Monday, February 02, 2009
Húsavík og Seyðisfjörður
Mikið skiptir það nú máli að fólk hafi vinnu, ekki bara til að fá laun til að hafa í sig og á, heldur ekki síður að hafa eitthvað fyrir stafni, því að verklausum manni hlýtur að leiðast til lengdar. Ég er t.d. hrædd um að hann Kalli vinur minn Svavarsson sem unnið hefur hátt í 40 ár hjá Póstinum, verði að finna sér tímafrekt áhugamál, ef svo illa fer að pósthúsinu verður lokað hér á Seyðisfirði, þann 1. apríl nk. eins og fyrirhugað er. Vonandi hefur þó ályktun fundar sem haldin var um málið, ásamt athugasemdum bæjarstjórnar til stjórnvalda eitthvað jákvætt að segja.
Nú eru uppsagnir vegna kreppuástandsins farnar að færast nær manni á ýmsum stöðum, þó maður voni í lengstu lög að úr rætist og ný störf finnist í stað þeirra sem tapast, því annars verður framtíðin erfið hjá mörgum. Siggi sonur okkar er í þeim hópi sem missti vinnuna nú um mánaðarmótin. Hann tekur því rólega í bili, enda ekki með neinar skuldir á bakinu og enga fjölskyldu til að sjá um, svo við höfum ekki miklar áhyggjur af honum að svo stöddu.
Við Rúnar skruppum norður í heimsókn til mömmu s.l. helgi og fréttum þá óvænt af uppsögn eins nágranna okkar og vinar þar, sem var þó svo heppinn að sjá auglýst starf sem hann gat sótt um og fær vonandi. Í hans tilfelli skiptir máli að hann hafi vinnu, því þau eru nýbúin að gera upp húsið sitt fyrir fleiri milljónir og standa því höllum fæti ef björginni er kippt undan afkomu þeirra til langframa. Við vitum að margir eru verr settir og gerum okkur grein fyrir að þeim getur ekki liðið vel.
Eina vonin er að nýju ríkisstjórninni takist að stöðva þessa óheillaþróun, svo hægt verði að fara að vinna að atvinnu-uppbyggingu um allt land til bjargar því sem hægt er að bjarga.
Með þessum hugleiðingum læt ég fljóta 3 myndir sem ég tók á Húsavík um helgina. Við komum þangað í hríðarkófi og allt umhverfið var þakið dúnmjúkri mjöll á laugardagskvöldið. En á sunnudeginum var sól og blíða, en mjög kalt, t.d. 19 gráðu frost í Víðidal á Fjöllum þegar við vorum á leiðinni austur síðdegis þann dag.
En bæði Húsavík og Seyðisfjörður hafa sinn sjarma, sama hvort það er sumar eða vetur og mér þykir vænt um báða þessa staði, enda eytt mest allri ævinni á þessum tveim stöðum og óska þeim og öllum íbúum bæjanna alls hins besta í framtíðinni...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Takk fyrir þessar fallegu myndir elsku Solla. Ég deili svon sannarlega áhyggjum þínum af ástandi þjóðar okkar. VOnum það besta og verum bjartsýnar, ekkert annað dugar víst. Kærleikskveðja austur.
Post a Comment