Þann 18. desember 2021 var liðið nákvæmlega 1 ár frá því að STÓRA aurskriðan féll og sópaði burtu flestum húsunum 10 í sjóinn. En til að minnast dagsins var grenitréð sem stóð utan við Silfurhöllina skreytt með seríu og hópur fólks mætti með útikerti og kveikti þar ljós til minningar og í þakklætis skyni að enginn skyldi deyja í þessum hamförum. Janet útbjó líka fallegar teikningar af horfnu húsunum og setti á ljósastikur við tréð.
Thursday, December 23, 2021
Jólakaffi í Öldutúni !
Bakstur fyrir jólin !
Jólahlaðborð á Hallormsstað !
Restin af ferðasjóði Gullversmanna var notuð til að fara á jólahlaðborð á Hallormsstað. Við meira að segja gistum þar, þó ansi væri kalt í herberginu sem við fengum, en höfum upplifað það verra :) Það var óvænt ánægja að hitta Villu vinkonu og Fúsa um morguninn, en þau höfðu snætt í öðrum sal en við kvöldið áður !
Thursday, December 09, 2021
Friday, November 26, 2021
Ljósaganga gegn kynbundnu ofbeldi !
Síðdegis í gær gengum við 25+ manns í Ljósagöngu gegn kynbundnu ofbeldi sem var vel sótt og gengið frá kirkjunni og yfir að Skaftfelli. Það er sorglegt að mannkynið skuli enn vera á svona lágu plani að karlmenn víðast hvar í heiminum skuli beita konur bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi í stað þess að koma fram við þær eins og jafningja, sem þær að sjálfsögðu eru
Veturinn farinn að sýna klærnar !
Það hefur verið ansi blautt veðurfar hér í haust og lítið um snjó, en nú er þetta að breytast og frost orðið daglegt brauð. Við fáum því trúlega hvít jól í þetta sinn ?
Uppskerustörfin loksins kláruð !
Ég ákvað að breiða plast yfir gulrótabeðið í haust þegar fór að kólna og snjóa til að geta geymt gulræturnar sem eftir voru sem allra lengst í moldinni og það gekk vel. En núna í nóvember þegar vel viðraði, þá dreif ég mig í að klára að taka upp restina og fékk ljómandi góða uppskeru.
Dísa Bergs látin !
Þann 8. okt. 2021 lést Þórdís Bergsdóttir á Seyðisfirði, en hún var í 2 áratugi eins og mamma okkar allra sem vorum í Sáló og mættum vikulega heim til hennar á Öldugötuna (Herinn) og áttum þar saman margar góðar hugleiðslu og samverustundir sem ég er þakklát fyrir að eiga góðar minningar um. Við fórum líka saman á námskeið og í tvær ferðir norður í land, sem var líka mjög skemmtilegt <3
Ég var beðin um að skanna allt myndasafnið hennar fyrir stuttu og voru það tæpar 2000 myndir, sem gaman var að skoða og geymi afrit af þeim !
Saturday, October 09, 2021
Vinnuferð til Húsavíkur !
Ég hef víst alveg gleymt að minnast hér á ferðina okkar norður til að skipta um þakið á Hlíð, þegar Didda og Rúnar gátu loks komið líka. Siggi Birkir kom líka og við vorum búin að setja upp stillasana og byrjuð að losa þakplöturnar er þau mættu að sunnan. Við vorum mjög heppin með veður og það tókst að klára að skipta um þennan hluta þaksins sem mest lá á að laga áður en fór að rigna og gátum því farið róleg aftur heim, því nú er aðeins eftir skárri hluti þaksins sem snýr í suðvestur og getur beðið !
Friday, October 08, 2021
Vikuleg spilakvöld í Öldutúni !
Það eru liðin ansi mörg ár síðan við Rúnar mættum reglulega á spilakvöld eins og venjan var hér á árum áður. En nú í lok september vorum við drifin af stað til að taka þátt í þessum félagsskap og höfum nú spilað tvisvar með hópnum, sem er hress og duglegir spilafélagar. Hér má sjá hópinn sem mætti fyrra kvöldið, en við vorum fleiri nú síðast eða 16 manns !
Hlaðborð á Hallormsstað
Eldri borgarar voru boðnir á hlaðborð í Hallormsstað og við Rúnar ákváðum að skella okkur með þeim og höfðum gaman af, þó ég væri reyndar að glíma við ristilstíflu og ristil sem háir mér, en það kom samt ekki í veg fyrir að við hefðum gaman af þessari ágætu ferð !
Skriðusvæðið skreytt með blómum !
Svavar Garðarsson frá Búðardal kom til Seyðisfjarðar með fullan bíl af sumarblómum til að skreyta skriðusvæðið hjá okkur og gerði það vel. Við spjölluðum við hann og ég komst að því að hann var fyrrum nágranni og leikbróðir Svanhildar frá Klukkufelli fyrrum pennavinkonu minnar 😂
Vörðurnar á Fjarðarheiði!
Helgi Hallgrímsson hafði samband við mig og óskaði eftir aðstoð við að mynda gömlu vörðurnar sem enn standa á og við Fjarðarheiði. Við drifum okkur strax af stað og ég tók myndir af þeim eins og um var beðið og sendi þær til Helga sem ætlar að nota þær í bók sem hann er með í smíðum um þessar vörður sem vísuðu fólki leiðina yfir Fjarðarheiði fyrir einni öld og þar á undan...
Gönguferð um efri staf og fjallagrös tínd...
Síðast en ekki síst, þá notuðum við einn góða haustdaginn til fjallgöngu upp með Fjarðaránni og tíndum fjallagrös og skoðuðum ruslasvæðið þar sem gamli skíðaskálinn stóð forðum, en leifar hans liggja enn á svæðinu, þó lítið beri á þeim. Bröltum svo yfir Fjarðarána og sluppum með skrekkinn. Kíktum svo í veiðikofann hans Bogga, sem vonandi nýtist honum vel í framtíðinni við refaveiðar á svæðinu :)
Heimsókn í Hjaltastaðakirkju og brölt uppá Kóreksstaðavígi
Við fórum enn eina ferð upp á Hérað og gengum uppá Kóreksstaðavígi og heimsóttum frænda Rúnars og hans konu skammt frá Hjaltastaðakirkju sem við skoðuðum líka, ásamt læknisbústaðnum gamlar sem þar er. Vorum heppin með veður og nokkuð þreytt eftir allt þetta brölt !
Sunday, August 29, 2021
Skroppið í Miðhúsasel og fleira !
Bíllinn okkar var með leiðindi í sumar, kraftlaus, svo Rúnar fór með hann á verkstæði og við fengum að nota bílinn hans Sigga á meðan við biðum. Ákváðum að skreppa í Miðhúsasel, þar sem Eiríkur tengdó fæddist og ólst upp, enda höfum við ekki komið þangað í allavega áratug eða meira. Hittum þar núverandi eiganda og fengum ýmsar upplýsingar um staðinn.
Skroppið til Húsavíkur í stutta vinnuferð !
Við drifum okkur til Húsavíkur í smá vinnuferð, fyrst að Didda + Rúnar gátu ekki komið norður í þakvinnuna. Rúnar kláraði að setja upp nýtt útiljós og viftuna á háaloftið. En ég sá um að slá lóðina og snúast við ýmislegt að vanda. Heimsóttum líka Villu + Fúsa í nýju íbúðina þar sem Guðný Ragnars býr. Eiríkur systursonur Rúnars og Rebekka dóttir hans komu og gistu hjá okkur í Hlíð, en þau voru áður búin að vera hjá okkur á Seyðisfirði, en Auður var í gönguferð uppi á fjöllum.
Ber og sveppir tínd í blíðuveðri...
Eftir óvenju sólríkt og hlýtt sumar er mikið um ber hér í kring og því fórum við að tína þau, mest aðalbláber, en einnig bláber og krækiber. Ég bjó bæði til saft og sultu og frysti heilmikið. Fórum síðan að tína hindber og hrútaber á Hallormsstað og loks sveppi eftir að fór að rigna, svo nú er vetrarforðinn orðinn nægur. Skessujurtin er líka komin í krúsir en ég á eftir að taka upp kartöflur og gulrætur sem fá að bíða aðeins. Paprikur og tómata hef ég innan húss, en jarðarber + sólber utandyra.