Monday, October 06, 2008

Heimsókn í Tröllahelli





Heil og sæl ! Það er ekki á hverjum degi sem maður fer og heimsækir tröll, svo mikið er víst. En það gerði ég reyndar, óvænt, s.l. laugardag ásamt Jóhönnu dóttur minni og Adam ömmustráknum mínum. Þannig er mál með vexti að í Reykjanesbæ er búið að byggja "hús" utan yfir klettaskúta í klettanefinu við smábátahöfnina og til þess var notað stórgrýti og rekaviður. Þar býr núna ansi stór skessa sem andar þungt og hrýtur óskaplega, auk þess sem hún prumpar reglulega, svo að litli maðurinn Adam varð hálf smeykur við hávaðann í henni. En eftir að hafa skammað skessuna duglega fyrir að stela Búkollu frá Karlssyni, þá sættist hann á að prófa risastórt rekaviðar-rúm sem staðsett er inni í hellinum og skessunni er eignað. Fjöldi manns átti leið þarna um á sama tíma og við og greinilegt að fólk kann að meta þetta óvenjulega uppátæki. Það eina sem ég setti út á herlegheitin var að skessan sat í sólbaði innan við stóran glugga, en ég hélt að allar skessur yrðu að steinum ef sól skini á þær. Leiðréttið mig endilega ef þetta er ekki rétt... ;-)
Meðfylgjandi myndir eiga að styðja þessa frásögn aðeins nánar...

No comments: