Friday, September 20, 2024

Smá göngutúrar og fleira hér innan fjarðar !

 Við höfum ekki verið dugleg við göngutúra nema þegar veður hefur verið hlýtt og gott. Fórum m.a. upp á Bjólf að skoða nýja útsýnis-pallinn sem verið er að steypa þar uppi, en þar var svo hvasst að ég var hrædd um að fjúka framaf, ef ég vogaði mér að taka myndir yfir bæinn...

Gengum svo í góðu veðri upp í Botna og sáum að Botnatjörnin var alveg þurr !  Fórum svo nýja leið sem var ansi strembin á köflum, brattar og vondar brekkur, en sáum þar skemmtilega konumynd í Búðaránni sem rennur ofan úr efri botnum. 

Við fórum líka upp á Vestdal og gengum upp fyrir fossinn og þá blasti við  mér RISA andlit sem ég hef ekki tekið eftir þar áður :) 












Fyrstu frostnæturnar og uppskeran !

 Eftir að 2 frostnætur  um miðjan sept. felldi kartöflugrösin, þá drifum við í því að taka upp allar kartöflurnar og reyndust þær fleiri og meiri en ég bjóst við eftir svona sólarlaust + kalt sumar.

En varðandi gulræturnar, þá eru þær misstórar að vanda og þær þola alveg nokkrar frostnætur, svo ég hef bara tekið upp rétt nóg í matinn hverju sinni og ætla að lofa þeim að vera áfram undir dúk, þar til fer að snjóa, þær eru ferskastar og bestar þannig !

En varðandi annað grænmeti, þá hefur það gengið illa, grænkálið kom að vísu upp en vex lítið og salatið sem ég keypti forræktað er næstum uppétið, líklega af sniglum, þrátt fyrir að ég hafi sett heilan helling af kaffikorg kringum allar plönturnar og hefði átt að duga sem vörn gegn þeim :( 





Uppskerutíminn alltaf líflegur !

 Einn góðviðrisdaginn skruppum við í Hallormsstað og tíndum þar svolítið af Hrútaberjum og Hindberjum. Hrútaberin sauð ég í sultu en Hindberin fóru beint í frost í bili. En litlu villtu íslensku jarðarberin átum við jafnóðum eins og önnur jarðarber sem til féllu.

Það var líka allt fullt af góðum sveppum á tímabili, svo ég fór og tíndi slatta og steikti til að eiga í sósur og ýmsa rétti í vetur !