Monday, June 03, 2013

Nína Björg skírð !




Þann 20. maí (á Annan í Hvítasunnu) var Nína Björg Bergþórsdóttir skírð í Hafnarfjarðarkirkju og gekk það allt mjög vel. Hún var skírð í kjólnum sem ég saumaði þegar ég var 18 ára gömul í Húsó og öll mín börn voru skírð í ásamt fleiri börnum. Fjölskylduveislan var í safnaðarheimilinu við hlið kirkjunnar, svo þetta gat ekki verið þægilegra. Við hjálpuðumst að við að gera allt klárt og fjölskylda og vinir Hildar sáu um veitingarnar, en við Rúnar hjálpuðum til eins og við gátum og nutum þess að fá tækifæri til að hitta ættingja og vini sem annars hefði ekki verið tími til að sjá, því við vorum á förum aftur austur daginn eftir, enda þurfti Rúnar að fara beint á sjóinn og ég í mína vinnu. Um kvöldið var slappað af í heita pottinum eftir góðan dag..!

Tveir dagar í New York




Við komum til New York að morgni dags frá Lima og tókum leigubíl inn á Manhattan þar sem hótelið "okkar" er staðsett aðeins nokkra metra frá Empire State byggingunni. Þar var ákveðið að gista eina nótt og nota tímann vel áður en við færum heim. Veðrið var frábært og við ákváðum að fara í Sightseeingtour um borgina, til að geta séð sem mest á stuttum tíma. Við hoppuðum úr á miðri leið til að skoða hluta af Central Park og fórum úr hjá Dakota byggingunni þar sem John Lennon og Yoko Ono bjuggu (og hún býr þar reyndar enn) en eins og flestir vita þá var John myrtur einmitt fyrir utan þessa byggingu. Við gengum síðan inn í garðinn þar sem sjá má minningar um þennan tíma. Eftir rölt um garðinn héldum við áfram með næsta vagni heilan hring og fórum framhjá ótal þekktum byggingum eins og húsum Sameinuðu þjóðanna... Við höfðum samt ekki tíma til að fara síðari hringinn og ákváðum að geyma það til næsta dags...






Næsta morgunn vorum við mætt kl 8 í biðröðina við Empire State til að komast sem fyrst upp á topp til að sjá útsýnið yfir Manhattan og nágrenni. Við ákváðum svo að fara síðari hringinn og héldum áfram að sjá ótrúlegustu staði sem maður hefur heyrt um og séð í kvikmyndum. Mannlífið á götunum var líka mjög skrautlegt og mikil viðbrigði að vera komin á þennan erilsama stað eftir að hafa verið innan um rólega mannlífið í Perú. Mér fannst athyglisvert að sjá þarna risastór bókasöfn, annað þeirra (rauða byggingin) er háskólabókasafnið, en hitt (með hvítu súlunum) er Borgarbókasafnið sem ég reyndi að fá inngöngu í, þegar við áttum leið þar hjá fótgangandi, en þá var einmitt verið að loka því, svo ég sá mest lítið, því miður. Þessu eina kvöldi eyddum við í gönguferð um nágrennið, þar sem sjá mátti yfirþyrmandi auglýsingaflóð og mannfjöldinn á götunum var eins og síld í tunnu, svo við lá að maður fengi innilokunarkennd.... Við tókum síðan taxa tímanlega síðdegis út á flugvöll til að fljúga heim til Íslands um miðnætti og komum til Keflavíkur snemma að morgni eftir svefnlausa nótt og lögðum okkur því í nokkra tíma áður en næsti viðburður tók við :)

Saturday, June 01, 2013

Tveggja vikna ferð til Perú !

                                                    Limaborg, þar sem aldrei rignir !
                                                Skóli í Lima heimsóttur og færðar gjafir :) 
                                                Daníel fararstjóri og sonur hans í Lima :) 
Merkimiðar, pokar + bolir merkt Daniel + co...

