Wednesday, December 26, 2007
Jólin 2007
Heil og sæl og gleðilega jólarest.
Vonandi eru allir saddir og sælir núna og hafa notið frídaganna sem voru kærkomnir.
Það er búið að vera kátt í okkar koti síðan 22. des. því öll börnin, tengdasonurinn og dóttursonurinn komu öll heim þann dag. Í stað Þorláksmessuskötu var borðuð andasteik á okkar heimili, því Rúnar og Mo fóru í smá siglingu út fjörðinn og náðu í 4 endur og nokkra svartfugla til tilbreytingar í matinn.
Kalkúnn var aðalréttur jólanna og hið hefðbundna ananasfromage í eftirrétt að vanda.
Bláberjalegið lambalæri var á annan í stað hangikjötsins sem tengdasonurinn er orðinn hálf leiður á vegna þess hve oft hann borðar það í vinnunni fyrir jólin, sem kokkur á flughótelinu í Keflavík.
Hefðbundnar jólamessur eru inní í mínu jólaprógrammi flest jól. Fyrst er hátíðamessan á aðfangadagskvöld kl 6 og á jóladag eru tvær messur, fyrst á sjúkrahúsinu kl 1 og síðan almenn jólamessa í bláu kirkjunni kl 2. Við vorum nokkuð mörg í kórnum að þessu sinni og mér fannst hópurinn hljóma vel, þó ég segi sjálf frá.
Í dag var árlegt fjölskyldukaffi hjá Binnu og Magga, en þangað mætum við með tertu eða annað meðlæti með okkur og hittum alla ættingja Rúnars þar samankomna.
Og í kvöld keyrðum við Jóhönnu og fjölskyldu upp á flugvöll, en þau urðu að drífa sig heim, enda vinnudagur hjá þeim báðum á morgun og sömuleiðis hjá mér. En á föstudaginn er stefnt á ferð norður til Húsavíkur (ef veðurguðinn lofar) en þá stendur til að flytja foreldra mína af sjúkrahúsinu yfir í Hvamm, dvalarheimili fyrir eldri borgara, en þar hafa þau nú fengið húsnæði sem hentar þeim. Vonandi gengur sú ferð að óskum. Áramótunum ætlum við síðan að eyða hér heima með sonum okkar sem ekki þurfa að yfirgefa okkur fyrr en á nýársdag, þá aka þeir væntanlega suður ásamt félaga þeirra Böðvari Péturssyni sem kom með þeim austur.
Gleðilegt nýár - þið sem lesið þetta - og bestu þakkir fyrir það liðna....!
Friday, December 07, 2007
Nýja eldhúsið
Í sumar tókum við Rúnar þá ákvörðun að endurnýja innréttingar í eldhúsinu okkar, mála og setja nýtt gólfefni. Á haustdögum var drifið í að panta IKEA innréttingu sem við völdum, vegna þess hve vel hún passaði og verðið var líka mjög viðunandi. Rúnar hefur síðan notað fríin sín s.l. 2 mánuði, til að gera eldhúsið eins og nýtt. En ég hef aðallega séð um að flytja allt dót á brott og koma því aftur á sinn stað.
Þetta er hvílíkur munur frá því sem áður var, þegar dökk viðarinnrétting og dökkur dúkur voru allsráðandi, en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þá hefur birt mjög til og erum við afar sátt við það...enda var það eitt af markmiðunum með breytingunni. Gólfefnið eru lakkaðar marmara-korkflísar sem eru hlýjar og mjúkar að ganga á og vonandi verður gott að þrífa þær líka, þá verður ekki á betra kosið....
Það er aðeins tvennt sem eftir er, þ.e. að setja sökkulplöturnar á sinn stað og láta sprautulakka gömlu hilluna sem var yfir bekknum við borðkrókinn, en til stendur að setja hana upp aftur ef vel tekst til með sprautunina...
1.des og skólafrí
Þann 1. des. s.l. varð Rúnar 55 ára. Við vorum stödd í Reykjavík og héldum upp á það með því að fara út að borða ásamt systkinum okkar og mökum þeirra og Sigga Birki syni okkar sem gat komið líka. Við fórum í Sjávarkjallarann og fengum þar örlítil sýnishorn af öllum réttum hússins. Magnið var lítið pr. mann, en fjöldinn mikill, þannig að ég held að flestir hafi farið saddir heim og sáttir, þó þetta væri dýrasta máltíð sem við höfum nokkurn tíman borðað hingað til. En útlitið var alveg óborganlega frábært !!!!
En það gekk ekki átakalaust að komast suður, því óveður tafði ferð okkar um hálfan annan sólarhring. Ég náði þó að mæta seinni daginn í skólann, til að skila af mér öllum verkefnum og ljúka þessari önn. Sjaldan hef ég verið jafn fegin, því þetta er sú erfiðasta skólaönn sem ég hef gengið í gegnum, a.m.k. hin síðari ár. En það var gaman að hitta skólasysturnar og alla ættingjana í leiðinni. Tíminn, sem við höfðum þar að þessu sinni var rúmur sólarhringur, hann var vel notaður að þessu sinni, því við gátum líka verslað smávegis, m.a. í sambandi við eldhúsið okkar, sem við erum að endurnýja og líklega verður næsta blogg einmitt um það, ásamt mynd af útkomunni...
