Monday, December 29, 2008
Jólaheimsóknir
Mikið eru jóladagarnir alltaf fljótir að líða. Ég ætla alltaf að vera svo dugleg, lesa heilmikið og njóta samvista við alla ættingjana. Oft fer þó of mikill tími í matarstúss og lestur jólabókanna situr venjulega á hakanum, sérstaklega í þetta sinn.
Jóladegi eyddum við í Keflavík með Jóhönnu og fjölskyldu og fengum okkur hressingartúr í köldu en fallegu veðri. Adam fannst mjög gaman að leika sér í snjónum, þó lítill væri og lék á alls oddi.
Á annan héldum við til Hafnarfjarðar og borðuðum svínahamborgarann hans Sigga Birkis hjá Diddu og Rúnari B. og áttum þar notalegar samverustundir. Kvöldinu lukum við með baði í heita pottinum í Hafnarfirði.
Á 3ja í jólum var svo komið að fjölskylduboðinu hjá Ellu, þá mættum við með eftirréttina sem komu í okkar hlut...(3 skálar af fromage og 3 föt af súkkulaði-rjómabollum sem hurfu fljótt ofan í öll börnin). Þarna mættu nokkrir tugir af nánustu ættmennum Rúnars og allir voru frískir og hressir og mikið stuð og spjallað fram á kvöld.
Sunnudagskvöldinu eyddum við svo hjá Guðrúnu og Hjalta Þóris við notalegt spjall og skoðuðum myndarlega handavinnu frúarinnar og myndasafn húsbóndans. Hluti af gömlu myndunum fékk að fljóta með okkur austur, því það kemur til með að enda hér á safnahúsinu.
Allt voru þetta yndislegir frídagar og meira borðað en æskilegt hefði verið. Svo að nú tekur vonandi við meiri hreyfing og minna át.
Já, við erum semsagt komin aftur heim í dalinn djúpa og tekin til við okkar daglegu störf. Syni okkar höfum við hér í heimsókn fram yfir áramót, en eftir það hefst síðasta skólaönnin hjá mér og þar með bíð ég hækkandi sólar og vorkomu með tilhlökkun...
Thursday, December 25, 2008
Aðfangadagur í Keflavík
Veðrið var ekki jólalegt á landinu þetta aðfangadagskvöld, en það gerði lítið til því við nutum samvita við afkomendurna og góðra veitinga að venju þetta yndæla kvöld. Tvær gæsir voru aðalréttur kvöldins, önnur var lítil heiðagæs, en hin var stór grágæs, sitt með hvorri fyllingunni, svo tilbreyting væri sem mest.
Eftirrétturinn var hefðbundinn, ananasfromage eins og verið hefur undanfarin 20 ár eða meira og er það jafn sjálfsagður jólaeftirréttur eins og laufabrauðið er ómissandi meðlæti með hangikjötinu á jóladag. Mynd af desertinum fylgir með hér neðar...
Yngsti fjölskyldumeðlimurinn hann Adam hafði ekki mikla matarlyst, enda áhuginn á gjöfunum meiri en á matnum og kvöldið fór meira og minna í hopp og leik og gleði í kringum gjafirnar sem að lokum þreyttu hann svo mikið að hann lak útaf og steinsvaf ofan á stærstu gjöfinni eins og sjá má og rumskaði ekki þó við tækjum myndir af honum við þessar aðstæður...
Heilsunudd og jólaflug
Síðustu vikuna fyrir jól notaði ég m.a. til að fara daglega í heilsunudd til Japsy Jacobs frá Indlandi, sem dvelur hér í vetur og er einstaklega yndæl og góður nuddari. Hún losaði mig við slæman sársauka sem ég hef haft í náranum síðan í sumar er ég datt í fjallgöngu og hef verið dálítið fótlama síðan. Hún dró líka fram gamlan uppsafnaðan sársauka í baki og hnésbótum sem ég vissi ekki af, en ég vona að ég losni við hann til frambúðar.
Að kvöldi 22. des. lögðum við Rúnar svo af stað suður í jólafríið og fengum óvænt einkaflug í fokkernum, því við deildum vélinni ásamt einum farþega og fengum óvenju góða þjónustu hjá flugfreyjunni. Jólunum ætlum við svo að eyða með afkomendum okkar, systkinum og fjölskyldum þeirra...
ಉಂದರ್ಲೆಗ್ತ್ ಲೆತುರ್
Af óþekktum ástæðum birtist sjálfkrafa undarlegt letur sem titill alltaf þegar ég reyni að skrifa haus á bloggið mitt, svo að ég þarf að "plata" forritið til að koma réttum titli á sinn stað, en ég vildi lofa ykkur að sjá hvað þessi tölva/forrit hefur sjálfstæðan vilja....
Ég lét hér með mynd af hinum árlega jóla-eftirrétti fjölskyldunnar, svona til að hafa einhverja mynd með þessum skrítna titli sem ég get ekki lesið...
