Wednesday, April 25, 2007

Skólaslit og fleira...


Ég ætla að byrja á að segja frá því sem mér þykir verst héðan í fréttum, en það er sú staðreynd að búið er að selja DRAUMHÚSIÐ til Reykjavíkur og eru nú síðustu forvöð að versla þar og skoða allar þær fallegu vörur sem boðið er uppá í einstaklega fallega uppgerðu húsinu, sérstaklega finnst mér efri hæðin falleg, (sjá mynd). Það er leitt að svona verslunarrekstur skuli ekki geta borgað sig hér á okkar svæði...
En nú líður að skólaslitum hjá mér í Dreifnáminu hjá BHS, því við eigum að mæta í síðustu vinnulotuna á þessari önn föstud. 27. apríl n.k. Við Rúnar ætlum síðan að fara þann 7. maí í 9 daga rútuferð á milli 5 borga í Evrópu (Búdapest - Vín - Salsburg - Verona og Pisa) en þá verður Gullver í slipp og því um að gera að nota tækifærið fyrst að Rúnar á frí að þessu sinni. Við lendum í leiðinni í fimmtugsafmæli hjá Árna (og Ellu) og Mo tengdasonur okkar verður líka 35 ára. Síðast en ekki síst verður svo Ásta móðursystir Rúnars sjötug og ætlar af því tilefni að bregða sér af bæ með Ara, Binnu, Magga og fjölsk. til Spánar í 2 vikur. Vonandi verðum við öll heppin með veður og njótum frídaga okkar hvar sem við verðum....

Saturday, April 21, 2007

Endalaus bloggvandræði...

Af einhverjum furðulegum ástæðum heldur tölvan áfram að stríða mér þegar ég reyni að blogga. Nú er ekki nokkur leið að koma textanum með myndunum á réttan stað og ég búin að reyna nokkrum sinnum í dag. Þetta er lokatilraun, þ.e.a.s. ég ætla að setja textann sem nýjan póst fyrir ofan myndirnar og vona að þannig gangi þetta.
Textinn sem fylgja átti myndunum er þessi;

Í gær, föstudaginn 20. apríl fórum við Kolla samstarfskona til Stöðvarfjarðar á árlegan vorfund bókavarða á Austurlandi. Það var fyrirfram ákveðið að þessi fundur yrði stofnfundur félags starfsfólks á bóksöfnum og upplýsingamiðstöðvum á Austurlandi.
Mæting var frekar slök, aðeins komu 10 konur. En allar voru samtaka og byrjuðu á að kjósa um nafn á félagið. Þrettán tillögur bárust og mér til undrunar var ákveðið að eitt nafnið sem ég stakk uppá - Austfirsk Upplýsing - var valið sem nafn félagsins.
Verðlaunin voru ekki af verri endanum, því Kolla sem var í undirbúningsnefnd hafði útvegað stóru Íslandskortabókina og þáði ég hana með þökkum. Síðan var kosin 3ja manna stjórn. Laufey Eiríksd. varð ofaná sem formaður en meðstjórnendur hennar þær Anna Margrét frá Breiðdalsvík og Rúna frá Reyðarfirði. Inga Lára var síðan fyrsta varamanneskja og Kolla nr. 2.
Margir bókapokar og kassar skiptu um eigendur, því við reynum auðvitað að koma ónotuðum aukaeintökum sem liggja hjá okkur engum til gagns í hendur þeirra sem ekki eiga þá titla. Síðan fengum við okkur næringu á eina veitingastað þorpsins og var það bæði gott og vel útilátið. Hafi þær Stöðvarfjarðarkonur bestu þökk fyrir móttökurnar.

Stofnfundur bókavarða...



Það hvarflaði að mér að prófa að opna bloggið í Firefox og athuga hvort ég gæti sett hér inn texta í stað þess að nota Explorerinn eins og ég er vön. Ef þetta tekst, þá vil ég geta þess að textinn sem átti að fylgja með þessum myndum er hér fyrir ofan... Vonandi heppnast þessi tilraun, því þá er hugsanlega fundin leið til að leysa þessi tímafreku og leiðinlegu bloggvandræði sem hafa háð mér að setja hér inn myndir og fréttir... HÚRRA- ef þetta skyldi ganga... OVER AND OUT...

Páskavikan


Páskavikan var óvenju lífleg hjá mér, þrátt fyrir að Rúnar væri á sjó, því að synir okkar komu austur og með þeim fylgdu tveir vinir þeirra og frændur. Ég hafði því nóg að gera við að næra þá, enda ungir menn yfirleitt lystugir. Þeir þáðu páskaeggin sem ég bauðst til að fela fyrir þá, nema hvað þeir vildu sjálfir fara í ratleik og földu eggin hver fyrir annan. Það gekk misvel að finna þau og varð úr skemmtilegur leikur sem tók sinn tíma.
Eitt óvenjulegt átti sér stað, jólakaktusinn minn sem blómstraði óvenju mikið fyrir jólin, tók sig aftur til og blómstraði heilmikið um páskana. Mig grunar að kaffiblandaða vatnið sem hann hefur fengið sem næringu í vetur hafi þessi óvenjulegu áhrif á hann... a.m.k. kann ég ekki aðra skýringu !

Monday, April 16, 2007

Miklar umhleypingar !


Þó aðeins séu eftir tæpir 3 dagar af þessum vetri, þá gerir maður ráð fyrir að hann teygji klærnar fram á sumarið eins og hann er vanur.
Veðrið hefur verið óvenju umhleypingasamt þessa fyrstu mánuði ársins. Undanfarið hafa þó verið hlýir vordagar og lítið frost sem veldur því auðvitað að allur gróður er kominn þó nokkuð af stað og yrði því óhjákvæmilega fyrir áföllum ef enn eitt kuldahret mundi skella á.
Það hefur verið venju fremur vindasamt og hviðurnar stundum orðið mjög slæmar. Sem dæmi um áhrifin þá fuku nokkur nýkomin hjólhýsi um koll á ferjuhöfninni um daginn (sjá mynd) og þakgluggi á RARIK fauk á nærstatt hús og bíl og skemmdi hvort tveggja.
Þrátt fyrir hugsanlegt hret og afleiðingar þess hef ég verið að klippa runna og grófhreinsa garðinn í von um að það saki ekki, jafnvel þó veðurguðirnir eigi eftir að hrella okkur meira þetta vorið...