Það hefur verið lítið um snjó sem betur fer, eftir að við komum heim frá Kanarý, en þó að frost hafi verið með minna móti, þá hefur víða verið hægt að sjá svona klakastrá við ár og læki :)
Það hefur verið lítið um snjó sem betur fer, eftir að við komum heim frá Kanarý, en þó að frost hafi verið með minna móti, þá hefur víða verið hægt að sjá svona klakastrá við ár og læki :)
Þann 18. janúar fór að snjóa svo um munaði og kostaði mikinn mokstur og vesen. En 2 dögum síðar kom stórhríð og allt fór á kaf, svalirnar fylltust af snjó hátt uppá stofuglugga og snjórinn á þaki Gróðurhússins var svo blautur og þungur að hann næstum sligaði þakið. Ég náði að sópa ofan af því, áður en það brast, en feðgarnir náðu að moka svalirnar, því ég hjálpaði lítið til þar. Bara það að moka slóð undir svalirnar svo hægt væri að fóðra vetrarfuglana þar svolítið á hverjum degi, var meira en nóg puð.
Á milli hátíðanna lést Svanbjörg Sigurðard. á Hánefsstöðum, en ég hafði hitt hana daglega um miðjan desember, því ég tók að mér að lesa fyrir hana gamalt handrit sem hún gat ekki lesið sjálf og sá hana í síðasta sinn skömmu fyrir jól. Ég er henni þakklát fyrir allar góðu samverustundirnar á liðnum árum. Útför hennar fór svo fram í dag, 8. janúar að viðstöddu margmenni.
Jólahátíðin leið furðu fljótt og þrátt fyrir frost og kuldanæðing, þá var snjór í lágmarki og því fært um allt, þó ekki væru nein ferðalög á milli okkar og ættingjanna þessi jólin. Við höfðum það því óvenju rólegt að þessu sinni og dunduðum okkur við að pússla erfitt púsl og lesa þessa daga.