Sunday, June 08, 2008

Fjallganga og 100 ára minning



Í dag 8. júní 2008 eru nákvæmlega 100 ár síðan að Sigurveig amma mín fæddist. Ég heiti raunar að hluta til eftir henni, en hún lést af barnsförum aðeins 38 ára gömul, frá 6 börnum sem æ síðan hafa saknað hennar og farið mikils á mis.
Til stendur að afkomendur hennar komi saman af þessu tilefni, heima í Arnanesi, þar sem afi og amma bjuggu og áttu öll sín börn. Ég og bróðir minn erum síðustu afkomendur þeirra sem fæddumst þar og að sjálfsögðu ætla ég að mæta þangað, helgina 27.-29. júní, en sú helgi hentaði öllum best þegar að var gáð.

Í tilefni dagsins hugsaði ég mikið um ömmu og þessi tímamót en annars fór ég í margra klukkustunda fjallgöngu með mínum manni og var orðin býsna þreytt þegar við komum heim síðdegis. Við lögðum af stað um hádegi og gengum upp í skógræktina innst við sunnanverða Fjarðará. Skoðuðum vaxtar-framfarir trjánna og sáum ljótar skemmdir af völdum hreindýra á nokkrum trjám. Gengum svo upp alla hlíðina og þaðan eftir vegslóða sem liggur skáhallt upp í Fjarðarbotna. Þar fundum við nokkur hreiður, m.a. eitt Kjóahreiður sem kom okkur á óvart í meira en 200 m. hæð. Einnig varð hreindýrshorn á vegi okkar og fékk það að fljóta með okkur heim.
Við gengum út alla Botna, út fyrir SR-bræðsluna en þar klifruðum við niður ansi brattar brekkur og röltum síðan heim í gegnum bæinn.
Þetta eru býsna margir kílómetrar og þó nokkuð strembin ganga sem við höfðum auðvitað gott af.
Ég eldaði svo ágætan kjúklingarétt í kvöld og á eftir fengum við okkur vatnsdeigsbollur fylltar með rjóma og húðaðar með suðusúkklaði--- nammi-namm !

No comments: