Wednesday, May 25, 2011
Mörg Maí-börn í fjölskyldunni :)
Það eru óvenju margir í fjölskyldu minni sem eiga afmæli í maí. Þau sem næst mér standa eru synir mínir Siggi Birkir sem á afmæli 4. maí og Bergþór sem á afmæli 22. maí. Svo er það Mo tengdasonur sem fæddist 1. maí og tengdadóttirin Hildur kærasta Bergþórs sem á afmæli 21. maí og loks pabbi sem átti afmæli 24. maí. Af því tilefni set ég hér myndir af þeim, önnur tekin af Sigga, Bergþóri og Hildi í heimsókn hjá okkur um áramótin s.l.(það vantaði bara Mo) og hinsvegar er mynd af pabba að sinna uppáhalds áhugamáli sínu, fuglaskoðun, en hér er hann við álftamælingara og merkingar við Skjálftavatn í Kelduhverfi ásamt fuglafræðing sem mætti árlega til að sinna þessu. Ég gæti talið upp nokkuð marga aðra ættingja okkar Rúnars sem eru maíbörn, en læt þetta nægja að sinni ...
Saturday, May 21, 2011
Vortónleikar kirkjukórsins
Fimmtudagskvöldið 19. maí hélt Kirkjukór Seyðisfjarðar vortónleika sína, en við sem erum í kórnum höfum verið að æfa 18 lög síðan í vetur. Dagskráin gekk bara ljómandi vel, þó ég segi sjálf frá. Lögin runnu létt í gegn, betur en yirleitt á æfingum og ég vona að allir hafi verið sáttir og fékk ekki að heyra neitt annað :)
Tuesday, May 17, 2011
Kvöldganga meðfram Fjarðará !
Kvö
Í gærkvöld fórum við Rúnar í 2ja tíma göngutúr í blíðunni meðfram Fjarðará. Við gengum inn með ánni og yfir brúna í Fjarðarseli og til baka eftir veginum að miklu leyti.
En þegar við gengum upp með ánni á móts við golfvöllinn, þá gengum við sífellt fram á fleiri golfkúlur sem við hirtum, ásamt rusli sem varð á vegi okkar og skildum allt eftir hjá Golfskálanum á heimleiðinni. Við gengum líka fram á silung í læk og nokkur gæsahreiður, þar af eitt með golfkúlu á milli gæsareggjanna eins og myndin sýnir. Það er ekki gott að giska á hvort einhver gamansamur hefur átt þarna leið um á undan okkur og sett kúluna í hreiðrið, eða hvort gæsin hefur litið á nærstadda kúlu sem egg og bætt henni í hreiðrið ??? Allavega var þetta óvæntur fundur og skemmtilegur :)
Svona var veðrið á fjöllunum....
Hér má sjá hvernig veðrið var á heimleiðinni uppi á fjöllunum á sunnudagskvöld, skammt frá Möðrudal, Víðidal og Langadal. Fyrst fengum við á okkur haglél í Mývatnssveit en síðan skýjað og regn langleiðina að vegskarðinu við Möðrudal, en þaðan var meira og minna slydda og hríð og grátt í rót og hvít jörð niður undir Jökuldal. Og síðast en ekki síst var svo dimm þoka á Fjarðarheiði, en annars meinlaust veður. Vonandi fer ekki veturinn að birtast á ný, nú þegar vorið er komið og allur gróður útsprunginn og margir fuglar búnir að verpa...
Góð Eurovisionhelgi á Húsavík !
Við Rúnar brugðum okkur norður s.l. föstudagskvöld og ætlunin var að setja niður kartöflur ef búið væri að herfa gamla garðinn hans pabba. En hann var ennþá svo blautur að við urðum að geyma kartöfluvinnuna. Við heimsóttum mömmu og fórum með hana hefðbundinn rúnt um bæinn og nágrennið og heim í kaffi eins og venjulega. En um kvöldið vorum við boðin í grillveislu til Villu vinkonu og Fúsa og áttum þar yndislegar samverustundir eins og alltaf þegar við hittumst. Villa er líka alltaf jafn rausnarleg og sendi mömmu blómvönd úr Blómabrekkunni og eftir matinn horfðum við saman á lokakeppni Eurovision-söngvakeppninnar, þar sem Vinir Sjonna stóðu sig vel og lentu í 20. sæti. Á sunnudaginn skruppum við í klukkutíma fjöruferð með hópi fuglaskoðara og sáum ýmsar tegundir fugla, m.a. rauðbrystinga, sanderlur og tildrur. Veðrið var ósköp gott, ekki síst á sunnudaginn og við kvöddum bæinn síðdegis í sól og blíðu, en lentum í haglél, slyddu og þoku á heimleiðinni...
Subscribe to:
Posts (Atom)