Heil og sæl.
Nú er orðið ansi langt síðan ég hef gefið mér tíma til að "blogga" og ber auðvitað við tímaskorti. Aðalmálið s.l. vikur hefur verið gömlu myndirnar hennar Pálínu Waage, en hún treysti mér til að sortera þær og koma þeim í hendur þeirra mörgu aðila sem eiga að fá þær, ásamt því að skrá upplýsingar um þær myndir sem hún var ekki búin að ganga frá. En elstu myndirnar eiga að fara á safnið á Seyðisfirði og nokkrar eiga að fara á Myndasafn Austurlands á Egilsstöðum. Það varð líka samkomulag okkar á milli að ég skannaði þessar gömlu myndir og léti eintök af þeim öllum fara á bæði söfnin til öryggis.
Mál nr. 2 sem auðvitað skiptir mig persónulega miklu máli, var sú ákvörðun að fara í leysigeisla augnaðgerð. Nú er þessi aðgerð afstaðin og tókst mjög vel. Aðgerðin sjálf var lítið mál, bæði var hún sársaukalaus og tók aðeins smá stund. Hitt er annað mál, að viðbrigðin voru mikil og raunar öðruvísi en ég bjóst við. Það sem ég ekki hafði gert mér grein fyrir, var sú staðreynd að ég glataði alveg minni góðu sjón á allt sem er í 1 til 2 metra fjarlægð. Mér var sagt að ég ætti að geta séð á úrið mitt, lesið á verðmiða í búðum og pikkað á farsímann gleraugnalaust, en því miður, það get ég alls ekki og það var mikið sjokk. Ég sé hinsvegar allt vel sem er í margra metra fjarlægð. Vonir standa til að þetta lagist með tímanum, enda ekki nema sólarhringur síðan aðgerðin fór fram og því ekki rétt að dæma um þetta strax. En ég varð að fara beina leið í næsta apótek og fá mér gleraugu uppá +2 til að geta lesið, skrifað og sinnt daglegum störfum mínum. Þessi skrif eru mín fyrsta tilraun til að nota þessi gleraugu sem framvegis munu fylgja mér, þó ekki þurfi ég alltaf að hafa þau á nefinu. Spurningin er því sú, hvort þessi aðgerð standi undir væntingum ? Ég held það sé ekki tímabært að dæma um það.
Vafalaust mun ég venjast þessu gjörbreytta ástandi, en ansi er ég hrædd um að ég eigi lengi eftir að sakna nærsýninnar minnar, hún hafði sína kosti sem komu í ljós þegar ég missti þá, enda veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur, það eru orð að sönnu.
Ég ætla að leggja mig fram um að vera bjartsýn og treysta því að þetta sé tímabundið ástand sem eigi eftir að lagast. Er sannfærð um að svona aðgerð er sannkallað kraftaverk fyrir þá sem eru mjög fjarsýnir, en fyrir hina sem eru lítið nærsýnir er stórt spurningarmerki og nauðsynlegt að þeir viti nákvæmlega hvað þeir missa og hvað þeir fá í staðinn....
Svo mörg voru þau orð að þessu sinni, lifið heil....
No comments:
Post a Comment