Hér er úrdráttur úr grein sem Helgi Hallgrímsson tók saman um Þóru Margréti Sigurðardóttur sem dvaldi um árabil á Seyðisfirði. Sjá slóðina; http://www.marvidar.com/helgi_hallgrimsson/
Á Seyðisfirði
Á Seyðisfirði
Elliheimilið Höfn á Seyðisfirði.
Myndin er fengin úr bók Þóru Guðmundsdóttur; Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar,
bls. 68 20). Hún er tekin um 1940. Til er mynd af heimilinu sem
Þóra sendi sem póstkort. Aftaná þá
mynd skrifaði Þóra: “Þettað er norður stafninn á
Elliheimilinu Höfn svo þú þekkir
það þegar þú kemur. Hér er samt engin drift og mjög óbjargvænlegt nema fiskur
eða síld komi og vegur yfir Fjarðarheiði. T.S.”
Árið 1928 eða 1929 10) tók Þóra við starfi
ráðskonu Elliheimilisins Hafnar á
Seyðisfirði sem þá var nýlega stofnað af Kvenfélaginu Kvikk, og gegndi því
starfi til 1942. Jóhann Skaptason ritar: „Þar var líka oft tekið við gestum til
gistingar. Elliheimilið var rekið af vanefnum og starfslið því í lágmarki,
oftast aðeins ein vinnukona með forstöðukonunni. Flest gamalmennin voru
rúmliggjandi kararaumingjar. Ráðskonan varð því jafnframt að vera hjúkrunarkona
og vinna ca. 14 stundir eða lengur sérhvern dag, fyrir litla þóknum. Hún
afkastaði þar því tveggja til þriggja manna starfi, miðað við nútímakröfur.“ 4)
Allmörg bréf eru til frá Þóru á
þessum tíma (1931-1941), flest til Halldóru og Auðar Víðis, en fáein til
Vigfúsar Sigurðssonar frá Egilsstöðum í Fljótsdal. Handskrift Þóru fór hrakandi
á þessum árum og eru sum þeirra því torlæsileg. Í bréfi til Vigfúsar 4. des.
1931 ritar Þóra:
Okkur líður
hér allvel á Elliheimilinu; nú er bæði búið að járnslá allt húsið og kítta og
mála glugga, og það sem mest er út í varið, nú er búið að setja miðstöð í húsið
og bregður manni mikið við það, blessuð hlýindin alstaðar. Æði mikið held ég
hún eyði, og koxið er dýrt, en sá verkamunur er ekki sambærilegur; líka fengum
við bað hér, og heitt og kalt vatn. Nú hefði verið gott að hafa fullt hús, en
nú eru ekki nema 7 með okkur.
Rekstur elliheimilisins virðist
samt hafa gengið böksuglega og víkur Þóra oft að því í bréfunum. Í bréfi til
Vigfúsar, dags. 10. des. 1932, ritar hún:
Alt virðist
standa fast, minsta kosti gengur ekki sem best að fá borgað hér fyrir
gamalmennin, og þar af leiðir að þær [þ.e. kvenfélagskonurnar] geta ekki borgað
starfsfólkinu eða sínum skuldu-nautum. Stundum tala þær um að hætta, en líklega
verður það ekki í vetur.
Til er “Erindisbréf handa frk.
Þóru Sigurðardóttur, til þess að vera ráðskona elliheimilisins Höfn í
Seyðisfjarðarkaupstað”, dagsett 17. febr. 1933. Virðist þá sem um endurráðningu
sé að ræða. Þar segir m.a.: „Allan daglegan rekstur heimilisins ber yður að
annast, þar með talin umsjón, hjúkrun og þjónusta gamalmenna þeirra og
sjúklinga er á heimilinu kunna að dvelja um lengri eða skemmri tíma. Skal og
stjórnin láta yður í té nauðsynlega aðstoð í því skyni. Stjórnin sjer um kaup á
haustmat og kolum til heimilisins, en þjer annist kaup á matvöru til daglegra
þarfa, og skal aðeins keypt á þeim stöðum er stjórnin vísar til ... Ennfremur
skuluð þjer innheimta og standa fjelaginu skil á borgun fyrir greiðasölu á
heimilinu, enda setji stjórnin ákveðinn taxta fyrir slíka greiðasölu.
Önnur mynd af Elliheimilinu á
Seyðisfirði, einnig úr bók Þóru Guðmundsdóttur. 20)
Hún sýnir Austurveg og er tekin um
1930. Hótelið er í forgrunni, þá Nýlenda (að
mestu á bak við hótelið), Ós (á bak
við símastaur), Steinholt (í fjarska) og Elliheimilið.