Addi í Firði 80 ára
Árni Stefánsson eða Addi í Firði varð áttræður þann 21. des. s.l. Fjölskylda hans hélt honum veglega afmælisveislu í Herðubreið kvöldið fyrir afmælið og bíósalurinn var fullur af fólki sem kom saman og skemmti sér og naut góðra veitinga af þessu tilefni. Afkomendur Adda höfðu veg og vanda að öllu saman, jafnt skemmtiatriðum sem veislumat, enda orðin þessu vön, því þær systur Billa og Gulla eru báðar nýlega búnar að halda upp á stórafmælin sín með myndarbrag eins og þeirra er von og vísa.
Ég notaði tækifærið og tók slatta af myndum á nýju vélina og setti þær á disk og færði Adda að morgni afmælisdagsins, því ekki þáði hann hefðbundnar gjafir, heldur styrkti maður hollvinasamtök sjúkrahússins, sem ég er reyndar meðlimur í og var því nýbúin að greiða þar mitt ársframlag, en alltaf má gera betur...
Wednesday, December 17, 2008
Aðventumessa og tónleikar
Það er fastur liður að kirkjukór Seyðisfjarðarkirkju syngur við Aðventumessu í desember ár hvert. Þá eru venjulega sungnir aðrir sálmar en við hefðbundnar messur og ekki endilega hefðbundnir jólasálmar, heldur eitthvað létt á jólalegum nótum.
Að þessu sinni var annríkið á þessum tíma meira en oft áður, m.a. vegna nýafstaðinna tónleika sem haldnir voru í tilefni af 100 ára ártíð Steins Stefánssonar sem var hér organisti og kórstjóri um áratuga skeið, en hann var einnig góður lagasmiður og kórinn æfði því nokkur laga hans sem hann flutti síðan á býsna fjölmennum tónleikum í Seyðisfjarðarkirkju í nóv. sl.
Kórfélagar völdu því fyrir aðventumessuna nokkur létt og jólaleg lög sem áður höfðu verið sungin við ýmis tækifæri og sungu þau við aðventumessuna núna í desember. Við það tækifæri tók Rúnar myndir af kórnum framan við pípuorgelið góða. En hin myndin sem fylgir var tekin skömmu fyrir tónleika Steins Stefánssonar, en tvö barna Steins (Kristín og Ingólfur) mættu á tónleikana kórfélögum og sýnilega þeim sjálfum til mestu ánægju...
Sunday, December 14, 2008
Jólaheimsókn til mömmu
Helgina 12.-14. des. var ég í heimsókn hjá mömmu norður á Húsavík og naut samvista auk mömmu við systur mína, dóttur og barnabarn, sem komu akandi að sunnan til að eyða helginni með okkur mömmu. Það var þæfingsfærð á leiðinni norður, en hálka á bakaleiðinni, en allt gekk vel og veðurblíðan var einstök eins og sjá má á 2 af meðfylgjandi myndum sem ég tók af safnahúsinu á Húsavík, þar sem fullt tunglið bar við toppinn á píramídanum og myndaði þar eins og ljóskúlu og svo purpuraroðann sem lá yfir bænum allann laugardaginn. Við gerðum jólalegt herbergið hennar mömmu, með jóladúkum, jólatré og skrauti og skreyttum líka heima í Hlíð, svo þar verði hátíðlegt ef Didda, Rúnar og fjölskylda fara norður um áramótin eins og til stendur.
Við heimsóttum Sigrúnu vinkonu í galleríið hennar og bárum út öll jólakortin til vina og ættingja, hittum þá frændur okkar Munda og Gulla sem og Hillu systir þeirra og óskuðum öllum gleðilegrar hátíðar. Áður en við fórum úr bænum í dag, þá sótti Didda systir kartöflur í geymsluna og þurfti að skríða inn í jarðhýsið eins og jólasveinn, ég ætti kannski að setja hér með mynd sem ég tók af henni við það tækifæri ? - Þetta tókst - já þetta var algjört jólastuð !
Aðventukvöld sáló
Fimmtudagskvöldið 11. desember var opið hús (Aðventukvöld) hjá Sálarrannsóknarfélagi Seyðisfjarðar í húsnæði félagsins að Öldugötu 11, efri hæð. Eins og verið hefur, þá sátu félagsmenn og spjölluðu létt yfir kaffisopa, jólakökum og konfekti við undirleik notalegrar jólatónlistar og skemmtu sér með spil og rúnir. Eitthvað var líka kíkt í bolla eins og venjan er þegar nokkrir félagar eru samankomnir.
Stjórnin taldi að fjárhagur félagsins leyfði ekki kostnað við að fá skemmtikraft langt að, en ætlar samt að skoða það dæmi að ári.
Það er gott að geta látið sér nægja lítið, þegar þannig árar.
Meðfylgjandi myndir sýna nokkra af viðstöddum félögum og velunnurum...
Subscribe to:
Posts (Atom)