Thursday, August 26, 2010
Ömmuskottið komið heim !
Það leið aðeins rúmur sólarhringur frá því að litla ömmuskottið fæddist og þar til hún var komin heim. Fyrsta nóttin var líka róleg og Jóhanna gat hvílst eins og hún þurfti. Adam hefur sofið hjá ömmu flestar næturnar sem ég hef verið hér.
Það eina sem vantar eru faðirinn Mo sem ekki gat stoppað nógu lengi heima vegna seinkunnar á fæðingunni, þar sem hann er bundinn í vinnu úti í Hamar í Noregi og svo afi Rúnar sem var úti á sjó, en hann er reyndar væntanlegur í dag til okkar og við bíðum spennt komu hans og Sigga og Bergþórs að auki í kvöldmat :)
Biðin langa loksins á enda ......
Föstudaginn 13. ágúst mætti ég til Keflavíkur til að vera hjá Jóhönnu minni þegar hún ætti væntanlega dóttur sem skráð var til fæðingar 15. ág. En sú stutta lét heldur betur bíða eftir sér, því 5. afmælisdagur Adams stórabróður leið (þann 21.ág ) án þess að nokkuð gerðist. Samt höfðum við alla vikuna verið eitthvað að brasa, þrífa, þvo og tína ber, auk þess sem við fórum í marga göngutúra og vonuðum alltaf að sú stutta færi nú af stað ef við værum nógu duglegar að hreyfa okkur.
En það var ekki fyrr en aðfaranótt 24. ág. sem vonir vöknuðu um að nú væri stutt eftir og það passaði, því ég rétt gat komið Adam á leikskólann kl. 8 og mætt upp á spítala, þá hófst lokaspretturinn og litla daman var fædd kl. 9:17 í stóru baði og gekk bæði fljótt og vel. Stóri bróðir var svo sóttur eftir hádegið og fékk að koma í heimsókn. Öll aðstaða til fyrirmyndir hér á fæðingardeildinni, auk þess sem ljósmóðirin var einstaklega yndæl. Mikið vorum við öll glöð í lok þessa dags !
Wednesday, August 04, 2010
Verslunarmannahelgin 2010
Verslunarmanna- helgin var róleg í kringum okkur þetta árið. Rúnar var upptekinn allan laugardaginn með Sigga Birkir og vinum hans í steggjagleði Árna Geirs sem er að fara að gifta sig n.k. fimmtudag. Þeir sigldu út í Skálanes og eyddu þar hálfum deginum í gufubaði, heitum potti og við át á góðum mat.
En á sunnudagsmorgun drifum við Rúnar okkur með Adam á húsbílnum upp að Kárahnjúkum og skoðuðum 2 af stíflunum þar og vorum svo heppin að fá sól og blíðu allan tímann. En við héldum síðan í Atlavík og grilluðum þar kjúkling og tíndum nokkra lerkisveppi sem við borðuðum með. Við vorum við hliðina á Bóbó og Önnu og samferðafólki þeirra og spjölluðum frameftir kvöldi. Hittum líka Simma Svavars o.fl. og fegnum okkur göngutúr um Vigdísarlund.
En morguninn eftir drifum við okkur í sund í glampandi sól og vorum orðin svöng þegar við komum í Egilsstaði og fengum okkur þar að borða. Fórum síðan að leita að lerkisveppum og tíndum svolítið (lítið úrval enn sem komið er) og fórum heim til að steikja þá með kvöldmatnum (marineruðu hrefnukjöti) sem við keyptum í KHB.
Þetta var góð tilbreyting frá þokunni og súldinni hér á Seyðis, en það er eins og sólin eigi mjög erfitt með að komast hingað niður til okkar þriðja sumarið í röð.
Adam naut þess að vera óvenju frjáls þessa daga og raunar er hann mjög frjáls hér líka, því hann fær að gera flest sem hann langar til og þvælast með okkur "afa" við okkar störf úti og inni og virðist hafa bæði gagn og gaman af því....
Subscribe to:
Posts (Atom)