Thursday, November 24, 2011
Sjaldséðir flækingar !
Það er misjafnt eftir árstíma og veðri hversu mikið af flækingsfuglum kemur hingað og hvort við sjáum þá eður ei. Fyrir ca. 3 vikum komu um borð í Gullver í sama túrnum bæði Hettusöngvari og Keldusvín og Rúnar náði myndum af þeim.
Tveim túrum síðar kom svo þessi fallega Brandugla um borð sem væntanlega er nú komin upp á Hérað með Gulla vélstjóra sem tók myndina af henni. Óvíst er um hvort hún lifir, því hún vildi ekkert éta þessa daga sem hún dvaldi um borð. Loks hafa svo verið hér 3 rússneskar (austrænar) Blesgæsir sem eru frekar sjaldséðar hér á landi. Þær hafa haldið til út við Dvergastein s.l. 2 vikur í félagsskap við Grágæsina sem er heimagangur þar á bæ. Ég fékk lánaða þessa mynd frá Gulla sem er betri en mínar myndir af gæsunum, enda vantar mig betri aðdráttarlinsu til að ná góðum myndum af fuglum. Góðum myndum af fuglum nær maður varla nema með góðum græjum :)
Sunday, November 13, 2011
Myrkragangan 2011
Við höfum haft það fyrir sið að mæta árlega í myrkragönguna sem ávallt er gengin í lok Daga myrkurs. Þá safnast fólk saman í gömlu vélsmiðjunni, þar sem fyrsta rafstöðin var sett og notuð hér í bænum fyrir rúmri öld síðan og er þar enn þó ekki sé hún lengur í notkun. Síðan voru öll götuljós slökkt í bænum og flestir slökktu einnig ljósin í húsunum, á meðan við gengum með luktir, kyndla og vasaljós í gegnum bæinn, með einu smá stoppi við gömlu bókabúðina, þar sem listrænn gjörningur var skoðaður. Síðan var haldið til bláu kirkjunnar þar sem allir sátu um stund og hlýddu á boðskap um birtu og frið. Eftir það fórum við heim, en veðrið var milt, stillt og gott, þó smá súld hafi sáldrast yfir okkur á leiðinni...
Dagar myrkurs !
Dagar myrkurs sem er árlegur viðburður á þessum tíma á Austurlandi hefur nú staðið yfir í rúma viku, eða frá 3.-13. nóvember. Ýmislegt er í boði þessa daga, t.d. er Myrkragetraun í gangi hjá mér á Bókasafninu og þessir dagar eru sektarlausir, þannig að þeir sem komnir eru í vanskil geta skilað inn bókum án þess að fá sekt.
Ýmsir aðilar höfðu opnar vinnustofur um s.l. helgi, m.a. Garðar Eymundsson, en ég kíkti til hans að skoða nýjustu verkin hans. Einnig skrapp ég í Nóatún til að skoða handverk hjá danska hönnuðinum þar og til Helga og Þórunnar í gamla sjoppuskúrinn, þar sem þau hafa bækistöð fyrir þeirra handverk. Síðast fór ég svo í Skaftfell og sat þar og hlustaði á minningafrásagnir Seyðfirðinga sem verið er að safna saman. Þar kennir margra "grasa" :) Ég sat þarna í 1-2 tíma og prjónaði heila hespu á meðan, því engin nauðsyn er að horfa á upptökurnar, þar sem viðmælendur sitja allir á meðan þeir segja frá...
Ég mæli með því að fólk leggi þangað leið sína þegar tími gefst og velji sér frásagnaraðila ef þeir ekki vilja hlusta á allt saman :)
Breiðablik
Gamla húsið "Breiðablik" sem var endurbyggt fyrir nokkuð mörgum árum, stóð á mjög lélegum kjallargrunni sem var smám saman að hrynja saman og á endanum tóku þeir Sunnuholtsbræður sig til og lyftu húsinu af kjallaranum, grófu upp allan grunninn og steyptu nýjan kjallara. Núna loksins eru þeir búnir að láta húsið síga aftur ofan á nýja kjallarann. Vonandi heppnast þessi aðgerð til frambúðar, svo að hægt verði að klára húsið og nota það eitthvað í framtíðinni, því alltaf er frekar vöntun á húsnæði heldur en hitt....
Subscribe to:
Posts (Atom)