Thursday, February 05, 2009
Fundahöld og spurningakeppni
Sumir virðast halda að það sé daufleg vist í litlu "krumma skuðunum" víða í dreifbýli landsins. En mín reynsla er sú að hér á Seyðisfirði og annars staðar þar sem ég þekki til, er svo mikið um að vera, allan ársins hring, að fólk almennt er meira og minna að taka þátt í bæjarmálum eða áhugamálum og hafa flestir meira en nóg að gera á þeim vettvangi. Ég leyfi mér að efast um að fólk í stærri bæjum landsins séu jafn virkir í félagslífinu og fólk hér í dreifbýlinu.
Þorrablótið er nýafstaðið og nefndin sem sá um það hafði í nógu að snúast í vetur. Margir eru duglegir að nota íþróttahúsið og sundlaugina og svo eru allir þeir sem eru í hinum og þessum félögum, nefndum og ráðum að viðbættum kórum og öðrum sjálfboðaliðastörfum.
Nýlega var haldinn borgarafundur sem samþykkti tillögu til Póststjórnar landsins til að mótmæla lokun pósthússins hér. Við vonum að það beri einhvern árangur. Og síðast liðinn þriðjudag var haldinn annar fjölmennur borgarafundur áhugafólks um bættar samgöngur við Seyðisfjörð (með stjórn gönguklúbbsins í forsæti) þar sem ákveðið var að ganga reglulega yfir Fjarðarheiði á öllum árstímum til að minna á að við búum við hæsta og versta fjallveg sem nokkrir íbúar landsins þurfa að fara um til að komast til annarra byggðalaga. Þessar göngur eiga að þrýsta á stjórnvöld að taka ákvarðanir í sambandi við jarðgöng sem eru okkur algjör nauðsyn, ef mannlíf á að geta þrifist hér áfram, því samgöngur vegna ferjunnar Norrænu til bæjarins og allra þeirra ferðamanna sem með henni koma árlega, verða hreinlega að batna til muna, því það er ekki vegagerðinni eða stjórnvöldum að þakka að ekki hafa orðið meiri og verri slys á heiðinni en raun ber vitni. Hún er svo hættulega glæfraleg að jafnvel mörgum heimamönnum þykir erfitt að aka hana að vetrarlagi og er ég í þeim hópi, því hálka í brekkunum er það sem mér er verst við af öllu í umferðinni.
Sagðar voru ófagrar sögur af óhöppum sjúkraflutningamanna og annarra sem um heiðina hafa farið og vantaði þó flutningabílstjóra í hópinn sem margir hverjir hafa ófagrar sögur að segja af ferðum þeirra hér yfir.
Ég hef hugsað mér að ganga með hópnum yfir heiðina í vor eða sumar, jafnvel þó það kosti mig nokkurra daga harðsperrur.
Svo er árleg spurningakeppni grunnskólanna hafin og fyrstu 2 kvöldin afstaðin.
Rúnar minn keppti með Gullbergsliðinu í gærkvöld og þeir báru sigur úr bítum gegn mótherjunum. En eftir eru úrslitakeppnirnar næstu 2 vikur og óvíst hvernig fer, þó Gullversmenn hafi oftar en ekki hrósað happi og orðið nr. 1.
En hvort að Rúnar kemur til með að keppa áfram með liðinu er óvíst, því hann hljóp í skarðið fyrir veikan keppanda, því það eru svo margir vel lesnir og klárir náungar um borð að þeir gætu hæglega verið með 2 topplið í keppninni (að mínum dómi).
Það skiptir auðvitað engu máli hver vinnur, aðalatriðið er að hafa gaman af þessu og að 9. bekkur sem sér um keppnina ár hvert fái farareyrir í útskrifarferðina sem þeir eru að safna fyrir.
Að lokum er það svo sólin sem farin er að skríða niður undir bæ og styttist óðum í að hún uppljómi allan bæinn eins og á meðfylgjandi mynd. Þá verður nú glatt á hjalla og allir drekka sólarkaffi með pönnukökum, sem er árviss viðburður hér í bæ.
Segið svo að það gerist aldrei neitt á "krummaskuðinu" Seyðisfirði...!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Við þekkjum það þú og ég af fenginni reynslu að það er líflegt á "krummaskuðum". Til lukku með klára kallinn þinn og félaga. Kveðja austur
Post a Comment