Monday, March 15, 2010

Góð helgi fyrir norðan !




Ég var svo heppin að eiga langa helgi 12.-14. mars og fékk auk þess sumarblíðu þegar ég lagði snemma af stað norður á föstudagsmorgni. Á Jökuldalnum voru hópar af hreindýrum á beit á sömu túnum og venja er á þessum tíma og náði ég nokkrum myndum af þeim. Annars stoppaði ég lítið á leiðinni og var komin norður uppúr kl. 12.
Þar var sama sólin og hitablíðan, svo ég fór auðvitað með mömmu góðan rúnt áður en við fórum heim í Hlíð til að fá okkur miðdagsnæringu. Samt byrjaði ég á að skreppa í bankana til að sinna reikningum o.fl. en það tók nú ekki langan tíma.
Við hittum ýmsa ættingja og vini í bænum og nutum dagsins. Auk þess komu Guðný Anna og Sveinn frá Akureyri til að líta eftir ættingjunum, því þau áttu líka langa fríhelgi. Ég skrapp svo um kvöldið til Önnu Maju og Sigga sem voru að eignast 2 barnabörn, tvíbura sem Billi á og er hann nú orðinn 4ra barna faðir :)
En á laugardagsmorgninum brá mér í brún þegar ég leit út og sá að allt var orðið hvítt af snjó á ný, það var sannarlega fljótt að breytast úr sumarblíðu í vetrarkulda...
Þrátt fyrir það áttum við góðar stundir saman við mamma og lásum mikið af gömlum bréfum sem mamma hafði skrifað fjölskyldu sinni þegar hún var ung og var í skóla á Laugum og á Hvanneyri og víðar...
Ég ákvað síðan á sunnudagsmorgni að leggja snemma af stað austur, ef það væri mikil hálka og snjór á leiðinni og fór því af stað strax eftir hádegi. En mér til mestu ánægju var færðin betri en ég þorði að vona og meiri partur leiðarinnar hálkulaus eða hálkulítill, aðeins krapi og bleyta á veginum víðast hvar.
Mér gekk því vel heim aftur og var ósköp fegin þegar heim var komið, því snjóbirtan var ansi mikil á leiðinni og orsakaði vondan höfuðverk sem aldrei er velkominn !
Vonandi fer að fækka hríðardögunum á þessum vetri, svo ég geti farið hjólandi í vinnuna, ekki veitir manni af hreyfingunni eftir margra vikna kyrrsetur í vetur.
Það er gott að vita af vorinu á næsta leiti :)))

1 comment:

Asdis Sig said...

Yndislegar myndir að vanda og gott að heyra hvað ferðin gekk vel. Vildi að kæmist oftar norður. Var einmitt að frétta að Bogga og Pálmi hefður verið að eignast tvíbura barnabörn, eru þau nokkuð par, dóttir þeirra og Billi, eða eru Húsvíkingar almennt orðnir svona frjósamir? kær kveðja Ásdís