Kaupið var 600 kr. á ári og frítt
fæði, húsnæði (sérherbergi), ljós og hitun. Í bréfi til Halldóru 11. okt. 1939,
ritar Þóra m.a.:
Líklega held
eg áfram hér í vetur, því það bætist einn við sem er heilbrigður og getur
borgað sjálfur. Þá eru [hér] þrír karlmenn og þrjár konur, og við tvær, stúlkan
og eg. Það verða 8. Svo er alltaf einhver slæðingur af sjúku fólki, sem ætlar í
nudd eða á spítalann, og gistir svo hér leingri eða skemmri tíma.
Áður voru rakin ummæli Þóru um
heimsmálin og vitfirringu fyrri heimsstyrjaldar. Þegar síðari heimsstyrjöldin
stendur fyrir dyrum lætur Þóra stundum í ljós álit sitt í bréfum. Í sama bréfi
ritar hún:
Hvað finst þér
um þessa nýju styrjöld? Alveg er heimurinn genginn af göflunum, eða öllu heldur
mannfólkið. ... Lítið hafa menn lært á stríðinu sem síðast geysaði; mannfólkinu
fjölgar svo hratt. Menn kunna svo engin ráð nema senda ungdóminn hvern á móti öðrum
til manndrápa. Skyldu menn aldrei læra að græða upp eyðimerkurnar og lifa
sparneytnara, eins og t.d. Japanar?
Í öðru bréfi til Halldóru, 27.
ágúst 1939, lýsir hún því með dramatískum orðum hvernig gulir og svartir menn
muni leggja undir sig Evrópu þegar hún liggi flakandi í sárum eftir
styrjöldina:
Hvað verður þá
haft upp úr stríðinu; allir verða fátækari, menningin svokallaða töpuð,
ægilegt, ægilegt, það verður réttkallað Ragnarökkur.
Eins og stundum áður var
heilsufar Þóru ekki upp á það besta. Í bréfi til Auðar frá 4. apríl 1939 segir
hún:
Eg hef verið
mjög lasin lengi, nú geng eg í nudd; eg var svo óttalega þreytt af vökum yfir
sjúkum að eg gat seinast ekki sofnað án þess að taka meðul; þá var eg að
skálda. Við höfum stuttan sólargang hér fram í mars, en nú er hann orðinn
langur, en þokan byrgir hana sjónum vorum mestan hluta daganna, og oft marga
daga í senn. Ljósin deyja oft í öllum bænum þegar frost kemur í ristarnar, þá
þarf að koma með kerti og olíulampa í staðinn, á meðan verið er að laga það;
það kom æði oft fyrir í vetur.
Samt átti Þóra enn sínar góðu
stundir. Sumarið 1938 fékk hún heimsókn af frænda sínum, Guttormi J.
Guttormsson skáldi frá Kanada, sem var boðið til landsins þetta sumar og
ferðaðist m.a. um Austur- og Norðurland. Bergljót segir í bréfi að honum hafi
þótt gaman að hitta Þóru. Í bréfi til Halldóru 27. ágúst 1939 segir Þóra frá
ferð upp í Fljótsdal á jarðarför Þórarins Þórarinssonar prests á Valþjófsstað,
en þau voru þremenningar frá Jóni vefara. Hún hrífst af fegurð æskudalsins og
kemst á skáldlegt flug:
Þá var nú veðrið svo yndislegt; aldrei hefi eg séð dalinn jafn fagran. - Hlæjandi fossar, lækir og ár, brosandi hlíðar, himinninn blár. Skógurinn eykst í skjóli við fjall, skrúðgrænir akrar, á tindunum mjöll, fólkið í farsæld þar unir. - Eg kom við á Arnheiðarstöðum og Geitagerði og snöggvast á Ási. Guðríður á litla telpu, sem séra Jakob Einarsson skírði Droplaugu. Magga Nanna kom með okkur út að túngarðinum. Laufey Ólafsdóttir á tvo drengi, Helga og Ólaf Þór, efnilega stráka. Hallgrímur í Holti á Braga og Lilju.
Á 73 ára afmælisdegi sínum, 10. maí 1942, fékk Þóra þakkarbréf og peningagjöf frá Kvenfélaginu Kvik. Það skal tekið fram að ekki var hægt að afrita myndirnar með textanum. Ég set þetta hér aðeins til minnis og fróðleiks ef einhver skyldi líta hér inn :)
No comments:
Post a Comment