Það hafði staðið til í nokkur ár að fara til Perú og loksins 2. maí 2013 lögðum við af stað til New York, áleiðis til Lima í Perú. Ferðin til Lima tók um 20 tíma með biðtímanum á Kennedyflugvelli. 
Ferðafélagar okkar voru Bogi Arason frændi Rúnars og hans kona Hanna Guðjónsdóttir og það verður að segjast að betri ferðafélaga er vart hægt að hugsa sér og verða minningarnar um þessa einstöku ferð okkar saman ógleymanlegar og dýrmætar.
Daniel Salazar fyrrum prestur en nú fararstjóri tók á móti okkur að morgni 3. maí og ók með okkur beint á hótelið sem við vorum á fyrstu 2 næturnar. Síðan ókum við beint í skóla fyrir fátæk og munaðarlaus börn sem Daniel hefur séð um að aðstoða með styrk frá Vinum Perú á Íslandi, en við erum í þeim hópi og höfum styrkt þetta starf í ca. áratug. Lýsi hf. var rausnarlegt og gaf lýsisperlur handa nemendum skólans, sem voru þegnar með þökkum og gaman var að sjá hvernig búið er að þessum börnum sem virtust nægjusöm og ánægð með sitt hlutskipti.
Daniel færði okkur merkta boli og poka undir dagvörur og merkti líka allar okkar ferðatöskur, svo ekki færi á milli mála á hvers vegum við værum.
Við heimsóttum ýmsar byggingar, dómkirkjuna og katakomburnar sem eru þar undir með beinum löngu liðinna íbúa svæðisins. Einnig söfn og garða og fallega staði. Á öðrum degi kom 8 ára sonur Daniels með okkur, því hann er svo hrifinn af Víkingum og taldi augljóst að við værum slíkir, fyrst við komum frá Íslandi. Við sáum skrúðgöngur við forsetahöllina, markaði, fornar byggingar og umhverfi borgarinnar sem stendur í eyðimörk, þar sem ALDREI rignir, þó ótrúlegt sé. Aðeins þoka og raki kemur af hafinu, en fjöllinn taka alla rigninguna og þaðan kemur nóg vatn fyrir borgina, svo hægt sé að búar þar. Við borðuðum alltaf saman á hverjum degi og Theo litli hafði gaman af að fara með okkur og borða á kjúklingastað sem er víst vinsæll á þessum slóðum. Það versta var að heilsan mín var ekki góð, ég veiktist áður en við lögðum af stað, af inntöku á lyfi sem mælt er með að fólk fái áður en það fer í svona ferðalög, en það virkaði hreinlega eins og eitur á minn líkama. Mér var óglatt og illt í 2 vikur og daglegur niðurgangur gerði ástandið ekki betra. En ég er fegin að ég fór, þrátt fyrir vonda líðan, því ekki hefði ég viljað missa af þessu ævintýri, sem þessi ótrúlega ferð var. Það er ýmislegt á sig leggjandi fyrir slíkt....
                                            Útsýni yfir borgin Cusco sem er í hálendi Perú.
                                            Handverkskonur sem lita og vefa lamaullina...
                                                Fornminjar skoðaðar í Sacret Valley...
                                                Saltnámusvæðið sem við heimsóttum....
Á leiði niður Inkaslóðin sem við gengum...

Á 3ja degi flugum við frá Lima til Cusco sem er hátt í 4000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar sem ég var ekki heil heilsu þá svimaði mig hressilega þegar ég þurfti að fara að ganga þar upp í móti. En sem betur fer hafði Daniel fararstjóri ákveðið að fara með okkur niður í Sacred Valley sem er talsvert neðar, því þar yrði auðveldara fyrir okkar að venjast þunna loftinu, áður en við færum ofar í fjöllin. Á leiðinni niður til litla bæjarins Úrubamba komum við á handverksstað þar sem konur unnu ullarvörur úr lama og kindaull sem þær höfðu litað og unnið sjálfar. Hótelið sem við fórum á var sérlega huggulegt og mikið fuglalíf og blómskrúð þar í kring. Þá 2 daga sem við dvöldum þarna fórum við akandi um dalinn að skoða allt það helsta sem þar var, m.a. fornar byggðir Inka og saltnámurnar þeirra, einnig gengum við Inkaslóð ofan af háu fjalli og niður í bæ, þar sem stór ferðamannamarkaður var, en allir eru meira og minna að framleiða vörur fyrir ferðamenn eða þjónusta þá á einn eða annan hátt. Það reyndist mér auðvelt að labba niður í móti, en mjög erfitt að ganga upp tröppur og brekkur, þá varð ég lafmóð og reyndar við öll 4, fundum hressilega fyrir hæðarmuninum, enda óvön slíku súrefnisleysi.

                                                 Á leið upp til Machu Pitchu með fararstjóra...
                                            Á leið til baka frá inngönguleiðinni= Sólarhliðið.
                                                Útsýni yfir hluta af gömlu borginni Machu P.
                                                Heitu böðin minntu á hliðstæða staði á Íslandi.
Fuglagarðurinn með kólibrífuglum var einstakur !

