Monday, July 13, 2009

LungA - frí og ferðafólk...




Það er nú meira hvað tíminn flýgur, strax kominn 13. júlí (afmælisdagur mömmu) en þá byrja hundadagar og sagan segir að þá breytist veðrið gjarnan. Spáin var ekki heldur góð fyrir daginn í dag, samt var fínasta veður, þó ekki væri beint hlýtt miðað við undanfarna viku sem var óvenju hlý.
Í kvöld var verið að setja LungA = listahátíð ungs fólks á Austurlandi í 10. sinn og synir mínir voru að sjálfsögðu mættir á svæðið ásamt miklum fjölda fólks sem fyllti bíósalinn í Herðubreið fyrir stundu. Það besta sem þeir fá að borða er kjötsúpa, svo ég tók mig til og sauð stóran fullan pott og bauð Binnu, Magga og börnum að borða með okkur, því þau langaði líka í kjötsúpu :o) síðan fengum við að sjá myndasýningu hjá Stefaníu sem er nýkomin úr fróðlegri ferð um Perú, þar sem hún var m.a. að heimsækja Eygló Rut frænku sína og skoða helstu ferðamannastaðina eins og Machu Pichu og Lake Titicaka auk borganna Lima og Cusco.
Það var líka ótrúlegur fjöldi ferðafólks hér í bænum í dag, enda tvö skemmtiferðaskip stödd hér. Nokkrar rútur fóru með hluta farþeganna upp á Hérað og víðar á meðan aðrir spókuðu sig hér í blíðunni og skoðuðu bæinn og nágrenni.
En sjálf reyni ég að nota tímann vel, því ég sat og prjónaði hosur (inniskó) handa dóttur minni, og hef líka setið við að hekla teppi sem hefur verið í hönnun í 2 ár....og lét sólina verma mig og lita sæmilega sólbrúna ....
Já tíminn er fljótur að líða og nú stendur fyrir dyrum ættarmót hér hjá okkur um helgina, því Bóndastaðaliðið ætlar að mæta á svæðið og þá er eins gott að hafa nóg til að borða svo enginn verði svangur :o)
Sumarið verður greinilega liðið áður en ég veit af, það er nú þegar hálfnað og ég að byrja í sumarfríi í dag og Rúnar væntanlega í kvöld þegar hann losnar við Gullver á sjóinn. Vonandi verða bara veðurguðirnir okkur hliðhollari en veðurfræðingarnir sem spá ekki góðu veðri fyrir næstu daga....

1 comment:

Asdís Sig. said...

Sæl og blessuð. Aldeilis nóg um að vera hjá þér og þínum. Kær kveðja í austrið ljúfa og ég vona að veðurguðirnir verði ykkur hliðhollir. Hér er yndislegt veður og gott að vera komin heim. Ásdís