Þó ekki sé mikið um flækinga hér á vetrum, þá líður þó aldrei sá vetur að ekki sjáist nokkrir slíkir og sumir halda til hér stóran hluta vetrar. T.d. Glóbrystingar sem eru árlegir gestir. Einn mætti hér í vetur og hefur haldið til á Múlaveginum hjá Heiðari Þorsteins. Fastagestir eru gráþrestir og svartþrestir sem mæta daglega í fóðrið sem við berum út daglega á meðan snjór hylur jörðu. Einnig bjargdúfur og snjótittlingar sem eru hér allt árið. Einn stari var hér um tíma í vetur, þeir eru flækingar hér, þó þeir séu algengir á suðvesturhorni landsins. Rjúpur mæta líka í bæinn þegar allt er á kafi í snjó.
Ísmáfur er hinsvegar sjaldséður gestur hér á landi, en einn slíkur kíkti í heimsókn og Rúnar náði nokkrum myndum af honum. Hér má sjá hann ásamt ungum ógreindum máf sem er heldur stærri og heldur til hér allt árið. Svo mætti hér lómur sem var vankaður, líklega eftir árekstur og rataði ekki til sjávar, svo við tókum að okkur að flytja hann á réttan stað. Einnig villtust nokkrir svartfuglar á land, kannski á flótta undan veiðimönnum ? Loks má nefna einn nágranna okkar sem farinn er að sjást nokkuð oft, þ.e. músarindill, sem aldrei er kyrr og stoppar stutt, svo erfitt er að ná myndum af honum. En það hefur samt tekist nokkrum sinnum í seinni tíð :)
No comments:
Post a Comment