Wednesday, March 31, 2010
Myntsafnið í Seðlabankanum
Í áratug eða meira hefur mig langað að skreppa í Seðlabankann til að skoða Myntsafnið sem þar er til húsa. Það var ekki fyrr en s.l. laugardag (27/3)sem ég kom því í verk.
Við Rúnar vorum þá stödd niður í miðbæ í Rvk, ásamt Sigga Birki, þegar ég bað þá að koma með mér þangað. Þetta reyndist hin fróðlegasta skemmtun og satt að segja hef ég grun um að margir leiti langt yfir skammt eftir söfnum og sýningum og ættu að líta sér nær.
Þegar við fórum að ræða um þessa heimsókn við ættingja og vini, þá viðurkenndu allir að þeir hefðu bara ekki vitað um þetta safn eða aldrei pælt í að skoða það o.s.frv....
Ég skora því á fólk á höfuðborgarsvæðinu að láta ekki gott tækifæri úr hendi sleppa, ef þeir eru á ferð í nágrenni Arnarhóls. Það er meira að segja frítt inn og í kaupbæti má sjá stórt og mikið málverk eftir Gunnlaug Scheving auk nóbelsverðlauna Halldórs Laxness, svo eitthvað sé nefnt :)
Góða skemmtun !
Monday, March 29, 2010
Páskahretið !
Þegar við lentum á Egilsstaðaflugvelli í gær, þá tók á móti okkur óþægileg snjóbirta, enda glaða sól og fannhvít jörð. Það reyndist ekki mjög erfitt að komast yfir Fjarðarheiði, þó skyggnið væri ekki gott. Síðar um daginn fór að kafsnjóa eins og komin væri jólamánuður og fannst víst flestum nóg um.
En það sem sjá má á meðfylgjandi myndum var útlitið utandyra hjá okkur, þegar við komum á fætur í morgun. Allt fannbarið, jafnt hús, bílar og aðrir hlutir sem veðrið náði til. Þetta er sannkallað páskahret og vonandi það síðasta á þessum vetri, því við erum orðin leið á þessum umhleypingum sem hindra okkur á margan hátt. Vorið virtist á næsta leyti og fyrstu vorblómin útsprungin þegar þetta skall á. Ég var aftur komin með hjólið mitt í notkun, enda veitti mér ekki af hreyfingunni eftir kyrrsetur skammdegisins og var því glöð farin að hlakka til vorverkanna í garðinum og hætt að gefa fuglunum, sem nú hópast aftur í bæinn í leit að æti....
Vel heppnuð "viðgerð"
Dagana 23.-28. mars dvöldum við Rúnar sunnan heiða, þar sem Rúnar fór í hjartaþræðingu á Landspítalanum. Þessi þræðing var gerð til að brenna sár sem voru í hjartanu og rugluðu taktfastann slátt þess, auk þess sem hætta var á blóðtappa vegna segamyndunar.
Aðgerðin heppnaðist mjög vel og Rúnar var útskrifaður eftir rúman sólarhring. Þá tókum við lífinu með ró í vorblíðunni í Hafnarfirði, en við dvöldum hjá sonum okkar á Austurgötunni í Hafnarfirði og fengum okkur rólega göngutúra um Hellisgerði og niður á hafnarsvæðið. Auk þess heimsóttum við systur okkar og hittum marga ættingja og vini, fórum m.a. í brunch með "gömlum" Keldhverfungum og höfðum gaman af.
Við vorum því lukkuleg þegar við héldum heim á leið í gær ásamt Sigga Birki syni okkar sem verður hjá okkur um páskana. En Bergþór verður að vinna og vill líka geta verið með vinkonu sinni þegar hann á frí, en Jóhanna Björg og fjölskylda eru væntanleg heim frá Egyptalandi úr 2ja vikna fríi hjá tengdafjölskyldu hennar. Þau koma því ekki heldur austur að þessu sinni og við misstum því alveg af þeim í þessari ferð...
Sunday, March 21, 2010
Myndlistarsýning !
Í dag, sunnudaginn 21. mars opnaði Rúnar Loftur Sveinsson sína fyrstu málverkasýningu og tók á móti fjölda gesta sem streymdu að, þegar við komum þar við rétt eftir kl. 4 í dag.