Tuesday, December 04, 2007
Aftur til Barcelona
Fimmtudaginn 22. nóv. s.l. flaug kirkjukór Seyðisfjarðar ásamt mökum flestra, til Barcelona í 4 nátta skemmtiferð. Kórfélagar hafa séð um að þrífa kirkjuna frá því að ég hóf að syngja með þeim, líklega 1997. Greiðslur fyrir þrifin hafa ávallt farið í ferðasjóð sem lítið hefur verið notaður gegnum árin, en nú var ákveðið að skreppa saman í þessa ferð.
Þar sem ég fór til Barcelona fyrir rúmu ári, þá var ég í upphafi óviss um hvort ég færi, því námið sem ég er í tekur sinn tíma og annarlokin hjá mér voru um svipað leyti. En ég sá fram á að geta klárað skólaverkefnin og leyft mér að slappa af í nokkra daga og gerði það, ef röskleg ganga um steinsteyptar götur getur kallast afslöppun.
Því miður hafði ég ekki Rúnar með mér, hann kaus að vera heima og reyna að klára eldhúsið sem hefur verið í endurnýjun s.l. vikur, svo það yrði tilbúið fyrir jólin, áður en börnin okkar koma heim.
Þorgerður Jónsd. eða Dodda var líka ein á ferð og við sáttar við að vera herbergisfélagar þessar nætur. Við gistum öll á Hótel Gran DuCat, sem var ágætt að mörgu leyti, en afar hljóðbært. Ef nágrannar okkar allt um kring hreyfðu húsgögn eða notuðu salerni, sturtu eða krana, þá vaknaði maður við hávaðann og talað mál barst sem ómur á milli veggja og gólfa.
Við vorum samt mjög vel staðsett, rétt við Katalínatorgið sem er miðsvæðis í borginni og stutt að fara þaðan í allar áttir.
Hópurinn fór saman í borgarferð sem var ágæt útsýnisferð, m.a. í Gádígarðinn og kirkjuna sem Gádí vann við til dauðadags.
Einnig borðaði hópurinn saman tvisvar sinnum, fyrst á Tapas-veitingahúsi, þar sem við fengum marga skemmtilega og góða smárétti. En síðar á fínum veitingastað, sem reyndar var sami staður og Gullvershópurinn borðaði saman á í fyrra.
Ég dreif svo Doddu með mér á marga þá staði sem ég hafði skoðað árið áður og fór með hana í bestu verslanirnar og gerðum við þar ágæt kaup, þó reyndar væri ekki mikið verslað.
Það sögulegasta í ferðinni var óvæntur aðskilnaður okkar Doddu á Metro-brautarstöð þegar við ætluðum að fara að versla og ég var að gá hvort við værum ekki að fara í rétta lest. Ég var komin innfyrir til að ath. brautaskiltið ofan við innganginn, en Dodda stóð enn á pallinum við dyrnar, þegar þær lokuðust á milli okkar og ég rann af stað.
En við hittumst á áfangastað, því við vorum búnar að fara þangað áður og því auðveldara fyrir hana að rata. Í sömu ferð keypti hún brjóstahaldara sem á stóð 8 evrur en hvernig sem hún reyndi, þá neitaði afgreiðsludaman að taka meira fyrir hann en 1 evru og Dodda sá mest eftir að hafa ekki skokkað aftur inn í búðina og keypt fleiri.
Gréta systurdóttir Doddu býr og starfar í Barcelona og hitti okkar ítrekað og fór með okkur m.a. að borða á Argentina steak house þar sem sambýlismaður hennar vinnur.
Þar fengum við frábæran mat og góða þjónustu. Einnig fórum við saman að skoða alþjóðlega Kristskirkju á útsýnishæð ofan við borgina, þar sem tívolígarður er staðsettur rétt hjá. Í sömu ferð fórum við í Völundarhúsgarðinn sem einhver fv. konungshjón Spánar létu búa til fyrir óralöngu. Hann er mjög fallegur og sérstakur, þó okkur gæfist lítill tími til að skoða hann, auk þess sem við vorum þarna á röngum árstíma. En lestin sem átti að flytja okkur þangað stöðvaðist á miðri leið og tók að bakka til baka, svo allir flýttu sér út á næstu stoppistöð. Skýringin mun vera viðgerðavinna sem oft er stundum á sunnudögum og tefur það oft samgöngur borgarbúa sem sætta sig ótrúlega við óvæntar uppákomur sem valda óþægindum.
Að lokum héldu allir heim með kúfaðar ferðatöskur og þreyttir eftir daglangt röltið á hörðum götunum. Ekki veit ég annað en allir hafir verið ánægðir með ferðina þó býsna væri svalt úti flesta dagana og vil ég þakka samferðafólkinu öllu fyrir samveruna og samfylgdina í þessari ágætu ferð.
Subscribe to:
Posts (Atom)