn af Bókabílum borgarinnar og höfðum mikið gaman af því. Þessi bíll var mjög vel búinn og það er alveg snilld að færa eldri borgurum, börnum og fleirum sem e.t.v. eiga ekki vel heimangengt, bækurnar heim í sitt hverfi. Það var ótrúlega gott bókaúrval í bílnum sem er stór og mikil rúta, eða álíka stór og strætisvagn.
Meðfylgjandi myndir sýna skólasystur mínar við sjálfsafgreiðsluborðið í safninu og í bókabílnum. En síðasta myndin er tekin hjá Hörpu mágkonu í Hafnarfirði á laugardags- kvöldið þegar við vorum að horfa á fyrstu undankeppni Evrovision, en þá komu Binna, Maggi og Stefán Ómar í heimsókn, því Binna er að fara í aðgerð (sem vonandi gengur vel) og þau því mætt suður af því tilefni. Við mauluðum konfekt, popp og fleira gott og vorum ekkert að flýta okkur í háttinn...
Það er svo spurning hvort að annað hvort laganna tveggja sem valin voru að þessu sinni verður framlag Íslands til keppninnar í ár(?) Þau virtust nefnilega bæði vel boðleg...

Sunday, January 04, 2009

Tímamót - 55 ára




Veðurblíðan þessa 4 daga sem af eru árinu hefur verið einstök og gefur vonandi tóninn um gott framhald en verður ekki lognið á undan storminum.
Um hádegi í gær tókum við Rúnar þá skyndiákvörðun að renna norður til Húsavíkur í heimsókn til mömmu, því spáin var góð og við bæði í fríi og óbundin. Auk þess er 55. afmælisdagurinn minn í dag (4.jan) og mér fannst ágætt að halda uppá hann með því að skreppa að heiman fyrst að svona vel stóð á, því mér hálf leiðist að fara ein yfir fjöllin að vetri til, enda oft meiri og minni hálka á leiðinni.
Þegar ég var fyrir norðan fyrir 3 vikum (13.des) þá var líka rjómablíða og ég tók fullt af "bleikum" myndum á Húsavík en þá var alhvít jörð og aðrir litir en núna, því núna var jörð auð og sólin sem remdist við að skína á hluta bæjarins breytti dimmunni í dökkbláan bjarma sem var mjög ólíkur bleika bjarmanum um daginn. Ég set hér sýnishorn til samanburðar sem tekin eru í sitt hvorri ferðinni og að auki ein mynd af dúllunni henni mömmu, sem finnst orðið svo gott að kúra og hugsa um gamla og góða daga, því nú hefur hún ekkert hlutverk lengur eins og hún segir sjálf og getur leyft sér að vera löt og hvíla sig þegar henni hentar.

Thursday, January 01, 2009

Áramótin 2008-2009




GLLEÐILEGT NÝÁR OG ÞAKKA YKKUR ÖLLUM FYRIR GAMLA ÁRIÐ !!!
Gamlalársdegi eyddum við heima hjá okkur ásamt Sigga, Bergþóri og Hilmi sem verður hjá okkur um áramótin. Síðasti kvöldverður ársins var svínaskorpusteik sem bragðaðist svo vel að "margur fékk mettan kvið" eins og Jón frá Bægisá sagði í einu af kvæðum sínum, en einmitt þessi ljóðlína er lausn á krossgátu sem við Rúnar vorum að glíma við. Jólamyndagátur blaðanna fóru hinsvegar framhjá okkur að þessu sinni og þótti okkur það miður, því þær hafa verið ómissandi tilbreyting á jólahátíðum.
Við kíktum í kirkjugarðinn sem var óvenju fallega uppljómaður, enda var veður eins og best verður á kosið, blankalogn og hitastig kringum frostmark.
Á brennuna fórum við líka og bæjarstjóranum varð tíðrætt um kreppuástand þjóðarinnar og kom með nokkuð skýrar og auðskildar lausnir á þeim vanda fyrir velflesta. Brennan sjálf leit á tímabili út eins og brennandi HOF frá Austurlöndum, eins og greina má ef myndin sem fylgir er vel skoðuð....!
Eftir áramótaskaupið sem mér fannst óvenju óspennandi miðað við síðustu ár, þá fórum við með rjóma+súkkulaðibollur og ostabakka upp í Botnahlíð til Kristrúnar og Birgis, en þar safnast stórfjölskyldan saman um hver áramót og skýtur upp rakettum og borðar yfir sig af sætindum þegar nýja árið gengur í garð. Að þessu sinni vorum við venju fremur fáliðuð, því Binna var á næturvakt og fleiri fjarstaddir sem venjulega mæta.
Bæjarbúar virtust ekki auralausari en undanfarin ár, því nóg var um glæsilegar flugeldasýningar.
Nýársdagur rann svo upp bjartur og kyrr, svo ég óskaði þess að árið yrði jafn friðsælt og fallegt og veðrið gaf til kynna. Við "gamla settið" fórum því út í hjólreiðatúr og eftirlitsferð út í Gullver og liðkuðum lata og þreytta útlimi áður en fyrsta kvöldmáltíð ársins hæfist með tilheyrandi ofáti... verði öllum að góðu !