Tuesday, October 14, 2008
Enn ein norðurferð !
Föstudaginn 10. okt. s.l. ákváðum við Rúnar að skella okkur norður til Húsavíkur í heimsókn til mömmu sem var óvenju hress að þessu sinni. Við fórum eftir að ég hafði lokið vinnu dagsins og gekk ferðin vel, þó myrkur væri alla leiðina. Rúnar var búinn að setja nagladekkin undir, svo að smá hálka var ekki til vandræða. Didda systir kom líka norður með dóttur sinni og tengdasyni sem fer reglulega norður til að veiða gæsir og rjúpur og heimsækja fjölskyldu hans sem býr þar.
Við áttum þarna saman góða helgi og hittum marga ættingja og vini og lentum í veislu hjá vinkonu minni og nágrannakonu þar, en við áttum hjá henni nokkra glermuni sem voru í brennslu, því við systur bjuggum þá til á námskeiði hjá henni í okkar síðustu ferð norður.
Ég tók nokkrar myndir í haustblíðunni og læt sýnishorn fljóta hér með...
Að lokum vona ég að þetta hörmungarástand á fjármálasviðinu fari nú að lagast, svo hjól atvinnulífsins geti gengið eðlilega og mannlífið orðið þolanlegt á ný. Þessi mánuður verður vafalaust í minningunni nefndur "hinn ógurlegi október" eða eitthvað í þeim dúr.... en ekki hvað ?
Tuesday, October 07, 2008
Ljósmyndasamkeppi Haustroða
Á hverju hausti er efnt til hátíðahalda hér á Seyðisfirði og nefnist sú hátíð "Haustroði". Þar er m.a. keppt um bestu heimagerðu sultuna, fallegustu, stærstu og skrýtnustu jarðávextina og að þessu sinni var einnig ljósmyndasamkeppni, þema var; spaug, mannlíf og náttúra. Ég vissi fyrirfram að ég yrði ekki heima þessa helgi sem hátíðin var en vildi samt taka þátt og gerði viðeigandi ráðstafanir. Ég var búin að safna saman nokkrum sérstökum kartöflum sem ég tók upp í haust og lét ég Stefán Ómar fá þær og 2 skrítnar gulrætur fann ég líka í garðinum mínum og gaf henni Villu nágrannastelpu þær. Þau kepptu og fengu bæði verðlaun sem auðvitað gladdi mig.
Síðast en ekki síst, þá sendi ég inn nokkrar sumarmyndir í keppnina og vann verðlaun fyrir bestu myndina í flokknum um "Spaug" og meðfylgjandi er þessi mynd, þar sem Jói Sveinbjörns hafði stungið blómvendinum sem hann fékk í tilefni af gullbrúðkaupi þeirra Lillu, í hlaupið á fallbyssunni sem hann var nýbúinn að skjóta úr á 17. júní.
Verðlaunin voru ekki af verri endanum, semsagt Nóa konfektkassi og lítil stytta af Seyðisfjarðarskóla sem gaman er að eiga.... Ég get því vel við unað.. ekki satt ?
Frænkuhittingur og hæfileikakeppni
Helgina 3.-5.okt. er ég var fyrir sunnan í heimsóknum hjá börnum mínum, ættingjum og vinum, þá fór ég m.a. með Jóhönnu minni á hæfileikakeppi sem 13 Leikskólar á Suðurnesjum efndu til í Offiseraklúbbnum á Vellinum. Það var mjög fróðlegt að sjá ólíkar útgáfur á þemanu sem í ár fjallaði um tónlist í ýmsum útgáfum. Þarna komu fram útgáfur af Bítlunum, Abba og ýmsum frægum aðilum auk "68 tímabilsins og fleira.
Ég læt fljóta með eina mynd af Jóhönnu og hennar vinnufélögum sem voru með Country-þema og var hennar leikskóli, Akur, valinn til að sjá um keppnina næsta ár.
Ein af ástæðum mínum til suðurferðar var að hitta frænkur mínar í föðurætt. Við vorum búnar að ákveða að hittast ásamt dætrum okkar í þetta sinn, en í vor þegar við hittumst fyrst, þá vorum við bara einar á ferð og því ekki mjög margar, því alltaf eru einhverjar sem ekki geta mætt. Það er ótrúlega gaman að hittast svona og spjalla m.a. um sameiginlegan uppruna og kynnast afkomendum hver annarrar.
Við stefnum á að halda áfram þessum "kvennasamkomum" hvenær sem færi gefst.
Meðfylgjandi er ein mynd frá í vor og önnur mynd af þeim sem mættu fyrstar á Jómfrúna s.l. sunnudag.
Monday, October 06, 2008
Heimsókn í Tröllahelli
Heil og sæl ! Það er ekki á hverjum degi sem maður fer og heimsækir tröll, svo mikið er víst. En það gerði ég reyndar, óvænt, s.l. laugardag ásamt Jóhönnu dóttur minni og Adam ömmustráknum mínum. Þannig er mál með vexti að í Reykjanesbæ er búið að byggja "hús" utan yfir klettaskúta í klettanefinu við smábátahöfnina og til þess var notað stórgrýti og rekaviður. Þar býr núna ansi stór skessa sem andar þungt og hrýtur óskaplega, auk þess sem hún prumpar reglulega, svo að litli maðurinn Adam varð hálf smeykur við hávaðann í henni. En eftir að hafa skammað skessuna duglega fyrir að stela Búkollu frá Karlssyni, þá sættist hann á að prófa risastórt rekaviðar-rúm sem staðsett er inni í hellinum og skessunni er eignað. Fjöldi manns átti leið þarna um á sama tíma og við og greinilegt að fólk kann að meta þetta óvenjulega uppátæki. Það eina sem ég setti út á herlegheitin var að skessan sat í sólbaði innan við stóran glugga, en ég hélt að allar skessur yrðu að steinum ef sól skini á þær. Leiðréttið mig endilega ef þetta er ekki rétt... ;-)
Meðfylgjandi myndir eiga að styðja þessa frásögn aðeins nánar...
Subscribe to:
Posts (Atom)