Rúnar Loftur stundar aðallega að mála eftirlíkingar af myndum frægra listamanna en þó á hann sín eigin verk sem eru hans hugarsmíð eins og Fjallkonan okkar, sem hér má sjá, eins og Rúnar hefur hugsað sér hana á ferð fótgangandi yfir Fjarðarheiði fyrir rúmum 1000 árum, hlaðin skarti og ekki nógu vel klædd fyrir íslenska veðráttu á heiðum uppi.
Rúnar er mjög vandvirkur og tekst vel upp við ljós og skugga og býður myndir sínar á hóflegu verði, miðað við ýmsa aðra sem verðleggja sig helst til hátt, að mínum dómi.
Þess má geta að Óskar Þórarinsson var kvaddur hinstu kveðju í gær og fjöldi fólks mætti að útförinni, svo bærinn var hálffullur af gestum. Við hýstum m.a. einn bróðir hans ásamt maka, sem vantaði gistingu eina nótt.
Og síðast en ekki síst vil ég geta þess hér (til minnis) að í dag (á boðunardegi Maríu) hófst eldgos á Fimmvörðuhálsi, sem að vísu er ekki mjög stórt, en nóg samt til að stöðva alla flugumferð um landið og hindra ferðalanga á leið um suðurland, svo eitthvað sé nefnt.
Monday, March 15, 2010
Góð helgi fyrir norðan !
Ég var svo heppin að eiga langa helgi 12.-14. mars og fékk auk þess sumarblíðu þegar ég lagði snemma af stað norður á föstudagsmorgni. Á Jökuldalnum voru hópar af hreindýrum á beit á sömu túnum og venja er á þessum tíma og náði ég nokkrum myndum af þeim. Annars stoppaði ég lítið á leiðinni og var komin norður uppúr kl. 12.
Þar var sama sólin og hitablíðan, svo ég fór auðvitað með mömmu góðan rúnt áður en við fórum heim í Hlíð til að fá okkur miðdagsnæringu. Samt byrjaði ég á að skreppa í bankana til að sinna reikningum o.fl. en það tók nú ekki langan tíma.
Við hittum ýmsa ættingja og vini í bænum og nutum dagsins. Auk þess komu Guðný Anna og Sveinn frá Akureyri til að líta eftir ættingjunum, því þau áttu líka langa fríhelgi. Ég skrapp svo um kvöldið til Önnu Maju og Sigga sem voru að eignast 2 barnabörn, tvíbura sem Billi á og er hann nú orðinn 4ra barna faðir :)
En á laugardagsmorgninum brá mér í brún þegar ég leit út og sá að allt var orðið hvítt af snjó á ný, það var sannarlega fljótt að breytast úr sumarblíðu í vetrarkulda...
Þrátt fyrir það áttum við góðar stundir saman við mamma og lásum mikið af gömlum bréfum sem mamma hafði skrifað fjölskyldu sinni þegar hún var ung og var í skóla á Laugum og á Hvanneyri og víðar...
Ég ákvað síðan á sunnudagsmorgni að leggja snemma af stað austur, ef það væri mikil hálka og snjór á leiðinni og fór því af stað strax eftir hádegi. En mér til mestu ánægju var færðin betri en ég þorði að vona og meiri partur leiðarinnar hálkulaus eða hálkulítill, aðeins krapi og bleyta á veginum víðast hvar.
Mér gekk því vel heim aftur og var ósköp fegin þegar heim var komið, því snjóbirtan var ansi mikil á leiðinni og orsakaði vondan höfuðverk sem aldrei er velkominn !
Vonandi fer að fækka hríðardögunum á þessum vetri, svo ég geti farið hjólandi í vinnuna, ekki veitir manni af hreyfingunni eftir margra vikna kyrrsetur í vetur.
Það er gott að vita af vorinu á næsta leiti :)))
Wednesday, March 10, 2010
Viskubrunni lokið og íþróttamaður ársins 2009
Undanfarnar vikur hefur farið fram undanúrslitakeppni í Viskubrunni, spurningakeppni Seyðisfjarðar- skóla, sem er árlegur viðburður hér í bæ á þessum tíma.
Það var svo í kvöld sem að úslitakeppnin fór fram, þar sem 4 efstu liðin kepptu til úrslita. Niðurstaðan var sú að lið Seyðisfjarðarskóla sem kallar sig Gagn og gaman fór með sigur af hólmi og Bæjarskrifstofan eða Seyðisfjarðarkaupstaður varð í 2. sæti. Í þriðja sæti varð svo lið Austfars en Síldarvinnslan rak lestina af þessum fjórum liðum.
Það hefur verið til siðs á lokakvöldi keppninnar að útnefna íþróttamann Hugins fyrir s.l. ár og að þessu sinni varð fyrir valinu hinn ungi og myndarlegi Jón Kolbeinn Guðjónsson. Hann var því miður fjarri góðu gamni, svo að faðir hans tók við verðlaunagripunum fyrir hans hönd.
Að lokum má geta þess að extra góðar veitingar voru í boði í kvöld og gerðu flestir þeim góð skil, enda meiningin að styrkja unga fólkið í 9. bekk sem er að safna sér fyrir útskriftarferð sem farin verður til Danmerkur, áður en 10. bekkur tekur við.
Tuesday, March 09, 2010
Vor í lofti...
Í gærmorgun fékk ég upphringingu, þar sem mér var tilkynnt að niður á lóninu væri lítil falleg önd að spóka sig sem viðkomandi kannaðist ekkert við.
Ég brá mér því með myndavél niður að prestssetrinu og náði nokkrum myndum af þessum virkilega fallega fugli og fann þá út að þetta væri óvenju skrautlegur URTANDARSTEGGUR. Mig minnir að urtendur séu minnstu íslensku endurnar en ég hafði aldrei séð karlfuglinn svona nærri mér og fannst mikið til um litadýrð hans.
Svo þegar ég fékk mér hjólreiðatúr í veðurblíðunni í morgun, þá sá ég mér til ánægju útsprungna krókusa við húsvegg hér í bænum og gat ekki setið á mér að taka mynd af þeim, því það er jú bara 9. mars í dag og því óvenju snemmt að sjá þessi fyrstu vorblóm komin svona langt af stað, því það eru bara 2 dagar síðan snjóinn tók aftur upp eftir 5 vikna kafald.
Svo eru tjaldarnir líka mættir á Vestdalseyrina, en ég er ekki búin að ná myndum af þeim ennþá :)
Að síðustu má geta þess að jafnvel flugur eru byrjaðar að vakna af vetrardvalanum og komnar á kreik, sem líka er viss vorboði :)
Þetta eru ljúfir vorboðar sem gleðja sálartetrið eftir skammdegið og mikil tilhlökkun að vor og sumar skuli vera í nánd :))))))))))))))
Monday, March 01, 2010
Löng helgi á suðvesturhorninu :)
Þó maður eigi langa helgi, þ.e.a.s. 3 daga frí, þá er tíminn ótrúlega fljótur að líða og aldrei hægt að gera allt sem mann langar, þó maður reyni :)
Síðastliðið fimmtudagskvöld flugum við Rúnar suður til að hitta og heimsækja afkomendur okkar og systur, því nú erum við hætt mánaðarlegum suðurferðum, eftir að ég lauk skólanum. Þess vegna finnst okkur við sjá þau alltof sjaldan og reynum að bæta úr því þegar færi gefst.
Föstudagurinn fór að mestu leyti í búðarráp og Rúnar fór í tannaðgerð sem gekk vel. Harpa bauð okkur svo í kjötsúpu um kvöldið og við sátum síðan í mestu makindum hjá henni við sjónvarpið til miðnættis, á meðan synir okkar voru með vina-partý á neðri hæðinni. Rúnar hitti þá í fyrsta sinn, ágæta vinkonu Bergþórs, Hildi Ingu sem var með strákunum þetta kvöld.
Eftir heimsókn til Ellu og Árna á laugard. fórum við til Jóhönnu og co í Keflavík og áttum þar góðar samverustundir framyfir hádegi á sunnudag. Þá drifum við okkur aftur til Rvk og fórum til Diddu systur og co. Loks fórum við út að borða og buðum Bergþóri og Hildi með okkur og hittum svo Sigga og Hilmi í bíó en við buðum þeim öllum með okkur á myndina "Loftkastalinn sem hrundi" og ekki hægt að segja annað en að hún hafi staðið undir væntingum eins og hinar tvær fyrri Millennium myndirnar.
Í morgun kl 7:30 flugum við svo af stað austur og lentum þar í sól og blíðu veðri, en við fengum reyndar líka sól fyrir sunnan í gær, en hina dagana var hríðarveður og hálf ófært um götur stórborgarsvæðisins. Meira að segja fór rafmagnið um tíma og þá urðu öll götuljós óvirk, svo menn urðu bara að sýna kurteisi og aka eins og herramenn og ekki sá ég annað en það gengi bara vel, enda komumst við leiðar okkar án áfalla af þess völdum :)
Subscribe to:
Posts (Atom)