Monday, March 26, 2012

Bjargdúfurnar bjarga sér :)


Í vetur á meðan snjórinn var, þá settum við upp spörfuglafóðrara í stóru öspina í von um að snjótittlingar og aðrir spörfuglar lærðu að nota hann. En satt að segja þá litu þeir ekki við honum, svo hann beið bara eftir skógarþröstunum sem trúlega kynnu að meta hann þegar þeir kæmu til landsins. En Bjargdúfurnar voru fyrri til, þær koma hér daglega í von um æti og uppgötvuðu þessa fóðuruppsprettu og voru ekki lengi að tæma dallinn og setjast síðan í tréð en það hafa þær aldrei gert áður...

Sumarblíða í mars !





Síðustu 3 dagar 23.-25. mars voru sannkallaðir sumardagar hér á Seyðisfirði, því veðurblíðan var slík að margir spókuðu sig utandyra á stuttbuxum og bolum, enda fór hitamælirinn hjá okkur í 19 gráður á föstudaginn en aðeins minna um helgina. Við Rúnar fórum bæði hjólandi og akandi um fjörðinn m.a. til að kanna fuglalífið hér, sem var óvenju rólegt í blíðunni og tókum dálítið af myndum af fólki, hlutum og fiðurfé sem naut sólarinnar í logninu. Gróðurinn hefur líka verið að gægjast uppúr moldinni og fyrstu krókusarnir í okkar garði sprungu út á föstudaginn og runnar og tré eru við það að laufgast, sem er alltof snemmt, því ótrúlegt er að ekki komi vorhret á næstu vikum.... þó auðvitað sé óskandi að svo verði ekki og veðráttan er orðin svo furðuleg að allt virðist geta gerst ???

Saturday, March 17, 2012

Hörð lífsbarátta dýranna !



Það var mögnuð sjón að standa 3 metra frá smyrli sem hámaði í sig dúfu sem hann var búinn að drepa, án þess að nærvera mín hefði áhrif á hann.
Það var Unnur Óskarsdóttir kennari sem hringdi í mig og sagði mér frá smyrlinum á skólalóðinni, þar sem börnin hoppuðu í kringum fuglana, án þess að trufla, að því er virtist.
Svo mætti hingað grákráka sem er sjaldséður flækingur á Íslandi. Því miður hefur mér ekki tekist að berja hana augum, þó Rúnari og mörgum fleirum hafi tekist það. Ég er þó búin að fara margar ferðir í leit að henni og náði í eitt skiptið meðfylgjandi mynd af selnum sem virðist una sér vel á steinunum í lóninu á góðviðrisdögum...