Tuesday, July 19, 2011

L.ung.A 2011






Hin árlega vika Listahátíðar ungs fólks á Austurlandi er nú nýafstaðin og tókst vel að vanda, með góðri aðstoð bæjarbúa við tiltekt og eftirlit. Veðrið lék við þátttakendur fyrri hluta vikunnar með sól og hlýju á hverjum degi, svo allir gátu spókað sig í blíðunni utandyra við vinnuna og listsköpunina sem var fjölbreytt að vanda. Það voru víst um 100 þátttakendur í listasmiðjunum sem voru nokkuð margar víða um bæinn.
Ég missti af tískusýningunni í þetta sinn vegna skorts á auglýsingu, en fór á flestar sýningar og aðrar uppákomur sem voru á laugardeginum og tók myndir. Nokkur sýnishorn fá að fljóta hér með, m.a. af minningarkrossum Jökuls sem voru í minningu íbúanna 24 sem fórust í snjóflóði á Seyðisfirði á Öskudag 1885.
Tónleikarnir og lokaballið fóru víst vel fram, ég bara rétt kíkti smá stund til að taka myndir en frétti að allt hefði gengið vel og bærinn var hreinn og snyrtilegur strax á sunnudeginum þegar ég ók um hann. Það er ekki hægt að neita því að þetta unga fólk og áhugamál þess setja mikinn svip á bæinn okkar þessa einu viku á ári og reyndar nokkuð lengi á eftir, því mörg verkanna eins og vegglistaverkin standa áfram og vekja vonandi athygli gesta og gangandi....
Á Facebook má sjá fleiri myndir af sýningum og atburðum LungA :)

Góðir gestir !






Helgina 8.-10. júlí mættu öll systkini Rúnars til okkar og héldum við smá ættarmót og buðum öðrum ættmennum á Seyðisfirði í grillveislu sem tókst ljómandi vel. Farið var í leiki og allir í góðu stuði fram eftir laugardagskvöldinu. En Þröstur bróðir Rúnars kom með fjölskylduna frá Noregi og stoppaði aðeins lengur en aðrir og Eiríkur systursonur hans kom líka með sína fjölskyldu og 4ra manna danska vinafjölskyldu að auki og dvaldi í 2 daga í húsinu hans Reynis bónda, Garðarsvegi 24, en þau urðu svo að fara af stað heim á leið áður en að systkinahelginni kom. Það var gaman að hitta þau öll og veðrið hefði líka getað verið verra, þó ekki vildi sólin skína fyrr en á sunnudeginum þegar allir voru á heimleið.
Ég set myndir hér með við fyrsta tækifæri :)

Monday, July 04, 2011

Sólrík helgi fyrir norðan !







Við Rúnar renndum norður á Húsavík eftir hádegið s.l. fimmtudag í sól og blíðu alla leið, því þennan morgun vöknuðum við í sólskini í fyrsta sinn í langan tíma. Við komum reyndar við í Mývatnssveit hjá einni skólasystur minni sem rekur þar gistiþjónustuna Lúdent á sumrin og fengum hlýjar móttökur hjá þeim hjónum að vanda. Við heilsuðum uppá mömmu og nokkra fleiri ættingja og vini þegar við komum til Húsavíkur en á föstudagsmorgni fórum við til Akureyrar því ég þurfti til augnlæknis. Fékk svör þó engin bót fáist af mannavöldum. Við notuðum tækifærið og sinntum ýmsum öðrum erindum í leiðinni, því svo margt fæst þar sem ekki er hægt að fá hér eystra. Á heimleiðinni kíktum við á 2 kirkjur sem við höfum aldrei skoðað, en það eru gamla Ljósavatnskirkjan og nýja vegakirkjan sem nefnd er Þorgeirskirkja til heiðurs Þorgeiri ljósvetningagoða sem þarna bjó forðum. Við heimkomuna klæddum við okkur uppá og fórum út að borða með Sigrúnu vinkonu sem þarf svo sannarlega á upplyftingu að halda eftir að missa Hauk alltof fljótt. Við hittum ýmsa ættingja og vini og áttum gott kvöld á veitingahúsinu Naustið sem þær Anna Ragnars og Ella Kristjáns reka, en þær voru reyndar ekki við þetta kvöld. Laugardeginum eyddum við bæði hjá mömmu og við tiltekt í kringum húsið, slógum lóðina og sáðum fræjum í moldarsárin við næsta hús.
Veðrið var einstaklega gott og yfir 20 stiga hiti, en mývargurinn var duglegur að bíta mig, en einhverra hluta vegna slapp Rúnar í þetta sinn. Húsavíkurfjall er orðið svo grænt að lítið vantar á að það sé alþakið lúpínu, sem byrjuð var að blána... Sunnudagsmorgninum eyddum við hjá Önnu Maju og Sigga í góðu yfirlæti og hún sendi mig af stað með forláta sjal eða hálstrefil sem hún var búin að prjóna. Við kvöddum svo alla og héldum austur í góðu veðri, en komum í þoku og súld hér eystra, enda veður helgarinnar ekki eins gott hér eins og fyrir norðan.

Í minningu Palla Jóns !




Árlegt sumarblót var haldið út við bjarg hjá Skálanesi síðustu helgina í júní. Þangað mættu um 60 manns og hlýddu á Baldur goða og aðra viðstadda hylla móður jörð, Seyðisfjörð og Skálnes. Býsna margir erlendir gestir voru viðstaddir og virtust hafa gaman af, þó vafalítið hafi þeir ekki skilið það sem sagt var á íslensku.
Síðan var gengið til baka í Skálanes, þar sem flestir grilluðu sinn eigin mat eða snæddu heilgrillað lamb sem var í boði fyrir gestina. Að því loknu hóf Bjartmar Guðlaugsson að skemmta viðstöddum með söng og gríni i minningu Palla Jóns sem átti mörg spor og handtök á þessum slóðum. Að lokum slógu viðstaddir í púkk og fylltu krús af peningum sem Rúnar Reynisson gjaldkeri hollvinasamtaka HSA á Seyðisfirði tók við fyrir hönd sjóðsins, sem styður við sjúkrahúsið eins og það best má. Skemmtilegur og eftirminnilegur dagur sem við hefðum ekki viljað missa af...

Jónsmessugangan 2011




Ég hef farið í nokkrar Jónsmessugöngur undanfarin ár og þar sem Rúnar var heima að þessu sinni og Siggi Birkir líka, þá dreif ég þá feðga með mér. Við ókum út að Selstöðum ásamt 30 öðrum göngugörpum sem við urðum samferða út að Brimnesvita. Veðrið var ósköp gott, logn og þurrt og nógu hlýtt, til að engum var kalt.
Nesti var svo snætt við vitann og Daði Kristjáns fræddi nærstadda um ýmislegt sem gerst hafði á þessum slóðum. Við gengum síðan að gömlum húsgrunni, en þar stóð forðum eitt fyrsta frystihús hér á landi.
Að lokum skoðuðu flestir gamla bæinn á Selstöðum, en þangað höfðum við aldrei komið... Þetta var hressandi ganga með góðum hópi :)