Monday, March 23, 2009
Íslenskur vetur norðaustanlands...
Það virðist sama hvernig íslenski veturinn er, alltaf finnst manni hann vera of langur, kaldur, dimmur og óskemmtilegur. Líklega vegna þess hve óstöðugt veðurfarið er, maður veit aldrei á hverju er von frá degi til dags og er mjög vanmáttugur gagnvart höfuðskepnunum sem ráða hér ríkjum árið um kring. Ef við ættum það
víst að fá gott vor, sumar og haust, þá væri skárra að sætta sig við langan og oft erfiðan vetur, en því miður er ekkert samasemmerki þar á milli og allra veðra von á öllum tímum árs.
Vegna tíðra ferða minna norður til Húsavíkur þá skiptir miklu máli að veður og færð sé þolanlegt og oft þarf maður að sitja heima, vegna ófærðar og veðurs þegar það hefði hentað að nota helgina til norðurferðar. Oftar en ekki hef ég þó verið mjög heppin með veður og færð á þessum mánaðarlegu ferðum mínum.
Við Rúnar skruppum norður núna um helgina 21.-22. mars og fengum sól og blíðu í báðum ferðum. Þó að snjór liggi yfir jörðu á öllu norðausturlandi, þá var vegurinn auður og þurr eins og að sumri til.
Rjúpur hafa vappað hér um garða undanfarnar vikur á meðan jarðbönn voru til fjalla og þrátt fyrir sól og blíðu á Húsavík, þá voru þær enn niður við garðana þar og glöddu augu okkar með nærveru sinni.
Ég hef ekið þessa leið norður til Húsavíkur í 35 ár og aldrei tekið eftir kirkju á Jökuldal og hafði orð á því við Rúnar á leiðinni norður. Hann vissi betur en ég og ók með mig niður að Hofteigsstaðakirkju sem er staðsett á miðjum Jökuldal, neðan þjóðvegar og úr augsýn vegfarenda. Þetta sannar fyrir mér enn og aftur hvað maður er duglegur að aka beina leið frá A til B án þess að kanna málið og skoða það sem er markvert á leiðinni. Ég ætla að reyna að leggja mig fram um að gera betur framvegis...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fallegar myndir hjá þér Solla mín, já það borgar sig oft að keyra aðeins út af aðalleiðum, þar leynist margt. Hér er ágætis veður, þurrt en ekki sól. Fór í þjálfarann í dag. Kær kveðja austur.Ásdís
Post a Comment