Á 3ja degi í Sacred Valley yfirgáfum við hótelið góða og héldum af stað með mjög hægfara lest til Machu Pitchu, sem gjarnan hefur verið nefnd Týnda borgin. Það var Hiram Bingham sem kom þangað með leiðsögumanni árið 1911 og sagði síðan umheiminum frá þessari ótrúlegu mannlausu borg í frumskóginum. Machu Pitchu er nafnið á fjallinu á bakvið borgina og þýðir „Gamla fjallið“, en enginn veit hvað borgin hét eða hvað varð um íbúa hennar. Ferðin með lestinni var forvitnileg, því við fórum beint inn í frumskóg þar sem alls konar fuglar og blóm þrífast, eins og kólibrífuglar og orkideur. Við komuna til þjónustubæjar M.P. fórum við beint í rútu sem ók með okkur upp brattar hlíðar fjallsins uppá bílastæðið hjá M.P. Þaðan gengum við áfram upp á gamla Inkaslóð sem liggur eftir fjallinu til hliðar og upp í svokallað „Aðalhlið“ eða innganginum til Machu Pitchu. Það var stórkostlegt útsýni yfir dalinn, Úrubambaána sem liðast um dalinn og kringum fjallið og borgina í jafnvægi á móti Vetrarbrautinni á himnum sem sögð er liðast á sama hátt á himinhvolfinu fyrir ofan. Það var glaða sól og um 30 stiga hiti og því mjög erfitt að labba upp þessa Inkaslóð og tók sinn tíma. Ég komst það samt þó ég væri bæði sveitt og móð eins og margir fleiri, enda vorum við ekki orðin aðlöguð þessari miklu hæð, en vorum þó svo heppin að sleppa við hæðarveikina sem er víst ekki góð.  Við héldum síðan niður aftur og það var auðvelt þó hitinn væri of mikill og röltum um rústir borgarinnar og fræddumst um hana og þá sögu sem þekkt er.  Síðar fórum við á safnið í Cusco sem hýsir múmíur og muni sem fundust í borginni við uppgröft hennar.  En þegar líða tók á daginn héldum við niður í bæinn og á hótelið sem við gistum næstu nótt.  Morguninn eftir var farið í heitar laugar sem eru ekki ósvipaðar okkar heitu laugum á Íslandi. Svo var skoðaður afskaplega fallegur fugla og blómagarður, þar sem við sáum mikið af litlum spörfuglum sem gaman var að sjá. En að því loknu héldum við aftur af stað með lestinni til fundar við bílstjórann okkar sem beið eftir að flytja okkur til Cusco, en það var næsti áfangastaður...

                                                Fórum á þjóðlega magnaða danssýningu...
                                            Ævagamlar einstakarvegghleðslur hjá Cusco...
                                            Konudagshátíð í Cusco við stóru dómkirkjuna...
                                                Grillaðir naggrísir voru víða til sölu þarna...
                                                Veitingahús fullt af ólíkum vínföngum...

Ferðin til Cusco var býsna löng og seinlegt að þræða þröngar götur borgarinnar þar sem mikil umferð er, svo við vorum seint komin á hótelið okkar við aðalgötuna, en höfðum þó tíma fyrir snögga sturtu áður en Daniel fararstjóri dreif okkur á þjóðlega danssýningu sem var mjög skrautleg og lífleg. Að því loknu var tími til kominn að borða, en matartímar hjá okkur fóru eftir hentugleikum, því nákvæm tímasetning var ekki alltaf möguleg. Næstu 2 daga fórum við á ýmsa þekkta og merkilega staði, m.a. að skoða mannvirki Forn Inka sem eru engu lík, því hleðslutækni þeirra hefur verið einstök og hvergi stærri og þyngri steinar felldir saman af fullkominni nákvæmni.  Við fórum á stórkostlegan markað sem gaman var að skoða, en þar mátti fá ótrúlegustu hluti m.a. grillaða naggrísi sem eru þjóðarréttur, en við létum okkur nægja að horfa á þá og röltum svo um borgina og á ýmiss konar söfn báða dagana.  En seinni daginn vorum við á eigin vegum, því bílstjórinn okkar var að skíra dóttur sína og Daniel sem fyrrum prestur og vinur hans varð að mæta sem skírnarvottur og guðfaðir barnsins. Sá dagur var einmitt Mæðradagurinn og hann er hátíðlegur haldinn þarna með skrúðgöngum við Dómkirkjuna sem við skoðuðum auðvitað. Við sátum og horfðum á öll hátíðahöldin og nutum þess svo að vera frjáls og haga deginum að eigin geðþótta. Enduðum svo daginn á góðu veitingahúsi þar sem öll loftin voru þakin í vínflöskum sem okkur taldist að væru samtals yfir 1000 flöskur :)
                                            Fátæku börnin í fjöllunum heimsótt og færðar gjafir.
                                            Þarna komin í meira en 4000 metra hæð yfir sjó !
                                                Nesti borðað á hálendinu !
                                         Smalar fylgja búpening þarna eins og forðum á Íslandi.
                                            Ljótasta borg sem við höfum séð á ævi okkar !

