Áður en skólarnir byrjuðu dreif Bergþór sig með börnin Nínu og Þorstein í heimsókn til okkar á Sf. Við gerðum ýmislegt með þeim, m.a. fórum við að skoða fossana og veiða á bryggjunum og gekk það mjög vel í eitt skiptið, því Þorsteinn veiddi 13 fiska og Nína 18 fiska. Kíktum líka upp í hellirinn við Fjarðará og svo tíndum við fullt af berjum, bæði bláber, krækiber og svo hindber og jarðarber hér í garðinum okkar. Margt fleira gerðum við þessa daga, en ég læt þetta nægja í þetta sinn <3
Tuesday, August 23, 2022
Fornleifauppgreftri lokið hér á Sf þetta sumarið !
Framhalds-forleifa-uppgröftur fór fram hér á Seyðisfirði á svæðinu ofan við Fjörð og þar kom margt merkilegt í ljós allt frá upphafi byggðar hér á landi. Að þessu sinni fór ég aðeins einu sinni til að fá fréttir af hvernig þetta hefði gengið, en þá tóku veðurguðirnir sig til og helltu steypiregni yfir okkur svo dvölin varð styttri en til stóð ;)
Halli Már í bráðabirgðadvöl hjá okkur !
Halli Már er nýbúinn að fara í augnaðgerðir og fleira og var svo óheppin að rafmagnið fór af íbúð hans á meðan hann var á spítala og allur matur í ísskáp og frysti urðu ónýt, svo þrífa þurfti íbúðina áður en hann gat farið heim. Við sóttum hann í flug og hann dvaldi hjá okkur þar til íbúðin var klár. Myndin er að vísu gömul, því ég tók engar myndir af honum á meðan hann var hjá okkur, enda nóg til af myndum af honum á öllum aldri :)
Sunday, August 14, 2022
Sveppatínsla og berjaspretta !
Berjaspretta hefur verið hægfara vegna kaldrar og blautrar veðráttu í sumar, en það lítur samt útfyrir að ætla að verða þokkalega góð krækiberjaspretta og sæmileg bláberjaspretta, ef við fáum 2-4 þokkalegar vikur í viðbót. Ég tíndi samt smávegis og bjó til nokkrar litlar flöskur af saft af báðum tegundum. Hinsvegar hefur verið sæmileg spretta á sveppum sem ég hef verið að tína undanfarið og steikja og frysta til vetrarins. Nóg hefur verið af hindberjum í G-húsinu og það mest verið notað handa gestum, en sólberin bíða eftir því að verða notuð í sultu eða saft með haustinu.
Sumardvöl Adams er á enda !
Nú er dóttursonur okkar Adam farin aftur til síns heima í Noregi eftir 2 mánaða dvöl hér hjá okkur og Siggi Birkir loksins kominn í sumarfrí, eftir ferð með Neyðarlínunni um norðurlandið undanfarið. Við fengum líka óvænta heimsókn í dag, Sigrúnu Kjartans mína gömlu og góðu vinkonu að norðan með Sigga og dóttur hans sem er líka stödd hér fyrir austan. Ég gleymdi að taka mynd af gestunum áðan svo að myndin af Sigrúnu og Sigga er mynd sem ég vistaði af síðunni hjá Sigrúnu <3