Monday, September 03, 2012

Berjatínsla og haustverkin í garðinum !




Þegar haustar þá fer maður af gömlum vana að undirbúa veturinn, m.a. með því að taka inn allann þann jarðargróður sem í boði er. Ég fór að sulta rabbarbara og tína svo ber, en lengi vel leit ekki vel út með berjasprettu vegna of mikilla þurrka, en það rættist úr því á haustdögum og ég fann heilmikið af góðum bláberjum og er búin að sulta þau og safna góðum forða í frost. Einnig tíndum við í fyrsta sinn nokkur kíló af hrútaberjum og fengum úr þeim dýrindis sultu sem notuð verður um jólin :)
Engin finnast krækiberin að þessu sinni, svo ég dreif í að búa til saft úr rifsberjum og líka hlaup og fór svo að tína blóðberg til að krydda lambakjötið í vetur og þurrkaði skessujurtina í sama tilgangi, en hún er alveg ómissandi á steikurnar og sérstaklega í kjötsúpuna. Loks hef ég verið að taka upp gulrætur, en brá í brún þegar ég sá sumar þeirra sem voru  hressilega vanskapaðar, en samt heilbrigðar og góðar á bragðið. Þrátt fyrir að hafa verið að búa til nýtt beð fyrir þær í vor, þá virðist mér hafa mistekist að stinga það upp, hef greinilega ekki vandað mig nóg vel fyrst að einhver fyrirstaða hefur valdið þessum furðuvexti, svo gulræturnar líta út eins og stafir og í þessu tilfelli fannst mér þær mynda orðið JUL eða JÓL og fannst það bara fyndið :)

No comments: