Tuesday, May 17, 2011

Góð Eurovisionhelgi á Húsavík !




Við Rúnar brugðum okkur norður s.l. föstudagskvöld og ætlunin var að setja niður kartöflur ef búið væri að herfa gamla garðinn hans pabba. En hann var ennþá svo blautur að við urðum að geyma kartöfluvinnuna. Við heimsóttum mömmu og fórum með hana hefðbundinn rúnt um bæinn og nágrennið og heim í kaffi eins og venjulega. En um kvöldið vorum við boðin í grillveislu til Villu vinkonu og Fúsa og áttum þar yndislegar samverustundir eins og alltaf þegar við hittumst. Villa er líka alltaf jafn rausnarleg og sendi mömmu blómvönd úr Blómabrekkunni og eftir matinn horfðum við saman á lokakeppni Eurovision-söngvakeppninnar, þar sem Vinir Sjonna stóðu sig vel og lentu í 20. sæti. Á sunnudaginn skruppum við í klukkutíma fjöruferð með hópi fuglaskoðara og sáum ýmsar tegundir fugla, m.a. rauðbrystinga, sanderlur og tildrur. Veðrið var ósköp gott, ekki síst á sunnudaginn og við kvöddum bæinn síðdegis í sól og blíðu, en lentum í haglél, slyddu og þoku á heimleiðinni...

No comments: