Kæru kynsystur - TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN !
Það er oft erfitt að velja þegar margt er um að vera á sama tíma. Þessa helgi skreið sólin loksins yfir fjallatoppana og skein á sólarþyrsta Seyðfirðinga eftir 4 mánaða fjarveru úr firðinum. Af því tilefni hafa flestir bæjarbúar borðað pönnukökur og fleira góðgæti til að fagna komu hennar. Vísast hafa margar konur einnig fengið blóm í tilefni dagsins.
Abba Sveins eða Arnbjörg Sveinsdóttir þingmaðurinn okkar hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt hér í gær og vafalaust hefur verið þar mikið fjör og gaman. Synir okkar skemmtu sér á Egilsstöðum með samstarfsfólki sínu og Bergþór fór auk þess á Barkann á föstudagskvöld og skemmti sér líka vel þar. En við Rúnar misstum af öllum þessum herlegheitum heimafyrir, því við ákváðum að skella okkur norður yfir heiðar þar sem veðurspáin var mjög góð, til að hitta foreldra mína aðeins áður en við leggjum af stað í 2ja vikna ferð til Egyptalands sem fyrirhuguð er þann 18. mars n.k. Það var frábær blíða báðar leiðir, glampandi sól og mikil snjóbirta sem er viðbrigði fyrir okkur sem höfum setið í skammdegismyrkrinu hér síðustu mánuði. Það verða samt trúlega meiri viðbrigði að koma í suðræna hlýju, birtu og umhverfi Egyptalands. Vonandi gengur það samt vel, þrátt fyrir hugsanlegt yfirvofandi fuglaflensufár og hatrammar deilur múslima og danskra ríkisborgara o.fl. Það er varla ástæða til að óttast þá óheppni að lenda í einhverju slíku óhappi....
Að lokum var það svo þessi furðulegi skrípaleikur í kringum fígúruna Silvíu Nótt, sem mér hefur ekki tekist að skilja, enda lít ég fyrst og fremst á hana sem slæma fyrirmynd fyrir unga fólkið, eða hvað ? Er ég kannski bara orðin OF gömul til að kunna að meta fáránleikann sem mörgum finnst svo fyndinn (?), minn húmor er víst bara stöðvarstrákahúmor, púnktur og basta...
No comments:
Post a Comment