Sunday, November 14, 2010
Föndrað um helgina !
Ég hef verið mjög heppin undanfarna áratugi þegar kemur að veikindum eða lasleika og kann hreinlega ekki að vera veik heima. Mér brá því svolítið þegar vond hálsbólga, hósti og nefrennsli fór að angra mig á föstudaginn og var orðin svo óhress um kvöldmat að ég vafði mig í teppi og drakk heitt fjallagrasate í stað þess að rölta með bæjarbúum í árlegri myrkragöngu yfir í kirkjuna okkar á samverustund. Ekki var ég hressari morguninn eftir og úti var hundslappadrífa, svo ég komst í jólaskap og ákvað að búa til dálítið af jólakortum, því alltaf þarf ég að senda nokkra tugi til ættingja og vina, sum víða um heim. Ég þurfti reyndar að skutla Reyni bónda í flug og lentum við í hálfgerðri ófærð, en þá kom plógurinn og við eltum hann alla leið yfir heiðina.
En ég kveið heimferðinni þó það væri óþarfi, því plógurinn hafði hreinsað svo vel báðar hliðar vegarins að allt gekk vel og ég gat haldið áfram við kortagerðina.
Kláraði svo á sunnudaginn að prenta inní þau jólakveðjurnar, svo nú er bara eftir að skrifa á umslögin, þá eru þau tilbúin til brottfarar.
Það er gott að vera búin að einhverju, því nóg er eftir samt :)
Friday, November 12, 2010
Góð helgi norðan heiða :)
Snemma s.l. laugardags- morgunn 6. nóv. héldum við Rúnar norður til Húsavíkur í sól og fallegu vetrarveðri. Ég hef haft það fyrir sið að taka myndir af Herðubreið í flestum mínum ferðum yfir fjöllin og fengið alls konar útgáfur. Að þessu sinni var óvenju bjart, þó skýjahetta væri að vanda yfir fjallinu. Við áttum síðan góðar stundir fyrir norðan með mömmu og systkinum hennar og síðast en ekki síst gömlu skólasystrunum sem ákváðu að fara út saman og borða á Sölku og rifja upp gamlar minningar o.fl. Það var afskaplega ljúft og maturinn líka fínn.
Við héldum ekki heimleiðis fyrr en á mánudagsmorgunn 8. nóv. en þá var komin hríðarmugga og hélst þannig alla leið austur á Jökuldal, en þá loksins létti til og varð bjartara eftir því sem austar dró. Þrátt fyrir hálku á leiðinni og lélegt skyggni, þá gekk ferðin vel og ég er mjög fegin að hafa komist heil á húfi fram og til baka að venju, því ekki er sjálfgefið að alltaf gangi manni vel :)
Góður samstöðufundur bæjarbúa á Seyðisfirði
Föstudaginn 5. nóv. 2010 mættu Seyðfirðingar vel á samstöðufund sem haldinn var í Herðubreið til að standa saman um sjúkrahúsið okkar og leggja eitthvað af mörkum svo hægt væri að kaupa nýjar röntgengræjur sem bráðvantar núna.
Það verður að segjast eins og er, að viðbrögðin voru mjög góð og slysavarnadeildin Rán gaf 1 milljón, ég lagði inn 500 þús. fyrir hönd stjórnar RKI deildarinnar hér og við bæjarbúar gáfum eftir efnum og ástæðum. Einnig þykist ég vita að Lionshópurinn hér ætli að styrkja þetta framtak og vafalaust útgerðin og fleiri aðilar. Þannig að við sjáum fram á að tækin komi fljótlega, því Hollvinafélag HSA (sem ég er félagi í) leggur til 2 milljónir af þeim 6 sem tækið kostar. Það þýðir ekki annað en vera bjartsýn og berjast saman fyrir þeim góðu málum sem skipta okkur svo miklu máli....
Þess má að lokum geta að stórfín skemmtiatriði voru á milli ræðuhalda og að lokum voru flutt bráðskemmtileg söngatriði sem samin voru fyrir 70 ára afmæli Þorvaldar Jóhannsonar fyrr á árinu....
Monday, November 01, 2010
Leiðindaveðrið um helgina !!!
Það var ekki laust við að veðrið væri leiðinlegt á laugardaginn, rok og rigning og snjóaði til fjalla. Við Rúnar ætluðum norður til mömmu þessa helgi, en urðum að slá því á frest. Ég hafði reyndar nóg að gera alla helgina, söng við minningarathöfn síðdegis á föstudaginn og við jarðarför á laugardaginn. Fór síðan á safnaðarfund uppí Kirkjumiðstöðina við Eiða ásamt Grétari Einars og Cecil á sunnudaginn, þar sem rætt var um kosti þess og galla að sameina prófastsdæmin tvö hér á Austurlandi. Viðstaddir unnu í 4 hópum og komu með tillögur, sem að lokum vorum settar saman í ályktun sem fundurinn sendi frá sér til kirkjuþings.
Meðfylgjandi mynd af rjúkandi fossum tók Rúnar hinsvegar í rokinu á laugardaginn og sagði að stærri fossarnir hefðu verið tilkomumiklir en vegna veðurs komst hann ekki nógu nærri þeim til að taka góðar myndir....
Árlegur haustfundur austfirskra bókavarða...
S.l. föstudag fórum við Kári samstarfsmaður í ótryggu veðri yfir heiðina, en allt gekk vel og þó veðrið hefði versnað og heiðin væri orðin illfær á heimleiðinni, þá komst ég heil til baka og varð fegin þegar ég komst á leiðarenda, því fátt er mér verra við en hálkuna á heiðinni.
Frá því ég hóf störf sem bókavörður á Bókasafni Seyðisfjarðar, hef ég mætt á árlega haustfundi austfirskra bókavarða, sem haldnir hafa verið í Þekkingarneti Austurlands á Egilsstöðum. Á hverju ári bætast við nýir starfsmenn og aðrir hverfa af vettvangi eins og gerist og gengur. En alltaf er samt jafn gaman og fróðlegt að hittast og spjalla um okkar málefni. Þær stöllur Sigrún og Telma sem vinna við gagnagrunn Gegnis.is mæta alltaf og fræða okkur um nýjustu breytingar sem gerðar hafa verið á gagangrunninum.
Að þessu sinni var Nielsens kaffihúsið lokað, en þar höfum við snætt saman öll þessi ár, en núna fórum við á nýja veitingahúsið rétt hjá gamla sláturhúsinu á Egilsstöðum og fengum þar ljómandi góðan mat. Ég held að allir hafi verið vel saddir og sáttir :)
Subscribe to:
Posts (Atom)