Tuesday, October 21, 2014

Skottúr til Húsavíkur

Það hefur staðið til nokkuð lengi að Rúnar færi í aðgerð á hægri hendinni, því lófakreppan sem hefur verið að versna hjá honum s.l. 30 ár, var orðin slæm og tafði hann og hindraði við vinnu.
Á sama tíma ákvað Bergþór okkar að skreppa norður til Húsavíkur með fjölskylduna og hitta okkur þar og drifum við Siggi okkur tímanlega þangað, því veðurspáin var ekki beint góð. En þá kom babb í bátinn, því veikindi stoppuðu Bergþór og co og ég sjálf vaknaði þegjandi hás og kvefuð norðan heiða og sá að ég færi ekki í heimsóknir svona á mig komin. Við kvöddum því Húsavík eftir stuttan stans og héldum aftur austur og tókum þátt í Haustroðanum sem stóð einmitt þessa helgi og vorum með 3 gesti frá Húsavík sem komu á Bocciamót fatlaðra hér í bæ. Það var skemmtilegt að Kiddi Óskars gamall kunningi frá Húsavík skyldi vinna mótið og Seyðfirðingar voru fyrsta flokks gestgjafar :)





Fallegt sólarlag og kvöldverður í Skálanesi !

Á Haustroðanum í fyrra vann ég gistingu og kvöldverð í Skálanesi. Við ákváðum að nota kvöldverðarboðið en sleppa gistingunni, a.m.k. í bili. og drifum okkur eitt fallegt haustkvöld. Á leiðinni blasti sólin við gul og rauð í gasskýi frá eldgosinu í Holuhrauni og alls ekki hægt að sleppa því að festa það á filmu/kubb :) Við áttum svo notalega kvöldstund með Bjarka Borgþórs og nokkrum ferðalöngum sem voru þar staddir !