Monday, March 28, 2011
Gagnleg helgi fyrir norðan :)
Eins og mánaðarlega þá brenndi ég norður til mömmu s.l. helgi og hafði meðferðis verkefni sem til stóð að leysa. Það gekk vonum framar, því þetta voru gamlar myndir, mest af Keldhverfungum sem ég þurfti aðstoð við að nafngreina. Allir sem ég leitaði til voru boðnir og búnir að hjálpa, m.a. gamlir sveitungar sem nú dvelja í Hvammi, heimili fyrir aldraða í þingeyjarsýslum. Ég kom því heim með nánast allar myndir skráðar.
Veðrið var frábært á laugardaginn og við mamma fórum á rúntinn eins og alltaf þegar veður er gott og ég í heimsókn. Skyggnið var svo gott að auðvelt var að sjá bæði Flatey á Skjálfanda og Grímsey bera við sjóndeildarhringinn...
Ég heilsaði líka upp mínar gömlu og góðu vinkonur, Villu og Sigrúnu og hitti móðursystkini mín og fleira gott fólk eins og Ástu og Valda frá Garði sem hjálpuðu mér heilmikið með sumar gömlu myndirnar. Þetta varð því ágætis vinnuferð í leiðinni og að auki hlustaði ég á eina hljóðbók á meðan ég ók yfir fjöllin, fram og til baka :)
Tuesday, March 22, 2011
Fyrsti vorboðinn mættur....
Það er nokkuð síðan að Rúnar sá fyrsta Tjald ársins hér við lónið. Núna um helgina voru þeir á milli 20 og 30 sem hann sá og auk heldur var hópur af Sendlingum í fjörunum og Rauðhöfðaendur og Duggendur sem eru frekar sjaldséðar á þessum árstíma.
Þegar hávær Tjaldurinn er mættur og farinn að helga sér óðul þá finnst manni vorið vera í nánd, þó oft vilji nú samt verða dráttur á því :)) Þess má geta að Glóbrystingurinn er hér enn við góða heilsu, hefur mætt í mat hjá okkur síðustu daga og er alltaf jafn mikil mannafæla :) Snjótittlingar og dúfur mæta alla daga í fóðrið og stöku sinnum koma flækingar með þeim eins og skógarþröstur eða svartþröstur en nokkrir slíkir hafa verið hér í bænum í vetur...
Monday, March 21, 2011
Æfingabúðir fyrir vortónleika...
S.l. laugardag 19. mars mættu yfir 20 manns niður í kirkju, þar sem við vorum í rúma 6 tíma við söngæfingar fyrir vortónleika sem halda á 19. maí nk.
Einn kórfélaga (Inga Svanbergs) sá um að elda súpu og útvega brauð og álegg handa hópnum og allir tóku því með mestu rósemi að bíða á meðan hver rödd var æfð, þar til allir gátu sungið saman. Lögin sem við vorum að æfa eru tæplega 20 og flest ekta íslensk ættjarðarlög, sem hljóma ótrúlega vel þegar allar raddir eru með :)
Myndirnar fékk ég lánaðar hjá Helga Haralds sem tók þær á símann sinn !
Tuesday, March 15, 2011
Safnadagur á Suðurnesjum !
Helgina sem við dvöldum hjá dóttur okkar og barnabörnum var Safnahelgi á Suðurnesjum. Þar sem veðrið á laugardaginn var mjög gott, þá ákváðum við að kíkja á nokkur söfn og byrjuðum á Víkingasafninu þar sem skipið Íslendingur er til húsa ásamt fleiru. Það var Gunnar M.Eggertsson skipasmiður að langfeðratali í Vestmannaeyjum sem smíðaði það og sigldi því með áhöfn til Ameríku. Ef ég man rétt þá giftist Seyðfirðingurinn Sunna Gissurardóttir einum áhafnarmeðliminum við komuna þangað.
Síðan röltum við til Maríu Baldurs ekkju Rúnars Júl, en hjá henni var opið hús, þar sem hægt var að skoða stúdíó aðstöðu Geimsteina ásamt öllum hljóðfærum, plötusafni og ýmsum minjagripum tengdum tónlistarferli þeirra hjóna. Þetta var mjög forvitnileg og skemmtileg heimsókn. Loks renndum við út á Garðskaga til að skoða öll söfnin þar og handverkssýningu í gamla vitavarðahúsinu. Að síðustu klifruðum við upp 120 tröppur í nýja vitanum og fengum frábært útsýni yfir suðurnesið. Daginn enduðum við svo með fjölskyldudinner sem var mjög notalegur :)
Í heimsókn hjá barnabörnunum :)
Þann 21. mars fer Jóhanna Björg með barnabörnin okkar til Noregs, þar sem tengdasonur okkar er í vinnu. Til að kveðja þau og aðstoða við að pakka saman og ganga frá húsinu, skruppum við Rúnar suður s.l. helgi. Við nutum líka samvista við syni okkar, tengdadóttur og fleiri ættingja og áttum góðar stundir saman. Við borðuðum saman helgarmatinn og reyndum eftir bestu getu að tæma frystikistuna sem var heldur full af matvælum fyrir rúmlega eina helgi. En við stefnum á að skreppa í heimsókn til þeirra og Þrastar mágs og fjölskyldu til Oslo í sumarfríinu og vonandi gengur það vel :))
Sunday, March 06, 2011
Æskulýðsdagurinn
Í dag, sunnudaginn 6. mars er æskulýðsdagurinn. Af því tilefni var gospelmessa í Seyðisfjarðarkirkju og allur kórinn mættur og auk þess nokkur börn sem sungu tvö lög. Sú óvenjulega tilbreyting kom upp, að fullorðin kona óskaði eftir að vera fermd við athöfnina og var það skemmtileg uppákoma og athöfnin óvenju létt og gleðileg.
Ég fór síðan á tónleika í kjallara Tónlistarskólans kl 5 og hlustaði þar á nokkur börn og ungmenni spila á hin ýmsu hljóðfæri. Hér má sjá strákana sem spiluðu lokalagið og krakkana sem sungu í kirkjunni í tilefni dagsins.
Ég tók líka forskot á sælu morgundagsins, sem er bolludagur og borðaði nokkrar rjómabollur en hef hinsvegar ákveðið að sleppa því að borða saltkjöt og baunir á sprengidaginn, því það hefur mjög svo óþægileg líkamleg eftirköst, þ.e.a.s liðverki sem ég nenni ekki að umbera í marga daga eftir saltkjötsát og ætla í staðinn að sjóða mér kjötsúpu, því ekki veldur hún neinum óþægindum :)
Subscribe to:
Posts (Atom)