Næst héldum við af stað upp í hálendi Andesfjallanna og heimsóttum þar lítið fátækt þorp sem heitir Cosecane. Þar er líka skóli fyrir fátæk og einstæð börn sem hefur notið styrktar frá Vinum Perú á Íslandi. Við færðum þeim fulla stóra tösku af ullarsokkum, húfum og treflum og að síðustu fengu svo öll börnin 2 íslenskar karamellur á mann, því mér datt í hug að það skipti líka máli, enda urðu börnin glöð og við fengum miklar þakkir fyrir heimsóknina.   Þarna á hálendinu býr fullt af fólki með lamadýr, nautgripi, geitur og kindur og hverjum dýrahópi fylgir a.m.k. einn smali sem gætir þeirra daglangt. Margir þeirra voru með handavinnu og voru það yfirleitt konur sem sátu og snéru ull upp á snældur eða prjónuðu minjagripi handa ferðamönnum. Þetta var mjög athyglisvert. Við stoppuðum líka á útimarkaði í 4335 metra hæð yfir sjávarmáli (eins og sést á einni myndinni) og þurftum að borga fyrir að taka myndir af fólkinu þarna. Á miðri leið stoppuðum við til að borða og það var sannkallaður picnic og mjög gaman að prófa það líka. Síðast ókum við gegnum borg sem heitir Juliaca og er sú ljótasta borg sem við höfum augum litið. Þar eru öll hús ókláruð svo ekki þurfi að borga af þeim skatta, enda er þessi borg þekkt fyrir smygl og ýmsa ólöglega starfsemi og er skítug og sóðalegri en flestir aðrir staðir sem við höfum komið á. Við komum til borgarinnar Puno  við Titikakavatn rétt við sólsetur og fórum því beint á hótelið og að borða. Við háttuðum alltaf snemma, því við fórum líka snemma á fætur en sólsetur og myrkur skellur á hjá þeim kl 6 á hverjum degi. En það er orðið fullbjart kl 6 á morgnana.

                                                Sefeyjarnar heimsóttar á Titikacavatni...
                                            Sumir höfðu sólarsellu og sjónvarp í kofunum...
                                        Töframaðurinn sem brenndi kókalaufum okkur til heilla...
                                                Óvæntur málsverður á eyju á hálendinu...
                                            Mjög sérstakur prjónaskapur sem seint gleymist.
Minnstu lamadýrin vernduð á fámennri eyju...

Við lögðum snemma af stað út í Sefeyjarnar í Titiqaqa vatni, en þær urðu til þegar fyrrum íbúar svæðisins flúðu undan Spánverjum sem báru með sér skæða sjúkdóma sem fólk var ekki síður hrætt við. Þarna býr fólk í strákofum sem okkur þætti lítið skjól í kulda og regni, en það er ótrúlega kalt þarna á næturnar, þó hlýtt sé á daginn. Mér fannst merkilegt að sjá þarna sólarsellur á þökum kofanna, en þarna er ekkert annað rafmagn. Inni í kofunum voru svo stakar ljósaperur og lítil sjónvörp, en fólk eldar þarna á gasi og þarf að nota steinhellur undir eldunargræjurnar J  Við héldum svo áfram yfir á stóra og hálenda eyju í vatninu og þar gistum við eina nótt. Við fengum steiktan regnbogasilung í matinn, en nóg er af honum í vatninu og smakkast hann alveg eins og íslenskur silungur. Við gengum síðan upp á efsta hluta eyjarinnar sem er í 4,150 m. hæð, til að bíða þar eftir sólsetrinu sem vanalega er afar fallegt. En að þessu sinni var hálfskýjað svo við röltum til baka á meðan myrkrið skall á. Við mættum heimafólki sem var berfætt og bar ýmsar birgðar á sjálfum sér eða rak búsmala sinn heim á leið. Um kvöldið beið okkar nokkurs konar Andalæknir sem bað fyrir okkur af mikilli innlifun og fórnaði heilmiklu af kókalaufum og fleiru okkur til verndar og brenndi svo allt saman við hátíðlega athöfn. Að sjálfsögðu fékk hann greitt fyrir þjónustuna eins og aðrir.  Næsta dag fórum við til annarrar eyjar, þar sem okkar beið dúkað borð á einkabaðströnd og fengum þar aftur steiktan silung, sem ég kunni bara vel að meta :) Þarna sáum við líka karlmann prjóna barnapeysu með mörgum litum og gerði hann það á undanlegan hátt. Margt fleira merkilegt sáum við þarna sem í frásögur væri færandi.  En að því loknu héldum við aftur með bátnum til Puno og á sama hótel og áður, þar sem garðurinn var fullur af lamadýrum sem kölluð eru Apaca og naggrísum sem voru ótrúlega gæfir. Margir fuglar voru þarna líka og ég þyrfti að sýna eitthvað af þeim og dýrum og mannlífi svona í lokin :)
                                            Gist og skoðunarferð í hálendisborginni Puno...
                                                Lifandi naggrísi mátti víða sjá á förnum vegi...
                                                Lamadýr sáum við líka býsna oft...
                                            Kýr í sjálfskipuðu vatnsbaði að éta sefgras :) 
Síðasta máltíðin  með Daniel + bílstjóranum...

