Wednesday, March 11, 2015

Varadero - fyrir ferðamenn !

Ströndin við Varadero á skaganum sem er hlaðinn túristahótelum er hvít og falleg og þar er hægt að sóla sig í næði, njóta návistar fallegra og gæfra fugla sem fengu sér bað með okkur og borða á sig gat, ef maður hafði lyst, en ég var aðallega þyrst í hitanum og var dugleg að drekka ananassafa og Pina Colada sem var drykkurinn minn í þessari ferð :)




Sveitaferðirnar !

Við heimsóttum tóbaksekrur og fleiri athyglisverða staði í einni ferð en síðasta ferðin var sjóferð til að snorka á fiskislóð og heimsækja tamda höfrunga sem léku listir sínar. Að lokum snæddum við risasstóra humarhala sem gaman var að smakka einu sinni :)




Skoðunarferðir um Kúbu

Það er margt að sjá á Kúbu sem er ólíkt lífinu hér heima á Fróni og við vildum sjá sem mest á þessum stutta tíma sem við höfðum og fórum því í 4 ferðir. Fyrsta ferðin var borgarferð um Havana og heimsókn í vindlaverksmiðju. Svo fórum við aðra ferð til að skoða heimili Ernest Hemingways og sáum ýmislegt á leiðinni, bæði ríkidæmi og fátækt. Að sjálfsögðu fórum við á Byltingartorgið og skoðuðum Kristsstyttuna stóru við fyrrum heimili Che Guevara.




Vikuferð til Kúbu !

Það er ekki daglegt brauð að skreppa í langferðir, hvað þá yfir 5 tímabelti eins og við gerðum þegar við flugum til Kúbu þann 23. febrúar s.l. Þar tók á móti okkur notalegur hiti og sumarveður, en einnig mikil fátækt, óreiða og betl sem erfitt er að hafa í kringum sig til lengdar, án þess að gera eitthvað róttækt, sem líklega er erfitt á þeim slóðum.
Myndir segja oft meira en þúsund orð, svo ég læt hér nokkrar slíkar af mannlífinu og bílaflotanum sem er sannkallað fornbílasafn í Havana. Við keyptum okkur tíma bæði í fótknúnum farkosti og gömlum fallegum fornbíl, greiddum gjald fyrir myndatökur, ýmist í peningum, sælgæti eða penna/blíöntum sem við tókum með okkur.




Viskubrunnur 2015

Hin árlega spurningakeppni Seyðisfjarðarskóla, VISKUBRUNNUR var haldin eftir Þorrablót og urðu úrslitin ekki svo óvænt. Það er alltaf gaman að fylgjast með hvernig gengur og um leið að styrkja unga fólkið sem er að safna fyrir skólaferðalaginu sem elstu bekkingar fá að fara í áður en skyldunámi þeirra lýkur hér heima.



Þorrablótið 2015


Þorrablótið 2015 fór fram með glæsibrag að vanda, fyrstu helgi í Þorra.
Skemmtiatriðin voru óvenju brosleg án þess að meiða mikið :)
Við sleppum ennþá við að lenda í næstu nefnd, þó það geti verið mjög gaman, þá er það líka tímafrekt og bindandi um tíma.

Friday, March 06, 2015