Heil og sæl á ný.... já, ég er á lífi !
Eftir 3ja vikna vinnutörn við undirbúning þorrablótsins sem haldið var s.l. laugardag, gef ég mér loksins tíma til að blogga, en þá vill það ekki ganga vel frekar en fyrri daginn og mætti hreinlega halda að ég ætti að sleppa því.
Eftir að hafa setið heillengi og pikkað og sett inn myndir o.fl. tók tölvan upp á því að endurræsa sig upp úr þurru og þurrkaði þar með út það sem ég var að vinna.. Þó að ég verði svekkt og fari að efast um tilgangs þessa spjalls hjá mér, þá ætla ég að þrjóskast við einu sinni enn og vona að betur gangi í þetta sinn. Ef ekki, þá er sjálfhætt og frítíminn verður þá framvegis notaður í eitthvað annað ???
En það sem ég var búin að tíunda svo vandlega áðan var öll skemmtilega vinnan við þorrablótið og góðar umsagnir fólks sem fór á það.
Við Rúnar vorum kölluð til liðs við nefndina ásamt fleirum fyrir jól og höfðum því lítinn tíma til að setja okkur inn í stöðu mála. En aðalstjórnendurnir voru með fullt af hugmyndum sem hópurinn síðan vann úr og bætti við eftir bestu getu. Allir voru mjög samhentir og duglegir og útkoman varð skv. bestu vonum, eða - MJÖG GÓÐ - eins og áhorfendur lýstu því.
Ég er búin að setja inn í Netalbúm nokkrar myndir sem ég tók á æfingum og af salnum eins og hann leit út lokakvöldið. Þær eru á slóðinni http://photos.yahoo.com/sollasig54
ef einhver hefur áhuga á að skoða þær. Fyrir þá sem ekki mættu á blótið, segja þær e.t.v. lítið, en þær ættu samt að gefa hugmynd um hversu líflegt var hjá okkur og hve fallega salurinn var skreyttur.
Því miður hefur mér ekki tekist að setja myndina með af salnum, þetta forrit neitar að hleypa henni með, frýs bara og verður óvirkt. Og nú er tími minn á þrotum eftir 3-4 árangurslausar tilraunir.... :-(
Að lokum óska ég ykkur öllum ánægjulegs þorra og kveð ykkur - þar til næst....(?) !
No comments:
Post a Comment