Síðasta morguninn okkar vorum við snemma á fótum og fórum út í gamla skipið sem liggur við festar framan við hótelið, það er nú safn fyrir ferðafólk og Rúnar hafði sérstaklega gaman af að skoða það. Síðan rölti ég um garðinn og tók myndir af fuglum, lamadýrum og naggrísum sem nóg var þarna af. Loks héldum við af stað í áttina að flugvellinum í Juliaca, en á leiðinni fórum við í stutta ferð út í friðaða eyju þar sem minnstu lamadýranna er gætt, því þau eru í útrýmingarhættu. Þar býr ein fjölskylda sem gætir dýranna og nautgripir þeirra voru í baði úti í vatninu, þar sem þau hámuðu í sig gróður sem hentar þeim vel. Síðan fórum við í land og skoðuðum ævafornan grafreit Forn Inka og fleira forvitnilegt. Loks fórum við í heimsókn á bóndabæ, hjá vinafólki Daniels sem veitti okkur aðstöðu til að borða nestið sem við vorum með og varð það síðasta máltíðin okkar saman. Við ókum síðan á flugvöllinn í ljótu borginni Juliaca og flugum saman til Lima, þar sem við kvöddum okkar ágæta fararstjóra og innrituðum okkur beint í flugið til New York, en þar stoppuðum við í 2 daga á heimsleiðinni og ég segi kannski eitthvað frá því líka :)
                                            Þjóðlegur klæðnaður eldri kvenna mjög sérstakur.
                                            Smábörn oftast borin á þennan hátt á baki kvenna.
                                            Markaðurinn í Cusco var stór og athyglisverður...
                                                Alltaf gaman að hlusta á Panflaugutónlist :) 
                                                Þessi var mjög lipur að spila á stóru hörpuna.
                                         Unga fólkið klætt á vestræna vísu og með extra þykkt hár !

Ég má til með að minnast á sumt sem var eftirtektarvert, eins og klæðnað fólksins, því flestar eldri konur voru klæddar í hefðbundna þjóðbúninga síns svæðis, en unga fólkið var upp til hópa klætt á vestræna vísu.  Sérstaklega fannst mér skemmtilegt að sjá konurnar með börnin og baggana á bakinu og svo hattatískuna þeirra. Svo má ekki gleyma tónlistarfólkinu sem var víða að spila, ýmist á þjóðarhljóðfærið Panflautu eða eitthvað annað óvenjulegt.
                                                Cara cara var þessi fugl nefndur...
                                                Einhver óþekkt önd sem við sáum...
                                                    Þessi var líkur litlum hrafni...
Þessi er líkur sefhænu !
Hér má sjá fáeinar fuglategundir sem líkjast fuglum hér á landi. Að vísu er sá fyrsti stærri en fálki, en þessi fugl er nefndur Cara cara á máli heimamanna og er ránfugl. Næst er önd sem líkist Hrókönd sem stundum má sjá á Íslandi. Svo er það fugl eins og hrafn, nema hvað þessi er mikið minni, á stærð við kráku, en nafnið á honum þekkjum við ekki. Loks er svo fugl af hænsnaætt, mjög líkur sefhænu sem stundum flækist til Íslands.