Wednesday, September 06, 2006

Adam 1 árs



Þann 21. ágúst varð elsku litli ömmustrákurinn minn, hann Adam, ársgamall. Þar sem afmælið bar upp á virkan vikudag, var ákveðið að halda upp á daginn næsta sunnudag. Það vildi svo vel til að ég var þá stödd fyrir sunnan, að hefja nám í Bókasafns-og-upplýsingatækni við BHS og var laus eftir hádegi, bæði laugardag og sunnudag. Ég brá mér því yfir til Keflavíkur til að undirbúa afmælið með Jóhönnu minni og njóta samvista við þau Adam. Mætti svo tímanlega í veisluna á sunnudaginn. Húsbóndinn, Mo, bauð upp á afbragðsgóða arabíska kjötsúpu með brauði og á eftir var boðið upp á kaffi/ gos, skúffuköku og 2 ávaxta-marenstertur með súkklaðibráð, sem ég hafði heiðurinn af að setja saman og skreyta. Þetta var afskaplega yndæl samverustund með flestum ættingjum og vinum sunnan heiðar og ekki skemmdi veðrið, því glaða sól var og óvenju hlýtt á sunnlenskan mælikvarða.
Skólagangan er því hafin af fullum krafti, nóg er af verkefnum og sum ansi strembin, en vonandi eru það aðeins byrjunarerfiðleikar eins og svo oft vill vera. Þetta verður vafalítið lærdómsríkt og skemmtilegt og samnemendur mínir, sem allir eru "stelpur" á ýmsum aldri, eru hver annarri ágætari, svo okkur mun örugglega ekkert leiðast saman. Ég lít því bjartsýn til vetrarins, þó skammdegið sé ekki minn uppáhaldstími. En það er til margs að hlakka, fyrst vikuferð til Barcelona í lok september og síðan samfundir við alla fjölskylduna fyrir sunnan, ásamt því að fá afhenta íbúðina okkar í Hafnarfirði sem Siggi og Bergþór munu væntanlega búa í á næstunni og við Rúnar þegar þess gerist þörf. Þar þarf að taka til hendinni með ýmislegt og því nóg af verkefnum framundan. Það leiðist engum á meðan...

No comments: