Wednesday, December 26, 2007
Jólin 2007
Heil og sæl og gleðilega jólarest.
Vonandi eru allir saddir og sælir núna og hafa notið frídaganna sem voru kærkomnir.
Það er búið að vera kátt í okkar koti síðan 22. des. því öll börnin, tengdasonurinn og dóttursonurinn komu öll heim þann dag. Í stað Þorláksmessuskötu var borðuð andasteik á okkar heimili, því Rúnar og Mo fóru í smá siglingu út fjörðinn og náðu í 4 endur og nokkra svartfugla til tilbreytingar í matinn.
Kalkúnn var aðalréttur jólanna og hið hefðbundna ananasfromage í eftirrétt að vanda.
Bláberjalegið lambalæri var á annan í stað hangikjötsins sem tengdasonurinn er orðinn hálf leiður á vegna þess hve oft hann borðar það í vinnunni fyrir jólin, sem kokkur á flughótelinu í Keflavík.
Hefðbundnar jólamessur eru inní í mínu jólaprógrammi flest jól. Fyrst er hátíðamessan á aðfangadagskvöld kl 6 og á jóladag eru tvær messur, fyrst á sjúkrahúsinu kl 1 og síðan almenn jólamessa í bláu kirkjunni kl 2. Við vorum nokkuð mörg í kórnum að þessu sinni og mér fannst hópurinn hljóma vel, þó ég segi sjálf frá.
Í dag var árlegt fjölskyldukaffi hjá Binnu og Magga, en þangað mætum við með tertu eða annað meðlæti með okkur og hittum alla ættingja Rúnars þar samankomna.
Og í kvöld keyrðum við Jóhönnu og fjölskyldu upp á flugvöll, en þau urðu að drífa sig heim, enda vinnudagur hjá þeim báðum á morgun og sömuleiðis hjá mér. En á föstudaginn er stefnt á ferð norður til Húsavíkur (ef veðurguðinn lofar) en þá stendur til að flytja foreldra mína af sjúkrahúsinu yfir í Hvamm, dvalarheimili fyrir eldri borgara, en þar hafa þau nú fengið húsnæði sem hentar þeim. Vonandi gengur sú ferð að óskum. Áramótunum ætlum við síðan að eyða hér heima með sonum okkar sem ekki þurfa að yfirgefa okkur fyrr en á nýársdag, þá aka þeir væntanlega suður ásamt félaga þeirra Böðvari Péturssyni sem kom með þeim austur.
Gleðilegt nýár - þið sem lesið þetta - og bestu þakkir fyrir það liðna....!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Gleðilegt ár Solla mín og takk fyrir þau liðnu!
Post a Comment