Monday, July 04, 2011

Sólrík helgi fyrir norðan !







Við Rúnar renndum norður á Húsavík eftir hádegið s.l. fimmtudag í sól og blíðu alla leið, því þennan morgun vöknuðum við í sólskini í fyrsta sinn í langan tíma. Við komum reyndar við í Mývatnssveit hjá einni skólasystur minni sem rekur þar gistiþjónustuna Lúdent á sumrin og fengum hlýjar móttökur hjá þeim hjónum að vanda. Við heilsuðum uppá mömmu og nokkra fleiri ættingja og vini þegar við komum til Húsavíkur en á föstudagsmorgni fórum við til Akureyrar því ég þurfti til augnlæknis. Fékk svör þó engin bót fáist af mannavöldum. Við notuðum tækifærið og sinntum ýmsum öðrum erindum í leiðinni, því svo margt fæst þar sem ekki er hægt að fá hér eystra. Á heimleiðinni kíktum við á 2 kirkjur sem við höfum aldrei skoðað, en það eru gamla Ljósavatnskirkjan og nýja vegakirkjan sem nefnd er Þorgeirskirkja til heiðurs Þorgeiri ljósvetningagoða sem þarna bjó forðum. Við heimkomuna klæddum við okkur uppá og fórum út að borða með Sigrúnu vinkonu sem þarf svo sannarlega á upplyftingu að halda eftir að missa Hauk alltof fljótt. Við hittum ýmsa ættingja og vini og áttum gott kvöld á veitingahúsinu Naustið sem þær Anna Ragnars og Ella Kristjáns reka, en þær voru reyndar ekki við þetta kvöld. Laugardeginum eyddum við bæði hjá mömmu og við tiltekt í kringum húsið, slógum lóðina og sáðum fræjum í moldarsárin við næsta hús.
Veðrið var einstaklega gott og yfir 20 stiga hiti, en mývargurinn var duglegur að bíta mig, en einhverra hluta vegna slapp Rúnar í þetta sinn. Húsavíkurfjall er orðið svo grænt að lítið vantar á að það sé alþakið lúpínu, sem byrjuð var að blána... Sunnudagsmorgninum eyddum við hjá Önnu Maju og Sigga í góðu yfirlæti og hún sendi mig af stað með forláta sjal eða hálstrefil sem hún var búin að prjóna. Við kvöddum svo alla og héldum austur í góðu veðri, en komum í þoku og súld hér eystra, enda veður helgarinnar ekki eins gott hér eins og fyrir norðan.

1 comment:

Asdis Sig said...

Þetta hefur verið dásamleg ferð, fallegar myndir að vanda. kveðja