Monday, March 23, 2009

Stóra upplestrarkeppnin


Ég fékk óvænta upphringingu fyrir nokkru. Það óvænta var að ég var beðin um að vera dómari í Stóru Upplestrar-keppninni sem fer fram á milli krakka úr 7. bekk víðast hvar af Austurlandi. Að þessu sinni fer hún fram í bláu kirkjunni á Seyðisfirði 1.apríl nk.
En fyrst fer fram undankeppni í hverjum skóla og valdir eru tveir nemendur úr hópi keppenda til að vera sem fulltrúar skólans.
Þessi undankeppni fór fram hér á Seyðisfirði í kvöld, 23. mars. Ég mætti auðvitað í Skaftfell til að hlusta og æfa mig að dæma og komst strax að nokkuð afgerandi niðurstöðu um hvaða nemendur væru bestir, en velja átti 2 til að keppa og 1 til vara.
Mér til ánægju voru dómarar kvöldsins sammála mér, þannig að ég mun væntanlega verða rólegri þegar að aðalkeppninni kemur, þar sem ég þykist vita að dómgreind mín á þessu sviði sé í nokkuð góðu lagi.
Meðfylgjandi er mynd af keppendum kvöldsins sem allir fengu páskaegg fyrir þátttökuna en sigurvegarar kvöldsins sem voru Ríkey Ásta Þorsteinsdóttir og Arnar Bogi Ómarsson fengu að auki bók hvort fyrir frammistöðuna. Agnes Berg Gunnarsdóttir verður síðan varamanneskjan sem hleypur í skarðið ef annað hvort hinna getur ekki tekið þátt í Stóru-keppninni...

1 comment:

Anonymous said...

Ég held þú sért frábær í að dæma svona keppni. Gangi ykkur vel.